ÁRSHÁTÍÐ FRAMTÍÐARINNAR, 14. FEB. 2007: FÍLABEINSTURN EÐA FRAMLEGÐARFORRIT?

Ég var mættur í fyrsta tíma í sögu iðnbyltingarinnar í hagfræðideild Edinborgarháskóla ásamt með öðrum stúdentum víðs vegar að úr heiminum. Kennarinn var grallaralegur sláni frá Írlandi, margvís og meinhæðinn. Hann spurði þá sem þarna voru saman komnir, hvort þeir hefðu lært einhverja sögu áður.

1.
Innfæddir höfðu sumir lært sögu Breska heimsveldisins. Einhverjir sunnan landamæranna úr klassiskum enskum skólum höfðu lært um Hellas og Róm. Strákur frá Jamaíku hafði lesið sögu konkvistadoranna, þ.e. sögu spænskrar nýlendukúgunar í Suður Ameríku. Útlægur Armeni hafði lært sögu Ottomanheimsveldisins fram að falli þess með Ataturk.
Smám saman kom á daginn, að menn höfðu numið sagnfræðilegan bútasaum héðan og þaðan og frá ýmsum tímum. Þegar röðin kom að Íslendingnum, var enskan mér þá ekki tamari á tungu en svo, að ég þýddi orðrétt af hinu ástkæra ylhýra: “ I have studied Icelandic History and the General History of Mankind”. Við þessi orð tók Írinn bakföll af hlátri. Hann spratt upp úr sæti sínu fyrir enda borðsins, hneigði sig djúpt fyrir mér og gaf mér til kynna með stórkarlalegri sveiflu að setjast í sætið hans og taka við – um leið og hann sagði: “Loksins, loksins, þér eruð maðurinn, sem við höfum öll verið að bíða eftir”.

Þegar þetta gerðist var ég nýútskrifaður stúdent úr máladeild MR, Lærða skólans í Reykjavík – með 2. einkunn skárri. Og þótti vart á vetur setjandi. Öngvu að síður voru viðtökurnar í þessu lærdómssetri Evrópu ekki lakari en þetta. Þetta var maðurinn, sem þeir höfðu lengi beðið eftir, eða hvað?

Ekki svo að skilja, að ég hafi látið blekkjast. Ég vissi, held ég, þá þegar, að Íslandssagan, sem kennd var í skólum á öldinni sem leið, var mestan part samsafn af mýtum – goðsögnum – , sem áttu að þjóna hagsmunum sjálfstæðisbaráttunnar. Íslandssaga Jónasar frá Hriflu, sem kennd var í barnaskólum, var eiginlega sniðin að þörfum ungmennafélagshreyfingarinnar og Framsóknarflokksins – svona eftir á að hyggja. Mannkynssagan – The General History of Mankind – var annálskennd staðreyndaítroðsla, sem dugði til að gera jafnvel fróðleiksþyrsta menn og íhugula afhuga sagnfræði fyrir lífstíð.

Eða hvers vegna var það, að daginn áður en skóli hófst, haustið sem ég átti að setjast í fimmta bekk, gekk ég á fund Pálma rektors og bar hikandi upp erindið; að ég segði mig hér með úr skóla – út af leiðindum. Rektor virtist lítt brugðið við þessi tíðindi. Satt að segja hló hann við, en sagði þó vingjarnlega, um leið og hann vísaði mér á dyr: Þú ert svo sem velkominn aftur, væni minn, ef þér hlekkist á.

Hver var ég, að ég þættist þess umkominn að afþakka handleiðslu lærimeistara Lærða skólans – og bera við leiðindum? Ég var ungi maðurinn, sem hafði brennandi áhuga á þjóðfélaginu. Ég hafði nákvæmlega engan áhuga á að beygja afbrigðilegar sagnir á fimm tungumálum. Ég vildi hins vegar fá að vita, hvernig átti að útrýma fátækt í heiminum. Vandinn var hins vegar sá, að þjóðfélagið var utan veggja Lærða skólans og kom honum ekki við. Ég þóttist því illa svikinn og fá þarna steina fyrir brauð, á máli gamla testamentinsins.
Ég prófaði að fara í stærðfræðideild, en leið þar eins og heimasætu á hannyrðanámskeiði. Þar var mikið bróderað með tölum en láðist að útskýra af hverju og til hvers. Og þegar Gylfi Þ. Gíslason – sem þá var baráttufélagi föður míns í bræðralagi sósíaldemókrata, – fullvissaði mig um, að hagfræðingar þyrftu ekki að kunna að reikna, þá verteraði ég aftur yfir í flugfreyjudeildina.Ég vissi, að þar þyrfti ég alla vega ekki að leggja neitt á mig, þótt mér leiddist.

2.
Hvað er ég að reyna að segja? Ég er að reyna að halda því fram, að þessi gamli danski menntaskóli, sem MR var á þeirri tíð, hafi þá þegar verið gamaldags, ef ekki beinlínis úreltur og lítt í takt við tímann utan veggja skólans, án þess þó að vera klassískur skóli aftan úr fornöld. Hann kenndi fornmál, án þess þó að kveikja áhuga á vöggu vestrænnar menningar, sem stóð í Hellas. Hann kenndi latínu, án þess þó að segja neitt að marki af rómverska heimsveldinu og þeirri lögspeki, sem Evrópa hefur síðan byggt á og kennd er við Rómarrétt. Og þeir kenndu stærðfræði, án þess þó að segja neitt sem máli skipti um grundvallarhugmyndir eða gildi nútímavísinda. Með öðrum orðum, þetta var óttalegt stagl og satt að segja hundleiðinlegt, fannst mér þá.

En hér verð ég að draga í land. Umburðarlyndi þessa skóla gagnvart hrokagikkjum eins og mér var aldeilis aðdáunarvert. Og þótt ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en síðar, þá voru kennararnir, margir hverjir, hinir lærðustu menn í sinni grein á landi hér. Og nota bene, kennsluárangurinn var ekki lakari en svo, að við sem þaðan útskrifuðumst, reyndumst síðar meir fyllilega gjaldgengir við lærdómssetur Evrópu og Ameríku, a.m.k jafnokar jafnaldra okkar og sumir hverjir jafnvel í fremstu röð.
Spurningin er: Var þetta skólanum að þakka? Eða er kannski eitthvað til í því, að það sé leitun að svo vondum skólum, að þeir geti drepið niður námsáhuga og námshæfni góðra nemenda? Eða er jafnvel eitthvað til í því, að vondur skóli – í merkingunni þurr, staglkenndur og tyftunarsamur, – sé í reynd einhver besti undirbúningur, sem leitandi sálir geta fengið á þyrnum stráðri leið sinni til æðra mennta? Eða hver segir, að skóli eigi að vera skemmtilegur?

Það sem ég hef hér sagt, heyrir trúlega undir fornleifafræði eða alla vega menningarsögu, því að ég geri ráð fyrir, að MR hafi þrátt fyrir allt breyst eitthvað á þeirri hálfu öld, sem liðin er frá því dyr skólans lukust að baki mér. Eða hvað? Alla vega veit ég, að þjóðfélagið, sem við lifum í nú, er allt annar félagsskapur en sá, sem þreifst utan veggja Lærða skólans á mínum yngri árum.

Ég sagði, að ég hefði heimtað að fá að læra eitthvað um þjóðfélagið á menntaskólaárum mínum, en fengið steina fyrir brauð. Eða latínu í staðinn fyrir líffræði. Áratug síðar – þegar ég hafði sökkt mér niður í hagfræði og hagsögu og lögfræði og stjórnskipunarfræði árum saman – kom vel á vondan, því að þá var ég sendur forsendingu heim til mín, vestur á firði, til að stofnsetja þar menntakóla. Ég fékk algerlega frjálsar hendur í því verki, því að engin var til námskráin á menntaskólastigi. Og ráðuneyti menntamála var langt í burtu. Ég einsetti mér því að búa til skóla, sem væri með öfugum formerkjum við þann lærða skóla, sem mér hafði leiðst svo mikið í.

Þetta var fámennur skóli, svo að það var bara pláss fyrir tvær deildir. Þær hétu félagsvísinda- og náttúruvísindadeild. Stærðfræði var kennd til jafns í báðum deildum, en með þeim formerkjum, að hún væri aðferðarfræði allra vísinda. Í náttúruvísindadeild var lögð höfuðáhersla á líffræði, og vísindasaga var kjarnagrein. Í félagsvísindadeild var þjóðfélagið inni á gafli. Við kenndum hagfræði, hagsögu og haglýsingu og þar að auki helstu stjórnmálakenningar og samtímasögu. Þar að auki var tónlistarnám og tónlistarsaga fullgildar greinar til stúdentsprófs. Þetta var sem sé nútímalegur skóli, sem átti að búa nemendur sína undir það að vera fullgildir og virkir þátttakendur í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þessi tilraunastofa mín í praktísku skólastarfi stóð í tíu ár, sem þýðir, að fyrsti stúdentsárgangur minn er nú þegar kominn á sextugsaldur. Og einhver strákurinn er meira að segja orðinn sjávarútvegsráðherra og boðar hvalveiðar á ný, þótt enginn finnist markaðurinn. Hagfræðikennslan hefur greinilega ekki komið honum að miklum notum!

3.
Og nú er spurningin: Hvor skólastefnan ætli að gefist betur: Sú sem útilokaði þjóðfélagið og kannaðist ekki við það sem akademiskt viðfangsefni; eða hin, sem hleypti þjóðfélaginu inn í skólastofuna, en trúlega á kostnað hæfilegrar fjarlægðar frá hversdagslegum viðfangsefnum samtímans?
Hvað er akademía? Fílabeinsturn, þar sem andleg ígulker og bókaormar íhuga sígildar spurningar sannleiksleitarinnar og vandamál æðri vísinda? Sem er aðeins á færi fámennrar elítu – úrvalshóps – og því ekki í anda lýðræðis. Eða á skólinn að vera “sneið af lífinu” í anda amrísks pragmatisma, þar sem allir fá eitthvað við sitt hæfi og teljast að því leyti betur undir það búnir að valda hversdagslegum verkefnum sínum í þjóðfélaginu utan skólaveggjanna?

Einu sinni þóttist ég vita svarið. En nú er svo komið, að ég er fullur efasemda. Í þjóðfélagi græðginnar er bara ein lífsskoðun tekin gild: Hagnaðarvonin. Eina starfsemin, sem á rétt á sér, er arðsemin. Eini mælikvarðinn sem gildir um árangur þinn í lífinu, er auðsöfnunin. Eina menntunin, sem talin er nokkurs virði í svona þjóðfélagi, er MBA – skammstöfun sem táknar Meistari í Bráðlátri Auðsöfnun. Lágmarkið er bachelor í ágirnd, með eigingirni sem aukagrein.
Hvers konar skóla þarf þjóðfélag af þessu tagi? Þar er væntanlega lítil eftirspurn eftir Hellas og Róm. Og þjóðmegunarfræðin – hagfræðin – hlýtur að víkja fyrir hraðferð í auðsöfnunarfræðum. Mottóið verður: “How to get rich, quick, without really trying.”? Vísindi, menning, æðri listir – þetta má svo sem fljóta með, en upp á náð og miskunn ölmusunnar frá góðgerðarstofnunum auðvaldsins – þ.e.a.s. ef það er frádráttarbært frá skatti.

Ég á vinkonu, sem er nýkomin heim frá námi og starfi í rúman áratug austan hafs og vestan. Hún er hámenntuð, fjölfróð og flínk. Hún hefur verið að lesa atvinnuauglýsingarnar í dagblöðunum undanfarna mánuði. Það er urmull starfa í boði fyrir auðfræðinga og endurskoðendur, fjáfestingarráðgjafa og ávöxtunartækna, tölvunörda og bókhaldara. En hvaða störf eru í boði fyrir menntað fólk? Það eru víst aðallega næturvarðastörf á lagerum, sjúkrahúsum og hótelum. Barþjónar óskast einnig til starfa, ef útlitið er í lagi.

Svo leyfa menn sér að kalla þetta upplýsingar- eða þekkingarþjóðfélagið. Var það ekki einmitt þetta, sem Orwell átti við, þegar hann kallaði tungumál martraðarþjóðfélagsins í 1984, double speak – öfugmælið?

Fyrir hundrað árum útskrifaðist seinasti árgangur þeirra stúdenta frá Lærða skólanum í Reykjavík, sem höfðu margra ára skólun í hvoru tveggja, latínu og grísku. Af því tilefni sagði Steingrímur Thorsteinsson, rektor og þjóðskáld, í skólaslitaræðu sinni, að nú hefði hann útskrifað seinasta árgang menntaðra manna á Íslandi.

Skyldi hann haf haft rétt fyrir sér?