Í MINNINGU EINARS ODDS KRISTJÁNSSONAR

Þjóðarsáttarsamningarnir snemma á tíunda áratug seinustu aldar voru stóra stundin á pólitískum ferli Einars Odds Kristjánssonar. Það er vafamál, hvort þessir samningar hefðu komist á án hans atbeina. Auðvitað áttu fleiri góðan hlut að því máli, en áræðni Einars Odds og sannfæringarkraftur kunna að hafa ráðið úrslitum. Fyrir þetta stendur íslenska þjóðin í þakkarskuld við Einar Odd Kristjánsson. Viðurkenning manna á lofsverðri framgöngu Einars Odds í þessu máli fékk m.a. s. birtingarform í tungutakinu, því að lengi á eftir var til hans vísað undir sæmdarheitinu “bjargvætturinn frá Flateyri.”

Mikilvægi þessara tilteknu kjarasamninga er trúlega hulin ráðgáta öðrum en þeim, sem ólust upp í verðbólguþjóðfélaginu íslenska. Þrálát verðbólga var á þessum árum innbyggð í sjálft stjórnkerfið og orðin að sérstökum lífsstíl. Verðbólgan var knúin áfram af sjálfvirkri víxlverkan verðlags og launa. Kjarasamningar, jafnvel upp á tugi prósenta, héldu ekki, því að kaupmátturinn eyddist í verðbólgunni. Verðbólguvæntingarnar stýrðu hugsunarhætti og athöfnum fólks. Glataður var geymdur eyrir. Sparnaður var nánast refsivert athæfi. Engir haldbærir mælikvarðar voru til á arðsemi fjárfestinga. Allt var talið borgað sig, ef það var bundið nógu hratt í steinsteypu. Munurinn á verðlagi og tilkostnaði innan lands og meðal viðskiptaþjóða kallaði á reglubundnar gengisfellingar krónunnar til þess að halda sjávarútveginum að meðaltali ofan við núllið.

Tíðar gengisfellingar virkuðu sem olía á eld verðbólgunnar. Aðrar atvinnugreinar áttu erfitt uppdráttar í sambýli við sveiflurnar í sjávarútveginum. Það skorti allan stöðugleika til þess að unnt væri að byggja upp samkeppnishæfan atvinnurekstur til frambúðar. Forstjórar fyrirtækjanna þurftu að redda hlutunum milli gengisfellinga. Stjórnmálamenn lifðu milli vísitölutímabila og þurftu reglulega að grípa til reddinga, sem einatt reyndust þó vera bráðabirgðakukl til skamms tíma.

Eftir á að hyggja gengur það kraftaverki næst, hvernig mönnum tókst að tryggja hagvöxt, atvinnu og batnandi lífskjör í þjóðfélagsumhverfi, sem dró meiri dám af fjárhættuspili en fyrirhyggju. Kannski er ofmælt, að yngstu kynslóðinni sé fyrirmunað að skilja svona stjórnarhætti í ljósi þess, að hagstjórnin undanfarin misseri hefur um margt minnt á gamla daga: Við erum aftur farin að upplifa verðbólgu langt umfram viðskiptalönd ásamt óbrúanlegum vaxtamun og gengissveiflum, sem eru útflutnings- og samkeppnisgreinum fjötur um fót. En reynslan af gamla verðbólguþjóðfélaginu ætti þá að vera ungum jafnt sem öldnum víti til varnaðar og lexía til að læra af.

Þjóðarsáttarsamningarnir á sínum tíma höfðu að markmiði að koma böndum á verðbólgu, sem þá hafði fest sig í sessi á bilinu 30-40%. Til þess þurfti kjarasamninga til langs tíma, sem miðuðu að varðveislu kaupmáttar umsaminna launa við skilyrði stöðugs verðlags. Til þess að ná þessum markmiðum þurfti sameiginlegt átak verkalýðshreyfingar, vinnuveitenda og ríkisvalds. Þar þurfti hver og einn að standa við sitt. Og það þurfti að ríkja traust milli manna um, að allir legðu sig fram um að ná settum markmiðum, hver á sínu sviði. Og að enginn mundi skerast úr leik eða hopa undan, þótt á móti blési.

Fyrsti maðurinn, sem ég man eftir, að boðaði nauðsyn nýrra vinnubragða við kjarasamninga til að tryggja stöðugleika og varðveita kaupmátt, var Þröstur Ólafsson, þáverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar. Það vakti athygli, að hann áræddi að setja fram þessar nýstárlegu og umdeildu hugmyndir á fundi Dagsbrúnarmanna í Iðnó. Guðmundur J. Guðmundsson, hinn aðsópsmikli formaður Dagsbrúnar á þeirri tíð, tók þessar hugmyndir upp og mælti fyrir þeim í ræðu og riti.

Samt sem áður er það staðreynd, að fáir höfðu trú á, að nauðsynleg samstaða gæti tekist, þar sem enginn mátti skerast úr leik, ef ekki átti illa að fara. Áhættan var því mikil, ekki síst fyrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni og þá stjórnmálamenn, sem áttu líf sitt undir almannahylli.

Það var þjóðargæfa, að Einar Oddur Kristjánsson var orðinn formaður Vinnuveitendasambandsins á þessum tíma. Þrátt fyrir litla formlega skólagöngu hafði hann mikla reynslu af áhættusömum rekstri í sjávarútvegi. Hann var eðlisgreindur, fljótur að læra, átti auðvelt með að greina aukaatriði frá aðalatriðum og var skjótur til ákvarðana, þegar á þurfti að halda. En fyrst og síðast var hann kjarkmikill Vestfirðingur, sem þorði að leggja allt undir og tefla djarft til vinnings.

Þrátt fyrir ágjöf og klúður, sem stefndi öllu ferlinu í tvísýnu, tókst með þrautseigju að ná settu markmiði. Með sameiginlegu átaki tókst að koma verðbólgunni niður í eins stafs tölu, og koma þar með í veg fyrir, að hún færi úr böndunum með þeim hörmulegu afleiðingum, sem þá hefðu af hlotist. Það tókst að varðveita kaupmátt umsaminna launa og tryggja atvinnulífinu meiri stöðugleika og festu. Með EES samningnum tókst síðan að festa þennan árangur í sessi með margföldun heimamarkaðarins og lögleiðingu á nútímalegu samkeppnisumhverfi á evrópska efnahagssvæðinu.

Þetta var upphafið að mesta blómaskeiði Íslandssögunnar fyrr og síðar. Þessi saga er enn óskráð. En þegar að því kemur, að hún verður rannsökuð og rituð, mun Einars Odds Kristjánssonar verða að góðu getið. Hann reyndist vera réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Sæmdarheitið “bjargvætturinn frá Flateyri” reyndist verðskuldað.