Á ÉG AÐ GÆTA BRÓÐUR MÍNS?

Þorgrímur Gestsson: Öryggissjóður verkalýðsins – Baráttan fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi. 316 bls. Útgefandi: Atvinnuleysistryggingasjóður.

Þótt þessi bók sé harla ólíkleg til að ná inn á metsölulista bókaútgefenda, er hún samt áhugaverð um margt og kannski einmitt þess vegna. Í fyrsta lagi er hún áhugaverð vegna þess að hún lýsir hugmyndafræðilegum ágreiningi milli ráðandi stjórnmálaafla um uppbyggingu velferðarríkis á Íslandi. Hún skýrir líka, hvers vegna jafnaðarmönnum á Íslandi tókst ekki að fá lög um atvinnuleysistryggingar virk í framkvæmd fyrr en árið 1956, hálfri öld síðar en í Danmörku og Noregi og löngu eftir að atvinnuleysistryggingar voru lögfestar í Finnlandi (1917) og í Svíþjóð (1938).

Reyndar voru atvinnuleysistryggingar hluti af löggjöfinni um almannatryggingarnar, sem Haraldur Guðmundsson, fyrsti ráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, náði fram á þinginu 1935-36. En kaflinn um atvinnuleysistryggingar sætti svo harðri andstöðu forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og tók svo miklum breytingum í meðförum þingsins , að lögin máttu heita óvirk í framkvæmd. Þótt árstíðarbundið atvinnuleysi mætti heita fastur liður í lífi sjávarplássanna og langvarandi atvinnuleysi hrjáði mörg alþýðuheimili á kreppu- og samdráttartímum, treystu verkalýðsfélögin sér ekki til að leggja þær kvaðir – iðgjöld – á fátækt verkafólk, sem þurft hefði til að virkja lögin.

Þess vegna leið meira en þriðjungur aldar frá því að Jón Baldvinsson, þingmaður Alþýðuflokksins og forseti Alþýðusambandsins, flutti fyrstu þingmálin um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun árið 1923, þar til virk löggjöf um atvinnuleysistryggingar náði fram að ganga á Alþingi árið 1956. Ári áður þurfti verkalýðshreyfingin að neyta aflsmunar í langvinnustu verkfallsátökum á lýðveldistímanum til þess að knýja málið fram. Hin pólitíska andstaða gegn lögfestingu atvinnuleysistrygginga var því harðvítug og langvinn. Forystumenn atvinnurekenda og pólitískir talsmenn þeirra innan Sjálfstæðisflokksins létu ekki sinn hlut í andstöðu við lögfestingu atvinnuleysistrygginga fyrr en í fulla hnefana.

Á Guð og gaddinn.

Hvers vegna var andstaðan gegn þessu réttlætismáli, sem þar að auki studdist við skynsemis- og hagkvæmnisrök, eins og síðar kom á daginn, svona hörð hér á landi? Hvers vegna var hin pólitíska andstaða íhaldsaflanna miklu harðari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum? Var þörfin fyrir atvinnuleysistryggingar eitthvað minni hér á landi en annars staðar? Það var síður en svo. Árstíðabundið atvinnuleysi var fastur fylgifiskur sjávarútvegshagkerfisins íslenska, auk þess sem afkoma sjávarútvegsins var háðari svipulum sjávarafla og sveiflukenndum mörkuðum en iðnaðarþjóðfélögin annars staðar í Evrópu. Það var því brýn þörf fyrir atvinnuleysisstryggingar, brýnni hér en víðast hvar annars staðar. Eða hvernig lýsa þeir Erlingur Friðjónsson og Jón Baldvinsson, þingmenn Alþýðuflokksins og flutningsmenn fyrsta frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar (1928), kjörum atvinnuleysingja og fjölskyldna þeirra á þessum tímum:

“Verkamennirnir hjer í Reykjavík eru beinlínis settir á Guð og gaddinn. Það er ekki ofmælt, að börn þeirra veslist upp hrönnum saman á atvinnuleysistímum á veturna úr kulda, næringarskorti og tæringu. Og án efa mundi ljetta stórum á fátækraframfærslu margra bæjar- og sveitarfélaga, ef frumvarp þetta yrði að lögum. (Bls. 39).

Það þóttu forréttindi, þegar heimilisfeður, sem höfðu mátt þola atvinnuleysi langtímum saman, komust í “stjórnargrjótið”; Það fólst í því að kljúfa grjót í atvinnubótavinnu á vegum landstjórnarinnar, en grjótið var síðan flutt með járnbrautarlest úr Öskjuhlíðinni í hafnargarðana í Reykjavíkurhöfn. Það má merkilegt heita, að á sama tíma og staðir eins og Ísafjörður, Akureyri og Seyðisfjörður buðu upp á örugg hafnarskilyrði, var höfuðborgin, undir stjórn íhaldsins, hafnleysa fram yfir fyrra stríð. Þetta þýddi þrælavinnu karla og kvenna við að bera þungavöru á bakinu og ferma og afferma úr umskipunarbátum, einatt við hin verstu lendingar- og veðurskilyrði. En þeir, sem komust í þessa þrælavinnu, þóttust hólpnir. Lífið var botnlaust strit myrkranna á milli, eins og í kolsvartri grafik Kötu Kolvitz.

Fyrir fáum árum kom út öndvegisritið “Fátækt fólk” eftir Gylfa Gröndal, sem lýsti hispurlaust kjörum þess fátæka fólks, sem byggði upp höfuðborg Íslands á þessum árum. Það er mikil eftirsjá að því, að Gylfa entist ekki líf til að ljúka því stórvirki, sem áformað var í þremur bindum. Sömuleiðis verður það að flokkast undir meiri háttar skaða, að Matthíasi Viðari Sæmundssyni entist ekki aldur til að ljúka áformaðri ævisögu Héðins Valdimarssonar, einhvers stórbrotnasta persónuleika, sem saga íslenskrar verkalýðshreyfingar kann frá að greina. Vonandi mun ný kynslóð sagnfræðinga taka upp hið fallna merki og forða þessari átakasögu frá gleymsku.

Hvers vegna voru forsprakkar atvinnurekenda í forystu Sjálfstæðisflokksins og bændaíhaldið í Framsókn svona harðvítugt í andstöðu sinni við atvinnuleysistryggingar? Þetta voru vissulega erfiðir tímar og atvinnuþref og lífsbaráttan var hörð og miskunnarlaus. Bændaíhaldið bar því við, að bætt lífsskilyrði og atvinnuöryggi öreiganna á mölinni mundi ýta undir frekari fólksflótta úr sveitum, með þeim afleiðingum, að stórbændum og landeigendum héldist illa á vinnuhjúum. Málsvarar Sjálfstæðisflokksins, eins og t.d. Thor Thors, sonur Thors Jensen, útgerðar- og athafnamanns, sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sagði að Sjálfstæðismenn væru á móti atvinnuleysistryggingum, m.a. vegna þess að þeir teldu

“að þetta frv. (Haraldar Guðmundssonar o.fl.), sem felur það í sér að styrkja atvinnuleysingja í kaupstöðum, sé enn eitt nýtt og öflugt spor í áttina til þess að raska alveg atvinnulífi þjóðarinnar, með því móti að ginna til kaupstaðanna ennþá fleira fólk úr sveitum landsins, en það sem forsjárlaust og fyrirhyggjulaust hefur flutst hingað á mölina” (bls. 59)

Öryggissjóður verkalýðsins.

Þeir óttuðust það með öðrum orðum, þessir fínu herrar, að lýðurinn legðist í leti og ómennsku, ef svipa atvinnuleysisins ræki hann ekki áfram. “Með því að innleiða hér á landi þá reglu að greiða atvinnuleysisstyrk, óttast ég, að dregið verði stórkostlega úr hvöt manna til þess að leitast við að bjarga sér sjálfir.” Þetta sagði máttarstólpi atvinnulífsins og Sjálfstæðisflokksins úr Vestmannaeyjum, Jóhann Þ. Jósefsson, síðar ráðherra. Morgunblaðið var flokkshollt að vanda og bætti um betur í leiðara, að “þegar atvinnureksturinn gæti ekki borgað mönnum lengur fyrir að vinna, væri bætt við hann auknum sköttum til þess að borga mönnum fyrir að vinna ekki”.

Þetta eru sígild rök íhaldsmanna allra landa, sem frá upphafi börðust hart gegn atbeina ríkisvaldsins til að jafna kjör og auka öryggi fátæks fólks í lífsbaráttunni. Falsrökin eru sett fram í nafni siðferðilegrar vandlætingar. Atvinnuleysistryggingar munu stuðla að ómennsku og leti. Lágmarkslaun munu verðleggja sísta vinnuaflið út af markaðnum og auka atvinnuleysi. Almannatryggingar og skylduaðild að lífeyrissjóðum er til þess fallið að draga úr ráðdeild, sparnaðarvilja og sjálfsbjargarviðleitni.

Þessi siðferðilega vandlæting hinna betur settu á allri viðleitni til þess að bæta kjör fátæklinga, helst í hendur við fordæmingu þeirra á skattlagningu fjármagnseigenda, sem er talin draga úr hvatanum til fjárfestingar og auðsöfnunar og stuðla þar með að fjárflótta og stöðnun, sem bitni á hinum verst settu. Og hafi þannig óvart óhjákvæmilega þveröfug áhrif á hinn uppaflega ásetning. Allt er þetta gamalkunnugt og sígilt og ævinlega sett fram af sannfæringarkrafti þess, sem þykist gæddur siðferðilegum yfirburðum, enda sett fram í nafni óvéfengjanlegrar lífsreynslu.

Reynslan hefur hins vegar kennt okkur á löngum tíma, að allar voru þessar siðferðilegu umvandanir á sandi byggðar. Það sem sett var fram sem blákaldur sannleikurinn í ljósi óyggjandi lífsreynslu, reyndist einatt vera pólitískir fordómar, sem studdust við fátt annað en eiginhagsmuni forréttindahópa. Atvinnuleysistryggingasjóður, sem er fjármagnaður með iðgjöldum hinna tryggðu, varð fyrr en varði einn helsti útlánasjóður og bakhjarl atvinnulífsins, enda settust atvinnurekendur þar í stjórn og gerðust einatt frekir til fjárins.

Þegar Vinnuveitendasamband Íslands vildi kaupa íbúðarhús Ólafs Thors, hins ókrýnda foringja Sjálfstæðisflokksins um áratugi, voru viðskiptin fjármögnuð af Atvinnuleysistryggingasjóði. Þegar fjármagna þurfti Byggingasjóð ríkisins, t.d. vegna átaks um byggingu 1250 íbúða í Breiðholtinu á sínum tíma, hafði Atvinnuleysistryggingasjóður ráð á að kaupa skuldabréf Byggingasjóðs ríkisins. Sama máli gegndi, þegar fjármagna þurfti þörf mál, eins og fastráðningu fiskverkafólks, starfsmenntun í atvinnulífinu eða fæðingarorlof foreldra.

Atvinnuleysistryggingasjóður hefur víða komið við sögu við að treysta undirstöður atvinnulífsins. Þar að auki er hann í eðli sínu sveiflujöfnunarsjóður, sem safnast fé í góðæri, en borgar út meira en hann fær inn, þgar harðnar í ári og störfum fækkar. Sjóðurinn er því hentugt hagstjórnartæki, sem stuðlar að sveiflujöfnun og stöðugleika í efnahagslífinu. Og þess hefur ekki orðið vart, að hann dragi úr siðferðisþreki eða sjálfsbjargarviðleitni vinnandi fólks. Sjóðurinn hefur reynst atvinnulífinu öflugur bakhjarl, eða eins og Hannibal Valdimarsson, forseti ASÍ, sagði í skýrslu sinni 1956-58:

Þessi mikli öryggissjóður verkalýðsins mun vissulega verða þess megnugur, áður en langir tímar líða, að rétta atvinnulífinu hjálparhönd. (bls. 9).

Þannig fékk bókarhöfundur reyndar hugmyndina að titli bókarinnar: “Öryggissjóður verkalýðsins – baráttan fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi.”

Guðfaðir velferðarríkisins.

Haraldur Guðmundsson, alþingismaður og fyrsti ráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta (1934-37) má með réttu heita guðfaðir íslenska velferðarríkisins. Hann undirbjó og náði fram lögfestingu almannatrygginga 1936, eftir að hafa flutt málið á öllum þingum frá árinu 1929. Almannatryggingalögin eru hornsteinn íslenska velferðarríkisins. Reyndar lagði Haraldur fram tvenn frumvörp haustið 1935. Hið fyrra varð að lögum um almannatryggingar: Sjúkratryggingar, slysatryggingar, elli- og örorkutryggingar og reyndar kafli um atvinnuleysistryggingar, sem eins og fyrr segir, náði aldrei að verða virk löggjöf í framkvæmd.

Hitt frumvarpið fjallaði um ný framfærslulög. Með þeim lögum var loksins afmáður sá smánarblettur á íslensku þjóðfélagi, sem lýsti sér í því, að fátækt fólk, sem þurfti á neyðarhjálp að halda, mátti sæta mannréttindasviptingu (t.d. missis kosningaréttar) og hreppaflutningum fjölskyldumeðlima. Tryggingastofnun ríkisins var stofnuð árið 1936 í því skyni að annast framkvæmd almannatryggingalaganna, og Haraldur Guðmundsson varð um langt skeið forstjóri hennar. Atvinnumálastofnun, sem jafnaðarmenn börðust lengi fyrir og vildu að stýrði málefnum vinnumarkaðarins og þar með talið atvinnuleysistryggingum, varð hins vegar aldrei til fyrr en þá á seinustu árum undir heitinu Vinnumálastofnun ríkisins.
Þess er áður getið, að Jón Baldvinsson varð fyrstur manna til að flytja frumvarp til laga um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun þegar árið 1923. Þeir sem fyrstir fluttu frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar árið 1928, voru þeir Erlingur Friðjónsson og Jón Baldvinsson, báðir þingmenn Alþýðuflokksins. Árið 1929 flytja þeir Haraldur Guðmundsson, Héðinn Valdimarsson og Sigurjón Á Ólafsson, formaður Sjómannafélags Reykavíkur, þingsályktunartillögu um stofnun milliþinganefndar, til að undirbúa setningu laga um alþýðutryggingar á Íslandi. Haraldur hélt síðan málinu vakandi á öllum þingum, uns hann fékk aðstöðu til, sem atvinnumálaráðherra, að tryggja málinu framgang árið 1936.

Það urðu honum mikil vonbrigði, að sá kafli laganna, sem fjallaði um atvinnuleysistryggingar, varð í reynd ekki virkur í framkvæmd fyrr en árið 1956, 33 árum eftir að Jón Baldvinsson bar málið fyrst fram á Alþingi. Það vantaði ekki, að málið væri flutt á Alþingi, ár eftir ár. Allt frá árinu 1942 voru frumvörp eða þingsályktunartillögur um undirbúning nýrrar löggjafar um atvinnuleysistryggingar fluttar á Alþingi á hverju ári í tólf ár, en ævinlega fyrir daufum eyrum. Þeir sem héldu málinu vakandi allan þennan tíma voru þingmenn úr röðum Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks, og má þar nefna til dæmis þingmennina Gylfa Þ. Gíslason og Hannilbal Valdimarsson, úr röðum Alþýðuflokksmanna og þá Brynjólf Bjarnason og Gunnar Jóhannsson, sem var þingmaður Sósíalistaflokksins frá Siglufirði. En ráðandi öfl á Alþingi, þ.e. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur þögðu málið kyrfilega í hel. Yfirleitt urðu engar umræður í þingsal um málið. Ef frumvörp og aðrar tillögur náðu lengra, sofnuðu þær svefninum langa í nefnd.

Í krafti samtakanna.

Það var ekki fyrr en haustið 1955, að verkalýðshreyfingin greip til sinna ráða. Atvinnuástandið á árunum eftir stríð hafði reynst erfitt, og verkalýðshreyfingunni reyndist torsótt að varðveita kaupmátt launa á erfiðleika- og samdráttartímum. Árið 1955 sauð upp úr í kjarabaráttunni. Þá skall á langvinnasta, harðasta og víðtækasta verkfall launafólks, sem háð hefur verið á Íslandi. Á þessum árum réði Eðvarð Sigurðsson lögum og lofum í Dagsbrún, en Hannibal var forseti Alþýðusambandsins. Það var í þessu verkfalli, sem Guðmundur Jaki varð fyrst þjóðkunnur, þar sem hann fór fyrir verkfallsvörðum Dagsbrúnar í harðvítugum átökum.

Þegar allt var komið í hnút, og hvergi sá til lands um lausn mála, gerðist það, að Emil Jónsson, leiðtogi jafnaðarmanna í Hafnarfirði, lagði fram hugmynd að lausn til að leysa deiluna. Hann vísaði til þess, að fyrir Alþingi lægi frumvarp um hið gamla baráttumál verkalýðshreyfingarinnar um atvinnuleysistryggingar. Hann lagði það til, að stjórnvöld hétu því að beita sér fyrir lögfestingu atvinnuleysistrygginga og Atvinnuleysistryggingasjóðs, og skyldi það samsvara ígildi fjögurra prósentustiga kauphækkunar, sem bar í milli deiluaðila.

Þetta hreif. Haraldur Guðmundsson, hinn aldni guðfaðir almannatrygginga á Íslandi, var kvaddur til að útfæra tillögurnar. Niðurstaðan varð þessi: “Atvinnuleysistryggingasjóður (…) skyldi fjármagnaður með því, að ríkið legði fram sem næmi tveimur prósentum af almennu dagvinnukaupi Dagsbrúnarverkamanns og atvinnurekendur og bæjar- og sveitarsjóðir, hvorir um sig eitt prósent. Samanlagt voru þetta fjögur prósent af Dagsbrúnarkaupinu, það sem upp á vantaði að atvinnurekendur gengju að í lokakröfum samninganefndar verkalýðsfélaganna.” Þar með var krafan um lögfestingu atvinnuleysistrygginga loksins í höfn, aldarþriðjungi eftir að Jón Baldvinsson hreyfði fyrst við málinu á Alþingi 1923.

Söguburður í stað sagnfræði.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins reisti sér og blaðinu dálítinn bautastein, þegar hann sagði af þessu tilefni eftirfarandi:

“En það er ríkisstjórninni (Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks undir forsæti Ólafs Thors) að þakka, að þessi leið var farin til lausnar verkfallinu, en alls ekki hinum ábyrgðarlausu æsingjaseggjum, sem hófu það”.

Þetta er í stíl við aðrar goðsagnir, sem haldið hefur verið að bókaþjóðinni á undanförnum áratugum í þá veru, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fundið upp velferðarríkið á Íslandi og barist fyrir því að koma því á legg.

Frá því að þessum sögulega áfanga var náð um miðjan sjötta áratug seinustu aldar, hafa margar ríkisstjórnir komið að breytingum á löggjöfinni um atvinnuleysistryggingar og atvinnuleysistryggingasjóð. Að því verki hafa komið margir stjórnmálaleiðtogar úr ýmsum flokkum, enda málið ekki umdeilt, eftir að það hafði á annað borð sannað ágæti sitt.

Meðal þessara stjórmálamanna má nefna þá Braga Sigurjónsson og Eggert G. Þorsteinsson á Viðreisnarárunum; Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson í tíð vinstristjórnarinnar 1971-74; Svavar Gestsson, sem félagsmálaráðherra í ríkisstjórnartíð Gunnars Thoroddsen (1980-83); Guðmund Árna Stefánsson, félagsmálaráðherra í í tíð Viðeyjarstjórnarinnar (1991-95); Pál Pétursson og Árna Magnússon í tíð fráfarandi ríkisstjórnar.

Yfirleitt hafa þessar breytingar verið gerðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins, þótt stundum hafi komið til árekstra á milli þeirra og ríkisvaldsins, ekki síst þegar Atvinnutryggingasjóður var innlimaður í ríkissjóð. Það var verk Geirs H. Haarde, sem virtist hafa gleymt því, hvernig var til sjóðsins stofnað í upphafi. Ebbi í Dagsbrún hefði ekki orðið kátur. Það telst þó ekki vera aðalatriði málsins, svo fremi sem sjóðurinn stendur undir upprunalegu hlutverki sínu, þegar á reynir, nefnilega að greiða atvinnulausu fólki tímabundinn framfærslueyri og styrkja það gegnum starfsþjálfun og á annan hátt til að búa sig undir ný störf.

Í upphafi voru látnar uppi efasemdir um, að þessi bók mundi rata inn á metsölulista bókaútgefenda. Engu að síður á bókin erindi við alla þá, sem láta sig þjóðfélagsmál einhverju varða. Þess vegna skyldi maður ætla, að bókin eigi að vera á náttborði nýkjörinna þingmanna ( og hinna gömlu líka); þeim mun ekki af veita. Að öðru leyti er þetta uppflettirit í baráttusögunni fyrir því að reisa og viðhalda norrænu velferðarríki á Íslandi. Bókin er gagnleg öllum þeim, sem einhverra hluta vegna þurfa að kynna sér þetta efni. Seinni parturinn er samt sem áður hundleiðinlegur, enda er þar mestan part verið að fást við valdabaráttu um yfirráð yfir sjóðnum og bægslagang búrakrata, sem hafa hreiðrað um sig í kringum starfsemina. Æskilegt hefði verið, að höfundur hefði leyft sér að fjalla meira um lífsháska þeirra, sem verða fórnalömb atvinnuleysis, og hvað læra megi af reynslu þeirra og félagslegum aðgerðum þeim til styrktar.

Lærdómur sögunnar.

Það er óhjákvæmilegt, þegar fjallað er um svo viðamikið efni á svo löngum tíma, að höfundi verði öðru hverju á í messunni. Nokkur dæmi: Höfundur heldur því fram (á bls. 68), að seinni tíma hagfræðingum komi saman um, að ríkisstjórn hinna vinnandi stétta (1934-37) hafi fundið upp haftabúskapinn, sem tröllreið íslenskum þjóðarbúskap fram undir Viðreisn. Vera má, að einstaka hægriöfgamenn haldi þessu fram, en flestir hagfræðingar vita betur. Haftabúskapurinn var tekinn upp á fyrrastríðsárunum og viðhaldið árum saman eftir stríðslok. Vinstristjórn Hermanns Jónassonar á kreppuárunum gerði ekki annað en ríkisstjórnir allt um kring gerðu, nefnilega að grípa til verndarstefnu (innflutningshafta) sem var viðbrögð við haftastefnu viðskiptalanda. Þetta afsakar engan veginn haftabúskapinn og ríkisforsjána, sem hefur verið rekin hér alla tíð á ábyrgð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins

Annað: Höfundur segir vinstristjórnina 1956-58 vera “fyrstu ríkisstjórninna í NATO-landi, sem vinstrimenn áttu aðild að “. Þetta er fjarstæða. Sósíaldemókratar eins og Ernie Bevin, utanríkisráðherra Atlees og Paul Henri Spaak, utanríkisráðherra Belga, fyrir nú utan krataleiðtoga Norðmanna og Dana, voru á sinum tíma frumkvöðlar og burðarásar í varnarsamstarfinu við Bandaríkin gegnum NATO. Hægri menn eins og hægri armur breska íhaldsins og frönsku gaullistarnir voru á móti.

Loks er þess að geta, að umfjöllun höfundar um svokölluð “Ólafslög” (sjá bls. 177-78) þarfnast endurskoðunar. Ólafslög, þar sem kjarni málsins var verðtrygging fjárskuldbindinga, þótt að öðru leyti væru þau um “efnahagsmálapakka”, miðað við þáverandi aðstæður verðbólgu og misgengis, átti uppruna sinn í frumvarpi, sem við Vilmundur Gylfason verkstýrðum af hálfu þingflokks Alþýðuflokksins og var lagt fram um jólaleytið 1978 sem skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamvinnu.

Verðtryggingarkaflinn var að mestu verk Jóns Sigurðssonar, forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar, síðar þingmanns og ráðherra Alþýðuflokksins (og bróðursonar Haraldar Guðmundssonar, guðföður velferðarríkisins íslenska). Greinargerðin og rökstuðningurinn með frumvarpinu var höfundarverk Gylfa Þ. Gíslasonar, fv. ráðherra Alþýðuflokksins í Viðreisnarstjórninni. Eini maðurinn, sem eftir því sem best er vitað hafði ekkert til málanna að leggja um svokölluð Ólafslög, var Ólafur Jóhannesson sjálfur.

Þetta er ekki sagt Ólafi til hnjóðs, heldur aðeins til að halda til haga sögulegum staðreyndum. Svona getur verið auðvelt að koma á kreik sögusögnum um sögulegar staðreyndir, sem síðan verða að goðsögnum, sem seinni tíma menn glepjast til að trúa. Höfuðkostur þessarar bókar er einmitt sá, að hún segir sannleikann um baráttuna fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi. Það voru mannréttindi, sem náðust ekki fram baráttulaust. Það er lærdómur sögunnar.