Eins flokks kerfi er yfirleitt gerspillt, jafnvel þótt kosningar fari fram til málamynda. Ef sami valdahópurinn ræður ríkisvaldinu, sveitarstjórnum og fjölmiðlum, og hefur auk þess sterk ítök í fjármálalífinu, er hætt við, að valdið stígi honum til höfuðs. Að hann telji sig smám saman hafinn yfir almennar leikreglur. Og komist upp með hvað sem er.
Til þess er lýðræðið og réttarríkið að koma í veg fyrir spillingu valdaeinokunar. Hvorki lýðræðið né réttarríkið er sjálfgefið. Hvorugt hefur áunnist í eitt skipti fyrir öll. Aðhald að valdhöfum krefst stöðugrar árvekni kjósenda. Ein áhrifaríkasta aðferðin, sem kjósendur hafa á valdi sínu, er að skipta út valdhöfum með reglulegu millibili. Það kemur í veg fyrir, að valdahafarnir umgangist valdið sem sjálfgefið. Það dregur úr hættunni á misnotkun og spillingu. Vald kjósenda – fólksins – felst í þessum rétti til að breyta um valdhafa með reglulegu millibili.
VALDAEINOKUN.
Þeir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor, ættu að hafa í huga, að þar með vilja þeir framlengja tök þess valdahóps á ríkisvaldinu í tvo áratugi samfellt. Þeir sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn, eru þar með, vitandi vits, að freista þess að tryggja fámennum hópi með sterk ítök í fjármálalífi þjóðarinnar, áframhaldandi tök á ríkisvaldinu í fjögur kjörtímabil samfellt. Kjósendum væri hollt að íhuga, að þessir flokkar fara líka sameiginlega með öll völd í höfuðborg landsins, þótt ekki sé það í krafti meirihluta atkvæða. Þótt Framsóknarflokkurinn sé nærri þorrinn fylgi í höfuðborginni, hefur hann fengið í sinn hlut helminginn af valdakerfi höfuðborgarinnar. Vilja kjósendur, vitandi vits, framlengja þessa valdaaðstöðu?
Kjósendum væri líka hollt að hafa í huga, að allir fjölmiðlar landsins, sem máli skipta, eru undir stjórn manna, sem eru handgengnir þessum valdahópum. Er það hollt lýðræðinu? Er það vænleg leið til að tryggja valdhöfum nauðsynlegt aðhald? Eða erum við, Íslendingar, af einhverjum ástæðum svo vammlaust fólk, að við þurfum ekki að óttast, að spilling geti nokkru sinni þrifist í skjóli valdsins í okkar fámenna þjóðfélagi? Trúum við því? Kemur það heim og saman við reynslu okkar af stjórnarfarinu á valdatíma núverandi stjórnaflokka?
Áður en gengið verður að kjörborðinu þann 12. maí n.k., er ástæða til að biðja kjósendur að hafa í huga a.m.k. tíu ástæður fyrir því að skynsamlegt geti verið, í nafni vandaðrar stjórnsýslu og lýðræðislegra stjórnarhátta, að skipta um valdhafa.
- Pólitískar embættaveitingar.
Í réttarríki eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum. Ríkið er stærsti vinnu-veitandi þjóðarinnar og hefur þanist út á valdatíma stjórnarflokkanna. (Úr 32% í tæp 42% af þjóðarframleiðslu á tólf árum). Prófessor við HÍ hefur komist að þeirri niðurstöðu, að 44% af umsækjendum um störf á vegum ráðuneyta og ríkisstofnana séu veitt á pólitískum forsendum. Ef unnt er að færa sönnur á pólitískar embættaveitingar í 44% tilvika, er óhætt að fullyrða, að hlutfallið er í reynd mun hærra. Fyrrverandi utanríkisráðherra, sem gengdi embætti í rúmt ár, notaði tækifærið og æviréð ellefu sendiherra á kostnað skattgreiðenda. Í flestum tilvikum var um að ræða umbun fyrir pólitíska hjálparkokka. Umræddur ráðherra var formaður flokks, sem að nafninu til þykist berjast gegn útþenslu ríkisbáknsins. Vilja kjósendur kvitta fyrir með því að framlengja veitingavald Flokksins, bæði hjá ríki og borg? - Pólitískt gerræði.
Formenn stjórnarflokkanna tóku sér vald til að leyfa Bandaríkjastjórn að setja Ísland á lista yfir þær þjóðir, sem studdu löglausa og siðlausa innrás Bandaríkjamanna í Írak. Þar með gerðu þeir alla þjóðina samábyrga fyrir gengdarlausu blóðbaði, sem hefur kostað hundruð þúsunda lífið og gert milljónir landflótta.Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var og er ósáttur við þetta gerræði. Enginn stjórnaliða, sem bera þó sameiginlega ábyrgð á þessum svartasta smánarbletti í sögu íslensku þjóðarinnar, hefur séð ástæðu til þess að biðjast afsökunar. Vilja kjósendur taka á sig sökina með því að framlengja völd þessara flokka? - Pólitískar mútur.
Fyrir kosningar árið 2003 sagði þáverandi forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali, að forsvarsmenn einnar öflugustu viðskiptasamsteypu þjóðarinnar hefðu reynt að múta sér. Heimildarmaðurinn var fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherrans og upphæðin var sögð vera 300 milljónir. Þar sem grundvallarreglur réttarríkis eru í heiðri hafðar, hefði þegar í stað verið efnt til rannsóknar á vegum ákæruvaldsins til þess að leiða hið sanna í ljós. Ríkissaksóknari hefur sjálfstæðar heimildir til slíkrar rannsóknar og hefur beitt þeim af minna tilefni. Á Íslandi var hins vegar ekkert aðhafst af hálfu ákæruvaldsins. Málið er enn þann dag í dag óupplýst. Það hefur dregið langan slóða á eftir sér og grafið undan trú manna á réttarfari í landinu. Svona nokkuð gerist bara í bananalýðveldum. Viljum við, að sú nafngift verði með rökum heimfærð upp á Ísland? - Einkavæðing eftir helmingaskiptareglum.
Meirihluti þjóðarinnar hafði ekkert að athuga við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að selja ríkisbankana. En það tók stjórnarflokkana næstum því tvö kjörtímabil að ná samkomulagi innbyrðis um það, hverjir skyldu fá að njóta þeirra forréttinda að fá að kaupa – og á afsláttarkjörum. Niðurstaðan varð sú, að þeir beittu helmingaskiptareglunni, sem þeir hafa stuðst við áratugum saman, til að skipta fjárhagslegum hlunnindum milli sín á pólitískum áhrifasvæðum. Aðferðafræðin var meira í stíl við einkavæðingu Yeltsíns, hins rússneska, á þrotabúi sovétkommúnismans, sem leiddi til þess, að svokallaðir óligarkar sölsuðu undir sig þjóðarauðinn. Nýir valdhafar ættu að efna til hlutlægrar og faglegrar rannsóknar á öllu einkavæðingarfelinu, þótt ekki væri nema til að endurreisa traust almennings á stjórnsýslunni. - Þjóðareign á auðlindum.
Þrátt fyrir ákvæði laga um, að fiskimiðin í lögsögu Íslands séu þjóðareign, og að tímabundin úthlutun veiðiheimilda (nýtingarréttur) myndi ekki lögvarinn eignarétt, ganga veiðiheimildir kaupum og sölum og standa undir veðsetningum bankakerfisins, eins og um einkaeignarrétt sé að ræða. Stjórnarflokkarnir hafa vanefnt fyrirheit í stjórnarsáttmála um að festa þjóðareign fiskimiðanna í stjórnarskrá. Eftir stendur, í reynd, að eigandi auðlindarinnar nýtur ekki arðs af hinum framselda nýtingarrétti. Allt er þetta kerfi í blóra við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stenst ekki til frambúðar. Það er kominn tími til að taka á þessu máli.
Orkuforðabúr þjóðarinnar í vatnsföllum og jarðvarma er önnur auðlind, sem fyrirsjáanlega mun hækka í verði í náinni framtíð, þegar tímabil jarðefnaeldsneytis er að líða undir lok. Nýting þessara orkulinda er mál, sem varðar þjóðina alla. Nýtingarréttur þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar má því ekki færast á hendur einstakra orkuvinnslufyrirtækja eða sveitarfélaga. Sú stefna, sem mótuð verður um nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar til lands og sjávar á næsta kjörtímabilil, varðar sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar allrar. Þarna munu takast á andstæð sjónarmið: Annars vegar þeirra sem vilja þjóðareign á auðlindum, og hins vegar hinna, sem vilja afhenda auðlindinrar einkaaðilum til eignar. Um þetta á að kjósa í þessum kosningum. - Evrópusambandsaðild á dagskrá.
Um það er ekki lengur deilt, að stjórnarflokkunum hafa verið mislagðar hendur varðandi hagstjórnina. Niðurstaðan er sú, að ríkisstjórnin hefur kollvarpað stöðugleikanum, sem er forsendan fyrir afkomuöryggi fólks og fyrirtækja. Peningamálastefnan er í gjörgæslu og spáð er halla á ríkisbúskapnum þegar á næsta ári. . Verðbólga, umfram yfirlýst markmið Seðlabankans, hefur hækkað höfuðstól skulda heimilanna um hálfa til heila milljón á ári og þar með eytt kaupmáttarávinningi góðærisins, hjá þeim, sem skuldsettastir eru.
Hagstjórnarvandi næsta kjörtímabils verður fyrst og fremst í því fólginn að endurreisa stöðugleikann. Til þess verður að gæta aðhalds í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga, og þeirra aðila, sem stefna að nýjum stóriðjuframkvæmdum á grundvelli útsöluverðs á raforku. Árangursríkasta leiðin til að endurreisa stöðugleikann og festa hann í sessi væri sú að stefna að Evrópusambandsaðild með upptöku evru. Slík ákvörðun mundi veita stjórnvöldum það aðhald, sem þarf til að lækka vexti, verðbólgu og viðskiptahalla og þar með skapa stöðugleika í efnahagsumhverfinu til frambúðar. Það er ekki seinna vænna, að kjósendur taki mið af þessari framtíðarsýn, þegar þeir ganga að kjörborðinu nú í maí. - Endurreisn velferðarríkisins.
Á tólf ára stjórnartíma Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa myndast alvarlegir brestir í íslenska velferðarkerfinu og ójöfnuður hefur farið jafnt og þétt vaxandi. Ísland er eina landið innan OECD, þar sem skattakerfið hefur þau áhrif að auka á ójöfnuð í tekjuskiptingunni. Meginástæðurnar eru tvær: Skattfrelsismörk hafa ekki fylgt launaþróun, með þeim afleiðingum að skattbyrði lág- og miðlungstekjuhópa hefur þyngst, en lést að sama skapi hjá þeim tekjuhæstu. Hin ástæðan er sú, að þrátt fyrir góðærið hafa stjórnarflokkarnir vanrækt að endurskoða samspil almannatrygginga, lífeyrisgreiðslna og skattakerfis. Afleiðingarnar eru þær að ríkissjóður tekur til baka, í formi skerðinga og skatta, bróðurpartinn af þeim greiðslum, sem eiga að standa undir afkomuöryggi þeirra, sem verst eru settir meðal aldraðra og öryrkja. Ríkissjóður er í reynd stærsti lífeyrisþeginn. Kerfið er farið að refsa þeim, sem það á að þjóna. Það letur bæði til sparnaðar og vinnu. Þetta kallar á heildarendurskoðun á grundvallarþáttum velferðarþjónustunnar. Þeim sem bera ábyrgð á þessum vanrækslusyndum í góðærinu er ekki treystandi til að vinna það verk. - “Gjör rétt – þol ei órétt.”
Lögboðinn skyldusparnaður í formi lífeyrissjóðsiðgjalda, verðtrygging lífeyrissjóðanna og ávöxtun höfuðstóls þeirra á að vera einn helsti styrkur íslenska hagkerfisins og trygging fyrir traustri afkomu vaxandi hóps aldraðra í þjóðfélaginu. Vaxandi hluti af útgreiðslum lífeyrissjóða til aldraðra er í reynd ávöxtun af fjárfestingum, þ.e. fjármagnstekjur. Samt eru þessar greiðslur skattlagðar að fullu sem launatekjur á sama tíma og auðmenn, sem hafa meginið af tekjum sínum í formi fjármagnstekna, greiða aðeins 10% fjármagnstekjuskatt. Þetta er óréttlæti. Margföldun á skráðum einkahlutafélögum í skatthagræðingaskyni og sú saðreynd, að fjármagnstekjuskattur rennur ekki til sveitafélaga, þýðir, að hinir efnamestu greiða ekkert fyrir þjónustu sveitafélaga, ekki einu sinni fyrir skólagöngu barna sinna. Þetta er ranglæti, sem átti fyrir löngu að vera búið að leiðrétta. - Gegn útþenslu ríkisbáknsins.
Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu Sjálfstæðisflokksins um að halda aftur af útþenslu ríkisbáknsins hefur það þanist út í stjórnartíð flokksins sem aldrei fyrr. Þrátt fyrir skattalækkanir, einkum í þágu hinna efnameiri, hefur ríkissjóður þanist út í þenslunni. Bætt afkoma ríkissjóðs stafar því miður ekki af útgjaldaaðhaldi heldur af þenslu, viðskiptahalla og sölu ríkiseigna. Takist að koma aftur á stöðugleika og jafnvægi, blasir við kerfislægur halli á ríkissjóði strax á næsta ári. Þetta er afleit fjármálastjórn, sem verðskuldar ekki traust. Ef komast á hjá hækkun skatta á næsta kjörtímabili, verður að taka útgjaldaþenslu ríkissjóðs til rækilegrar endurskoðunar, ekki síst að því er varðar sjálfvirk útgjöld hins úrelta landbúnaðarkerfis og annarra útgjaldaþátta, sem endurspegla velferðarkerfi fyrirtækjanna. Hvorki Sjálfstæðisflokknum né Framsókn er treystandi til þessa verks. - Stjórnmál og eiginhagsmunapot.
Það hefur ekki gerst áður í stjórnmálasögu lýðveldisins, að forystumenn í stjórnmálum hafi beinlínis auðgast af stjórnmálaþátttöku sinni. Á stjórnartíma Framsóknarflokksins s.l. 12 ár eru þess dæmi, að fyrrverandi forystumenn flokksins og skjólstæðingar hans í fjármálaheiminum hafi auðgast persónulega vegna stjórnvaldsaðgerða, sem þeir hafa staðið fyrir eða haft áhrif á. Það er alvarlegt mál fyrir lýðræðið í landinu, þegar stjórnmálaflokkar eru orðnir eins konar eignarhaldsfélög um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni forystumanna og skjólstæðinga þeirra. Vilja kjósendur meira af svo góðu? Eru kjósendur tilbúnir að taka því, að Árni Johnsen verði næsti formaður Fjárlaganefndar?
Í upphafi þessarar greinar voru kjósendur varaðir við því að framlengja forræði sömu fámennu valdahópanna í innsta hring Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í 20 og 16 ár fyrir hvorn um sig. Á það var bent, að þessir sömu flokkar skipta með sér völdum í höfuðborginni á yfirstandandi kjörtímabili . Einnig var á það bent, að þeir einstaklingar, sem ráða áhrifamestu fjölmiðlum þjóðarinnar, eru flestir hverjir í nánum tengslum við forystu stjórnarflokkanna, og að eigendur fjölmiðlanna eiga mikið undir ákvörðunum þeirra komið.
Áður en kjósendur ganga að kjörborðinu þann 12. maí n.k., ættu þeir að íhuga alvarlega, hvort þeir eru sáttir við þessa pólitísku og fjárhagslegu valdaeinokun, sem við blasir í þjóðfélaginu. Hafa kjósendur virkilega af því engar áhyggjur, að viðvarandi valdaeinokun sömu fámennishópanna, sem hér hefur verið lýst, bjóði ekki heim spillingu, misbeitingu og mismunun? Vilja þeir taka áhættuna af óbreyttu ástandi? Eða er kominn tími til að beita hinu lýðræðislega valdi óbreyttra kjósenda og skipta út valdhöfum út frá nauðsyn aðhalds og virks lýðræðis – í þágu almannahagsmuna?