ER SJÁLFSTÆÐISFLOKKNUM TREYSTANDI FYRIR HAGSTJÓRNINNI

Í Silfri Egils s.l. sunnudag 22. apríl lýsti Agnes Bragadóttir, stjörnublaðamaður Morgunblaðsins,
því yfir, að hana hryllti við tilhugsuninni um vinstristjórn eftir kosningarnar 12. maí. Að baki þessum ummælum
Agnesar býr trúlega hin lífseiga goðsögn um, að Sjálfstæðisflokknum sé einum treystandi fyrir hagstjórninni. En er það svo? Hver er dómur staðreyndanna?

“EES-samningurinn breytti öllu.”

Eftir að áhrifa EES- samningsins tók að gæta upp úr 1994 hefur ríkt nær samfellt góðæri á Íslandi, þótt slegið hafi í bakseglin um og upp úr aldamótunum. EES-samningurinn meira en hundraðfaldaði hinn örsmáa íslenska heimamarkað, innleiddi evrópskar samkeppnisreglur, greiddi fyrir stórauknum viðskiptum og skapaði tækifæri til nýrra fjárfestinga. Þar með hófst nýtt framfaraskeið á Íslandi. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Einar Sveinsson, formaður bankastjórnar Glitnis: EES-samningurinn breytti öllu.

EES-samningurinn var að því er varðar efni og inntak fullfrágenginn í tíð vinstri
stjórnar Steingríms Hermannssonar og órjúfanlega tengdur nafni fv. formanns Alþýðuflokksins, sem stýrði samningsgerðinni frá upphafi til enda fyrir Íslands hönd. Alþýðuflokkurinn var eini flokkurinn, sem studdi EES-samninginn heill og óskiptur. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti samningnum, þegar hann var í stjórnarandstöðu, en skipti um skoðun eftir kosningar 1991. Samningurinn var mjög umdeildur í kosningunum 1991. Sjálfstæðisflokkurinn forðaðist að láta brjóta á sér með stuðningi við samninginn. Eftir að Alþýðuflokkurinn gerði stuðning við EES-samninginn að skilyrði við myndun Viðeyjarstjórnarinnar 1991, greiddu flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði með samningnum, þótt ýmsir áhrifamenn í flokknum væru á móti.

Heimilin borga fyrir hagstjórnarmistökin.

Árið 2001 tók Seðlabanki Íslands upp þá stefnu að hafa fljótandi gengi með yfirlýstu markmiði um lága verðbólgu. Eftir það var fyrirsjáanlegt, að meira mundi reyna á ríkisfjármálin og efnahagsstefnu stjórnvalda, til þess að viðhalda stöðugleika. Á s.l. kjörtímabili, sem lýkur 12. maí n.k., er það samdóma álit allra dómbærra aðila, að hagstjórn ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins hafi brugðist.

Meginástæðan var ekki Kárahnjúkavirkjun og álverið eystra, þótt þessar lánsfjármögnuðu stórframkvæmdir spenntu bogann til hins ýtrasta. Innstreymi erlends lánsfjár á sama tíma til að fjármagna húsnæðíslánamarkaðinn að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sjálfrar og með atbeina bankanna kollvarpaði stöðugleikanum. Í upphafi styrktist gengi krónunnar við þetta, sem kynti undir einkaneyslu og viðskiptahalla, sem hefur slegið heimsmet í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. Meðfylgjandi skuldsetning þjóðarbúsins – og íslensk heimili eru nú orðin hin skuldugustu í heimi – veikti traust á gjaldmiðlinum og hleypti af stað verðbólguöldu, sem enn er ekki séð fyrir endann á. Í 55 mánuði af 72 hefur verðbólgan verið langt yfir yfirlýstum markmiðum Seðlabankans. Skortur á aðhaldi í ríkisrekstri, sem keyrt hefur um þverbak í aðdraganda kosninganna, vinnur gegn peningamálastefnunni og ýtir undir verðbólguna. Vinstri höndin veit ekki, hvað sú hægri gerir. Hagstjórnin, sem á að snúast um það að koma á og viðhalda stöðugleika, hefur brugðist.

Uppi í Seðlabanka situr fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, og reynir af veikum burðum að slökkva þá elda, sem hann kveikti í forsætisráðherratíð sinni. Með því að slá OECD met í vaxtahækkunum hjá bankakerfinu, telur hann sig vera að slá á verðbólguna. En þar sem skuldir heimilanna eru að stærstum hluta í verðtryggðum langtímalánum á föstum vöxtum hafa þessir okurvextir lítil áhrif til þess að slá á lánsfjáreftirspurn. En verðbólgureikningurinn, sem bætist við höfuðstól lánanna í gegnum verðtrygginguna, hefur aukið útgjöld hinnar skuldugu fjölskyldu um hálfa milljón á ári næstu áratugina.

Hættuástand framundan.

Vegna óstöðugleika krónunnar hafa fyrirtækin í landinu orðið að búa við meira en 40% sveiflu í helstu raunstærðum sínum, eins og tekjum, gjöldum og greiðslubyrði af lánum. Forstjóri Marels segir, að engar fjárfestingar geti risið undir meira en 20% ávöxtunarkröfu, eins og vaxtastigið á Íslandi útheimtir. Fyrirtækin hafa því í vaxandi mæli neyðst til að forða sér undan hagstjórnarmistökum stjórnvalda með því að taka upp evru. Einstaklingar, þeir sem það geta, reyna að fylgja fordæmi þeirra. Íslenska krónan er því ekki lengur nothæfur gjaldmiðill í alvöru viðskiptum. Forystulið atvinnulífsins hefur að undanförnu glatað trausti á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og er í vaxandi mæli fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru til að tryggja þann lágmarksstöðugleika, sem þeim er lífsnauðsyn. Þetta er enn ein vantraustsyfirlýsingin á stjórnarstefnuna frá máttarstólpum atvinnulífsins.

Stjórnarflokkarnir segja, að Evrópusambandsaðild sé ekki á dagskrá. Veruleikinn hefur hins vegar gengisfellt þá stefnuyfirlýsingu. Markmiðslýsingin ein og sér um inngöngu í Evrópusambandið getur veitt stjórnvöldum aðhald í að ná niður vöxtum, verðbólgu og viðskiptahalla, eins og nauðsynlegt er til að uppfylla sett skilyrði um inngöngu. Þannig er stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum út úr öllu korti miðað við þann veruleika, sem við blasir.

Aðstandendur Viðskiptablaðisins og leiðarahöfundar þess og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, eru smám saman að geraa sér þetta ljóst. Framundan eru hættumerki. Vaxtamunurinn milli Íslands og evrusvæðisins er orðinn um 11%. Þessi mikli vaxtamunur hefur að undanförnu freistað erlendra fjárfesta, þannig að hundruð milljarða hafa streymt inn í hagkerfið (svokölluð jöklabréf) í von um skjótfenginn gróða. Þetta heldur uppi gengi krónunnar, sem aftur viðheldur viðskiptahallanum. Þar með er boginn spenntur til gengisfalls síðar með aukinni verðbólgu. Sðelabankinn er kominn í þvingaða stöðu: Nauðsynleg vaxtalækkun sendir ekki einasta röng skilaboð út á markaðinn og getur leitt til þess, að hinir erlendur spekúlantar kippi fyrirvaralaust að sér hendinni og knýi okkar yfirspennta hagkerfi í brotlendingu. Við þetta bætist, að vegna aðhaldsleysis í ríkisútgjöldum, verður fyrirsjáanlega halli á ríkissjóði strax árð 2008, ef eitthvað tekst að draga úr þenslu og viðskiptahalla. Það er því engin innistæða fyrir öllum stóru kosningaávísununum, sem ráðherrarnir dreifa út og suður í kosningabaráttunni af fullkomnu ábyrgðarleysi.

Flokkar með fortíð.

Í upphafi var spurt: Er Sjálfstæðisflokknum treystandi fyrir hagstjórninni? Á grundvelli þeirra staðreynda, sem hér hafa verið raktar um reynsluna af hagstjórn hans á s.l. kjörtímabili, er svarið skýrt: Nei – Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki reynst traustsins verður varðandi ábyrga efnahagsstefnu og trausta hagstjórn. Hann fær því falleinkunn. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart, sem þekkir reynsluna af langri stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins á lýðveldistímanum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið meira og minna samfellt í ríkisstjórnum allt frá upphafi seinni heimstyrjaldar til dagsins í dag. Lengst af á þessu tímabili keppti hann um völdin við Framsóknarflokkinn, og saman stjórnuðu þeir samkvæmt svokallaðri helmingaskiptareglu. Báðir flokkarnir voru ríkisforsjárflokkar, sem notuðu ríkisvaldið til að útdeila yfirráðasvæðum og öðrum hlunnindum til fyrirtækja með vænum skammti af pólitískri spillingu. Báðir hafa flokkarnir staðið dyggan vörð um ríkisrekið landbúnaðarkerfi á kostnað skattgreiðenda og neytenda, sem borga fyrir það með tvöfalt hærri ríkisstyrkjum en tíðkast í Evrópusambandinu og hæsta matarverði í heimi.

Jafnaðarmenn í forystuhlutverki.

Stóru frávikin frá þessari fortíðarhagstjórn eru eftirfarandi: Viðreisnartímabilið (1959-71) og kerfisbreytingarnar, sem urðu í tíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar (1988-91) og í tíð Viðeyjarstjórnarinnar (1991-95) og fyrir tilverknað EES-samningsins síðan. Það sem er sameiginlegt með þessum umbótatímabilum er eitt: Þá voru jafnaðarmenn í ríkisstjórn og beittu sér sem frumkvöðlar fyrir kerfisbreytingum á hagkerfi og hagstjórn í þá átt að losa um fjötra ríkisforsjár og stuðla að auknu frelsi í viðskiptum. Þetta gerðist á viðreisnarárunum undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar, formanns Alþýðuflokksins. Viðreisnarstjórnin batt endi á ríkisrekið millifærslu- og skömmtunarkerfi fyrri tíðar. Hún skráði gengið rétt og jók innflutningsfrelsi. Í tíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar náðist verðbólgan í fyrsta sinn niður í eins stafs tölu. Í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um þjóðarsátt um stöðugleika. Fyrstu skrefin voru stigin í átt til einkavæðingar bankanna. Frelsi í viðskiptum og fjármagnsflutningum var aukið, og útflutningsabætur landbúnaðarafurða voru afnumdar. Það sem mun halda nafni Viðeyjarstjórnarinnar á loft er, að hún tryggði EES-samningnum meirihluta á Alþingi og lagði þannig grundvöllinn að því framfaraskeiði, sem enn stendur.

Þessi saga sýnir okkur, að þegar á hefur reynt og þurfti að losa um fjötra ríkisforsjár og flokksræðis og innleiða markaðsbúskap undir almennum leikreglum og fríverslun í utanríkisviðskiptum, hefur frumkvæðið ævinlega komið frá jafnaðarmönnum. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé stór og fyrirferðarmikill í flóru íslenska flokkakerfisins, hefur hann aldrei nýtt burði sína fyrir hinum stóru umbótamálum, sem hafa skipt sköpum um nútímalega stjórnarhætti á Íslandi. Það forystuhlutvberk hefur verið í höndum jafnaðarmanna. En með atbeina Sjálfstæðisflokksins, þó alltaf fyrir utan hin helgu vé landbúnaðarkerfisins, sem helmingaskiptaflokkarnir hafa staðið trúan vörð um.

Nú er kominn tími til að gera atrennu að þriðju stóru umbótatilrauninni til að festa í sessi þann árangur, sem náðst hefur og tryggja þann stöðugleika í efnahagsumhverfinu, sem er forsenda framfara til frambúðar. Og þá er spurningin: Í ljósi liðinnar sögu og að fenginni reynslu – hverjum er best treystandi til að vísa veginn á þeirri leið?