KOLLA OG KÚLTÚRINN FIMMTÍU ÁRA

Auðvitað átti Mál og menning að heiðra Kollu og kúltúrinn í tilefni af þessu stórafmæli með því að gefa út bók með úrvali af viðtölum Kollu við mannfólkið. Þá hefðum við séð það svart á hvítu, sem mörgum okkar hefur lengi boðið í grun, að Kolla væri besti viðtalshöfundur samtímans. A.m.k. eftir að Matti Jó hætti að birta sexopnuviðtöl við Rostropovits um kalda stríðið í kúltúrnum undir fyrirsögninni: Í fáum orðum sagt.

Að öðru leyti verður að viðurkenna, að samkeppnin í viðtalabransanum er ekki mjög hörð hér á landi. Flestir fjölmiðlar íslenskir virðast starfa samkvæmt þeirri grundvallarreglu að tala bara við fólk, sem hefur ekkert að segja. Það er af því að þótt svoleiðis textar freisti ekki lesenda, þá fæla þeir alla vega ekki frá auglýsendur. Kolla er aftur á móti hinsegin. Hún spyr bara spurninga, sem skipta máli, en hefur ekki áhuga á hinu. Það er varla til sá andlegi trédrumbur, að hann vakni ekki til einhvers konar vitundar í viðtali við Kollu. T.d. tókst henni nýlega að láta formann FL Group líta út eins og mann, af því að það hvarflaði ekki að henni að spyrja hann út í það eina, sem hann hefur vit á, nefnilega peninga.

En þótt það ríki fákeppni í viðtalabransanum hér á landi og markaðshlutdeild Kollu sé hættulega stór, eins og hjá þeim í Baugi og Bónus, þá gildir það ekki á EES svæðinu. Þar þarf Kolla að keppa við viðtalateymin á Le Monde, Der Spiegel og Corriera della Sera. Og Kolla hefur betur.

Því til staðfestingar er viðtal Kollu við Ramos Horta, friðarverðlaunahafa Nobels, og núverandi forseta Austur-Timor, (sem er eyja í Kyrrahafinu fyrir þá, sem ekkert vita í sinn haus). Horta er einn af öndvegismönnum samtímans, slagar hátt upp í Gandhi og Mandela. Hann er m.ö.o. ekkert fífl, eins og er í tísku, að séu að vesenast í pólitík nú til dags, eins og Bush og Blair og aðrir hvunndagsbjánar, sem koma óorði á pólitíkina.

Viðtal Kollu við Horta var perla. Það er af því að hún spurði hann bara spurninga, sem hann hafði aldrei þurft að svara áður. Þetta viðtal birtist auðvitað exclusively í Alþýðublaðinu, sem í þá daga var svo gott blað, að það var einungis á færi fólks með greindarvísitölu yfir 150 að lesa það sér til gagns; enda hafði það svipaða útbreiðslu og Osservatore Romanorum, málgagn Páfastóls. Páfinn er, sem kunnugt er, óskeikull að eigin mati – og sama gilti um þau á Alþýðublaðinu i den tid.

Ég man, að þegar viðtalið við Horta birtist í Aþýðublaðinu, fór Össur beibí að gráta, en mig setti hljóðan. Svona bregðumst við Össur ólíkt við mikilsverðum tíðindum. Mér finnst, að næst þegar Kolla og kúltúrinn eiga afmæli og Horta verður enn forseti Austur-Tímor, eigi hann að bjóða Kollu í opinbera heimsókn. Össur gæti kannski fengið að fljóta með, af því að hann er orðinn yfir Byggðastofnun.

Eins og þegar hefur verið gefið í skyn, er Kolla krati. Meira að segja eðalkrati. Hún gekk í Alþýðuflokkinn, af því að það var lítill flokkur með mikil áhrif, sem stóð fyrir mannviti og mannúð. Og af því að Kolla gerir engar kröfur fyrir hönd sjálfrar sín, en er hörð á meiningunni fyrir hönd annarra, sem þurfa meira á því að halda. Samt er hún á móti aumingjakúltúr. T.d. vildi hún láta reka heilaga Jóhönnu úr flokknum á sínum tíma. Ég heyktist auðvitað á því, af því að innst inni er ég svoddan merarhjarta.

Eins og við er að búast um eðalkrata, leið Kollu vel í Krataflokknum, af því að það var lítill flokkur með mikil áhrif. Þótt þetta væri flokkur, sem kenndi sig við alþýðuna, kom á daginn, þegar málið var rannsakað, að helsti kjósendahópur flokksins reyndist vera ”sjálfstætt starfandi sérfræðingar”. Það er svona fólk eins og Kolla. Ætli hún flokkist ekki í þjóðskránni undir “sjálfstætt starfandi sérfræðing” í kúltúrnum?

Kolla er líka ein af örfáum manneskjum, sem nú eru uppistandandi í þessari amrísku bílaborg, sem hefur vit á almannasamgöngum. Það er af því að hún fer sjálf fótgangandi um stræti og torg og tekur m.a.s. strætó út í Móa, þangað sem þessu Blaði hennar hefur verið úthýst. Þetta er einhver dýrasta einkabílaþjónusta, sem rekin er norðan Alpafjalla. Slagar hátt upp í einkaþoturnar hjá FL Group eða þyrluplágu Samskipaforstjórans, sem er við það að eyða öllu fuglalífi kringum Snæfellsjökul.

Eina fólkið, sem fær að vera samferða Kollu í þessari opinberu einkabílaþjónustu, er þjóðin, sem senn mun erfa landið – nefnilega Pólverjar. Meðal annarra orða: Hvar í veröldinni tíðkast það að planta fjölmiðlum, sem eiga að hafa fingurinn á púlsi þjóðlífsins, niður á uppblásnum eyðimelum eða útnáraskæklum – þangað sem enginn kemst nema Kolla og fuglinn fljúgandi? Hvernig væri nú, að Mogginn hypjaði sig aftur heim í Morgunblaðshöllina í Grjótaþorpinu? Þá gætu þeir bara horft á borgarastríðið, sem geisar í miðbæ Reykjavíkur, út um gluggann hjá sér. Og þyrftu aldrei að senda Agnesi á vettvang. Og gætu sparað sér rosalegan strætókostnað. Mér skilst, að það sé hart í ári og ekki veiti af að spara.

Eins og aðrir eðalkratar er Kolla soldið munaðarlaus þessi misserin í pólitíkinni. Henni leiðist nefnilega að vera í stórum flokki með lítil áhrif. Og hún hefur óbeit á kvenrembufasisma, af því að henni er eðlislægt að hafa samúð með þeim, sem eru minni máttar – nefnilega gáfnaljósum af karlkyni. Það var ekki fyrr en við Jón Sigurðsson gáfum Samkynhneigðufylkingunni pólitískt siðferðisvottorð með stuðningsyfirlýsingum kortéri fyrir kosningar, að Kolla tók Sollu í sátt. Það dugði til þess að afstýra fylgishruni og gera Össur að yfirmanni Byggðastofnunar. Þar með hlýtur hann að geta, a.m.k. byggt upp bleikjustofninn í Þingvallavatni, þótt þorskstofninn haldi áfram að deyja drottni sínum, samkvæmt forskrift sjávarútvegsráðherrans.

Íslendingum þykir yfirleitt lítið koma til fólks, meðan það er á lífi, en þeir skrifa þeim mun mærðarlegri minningargreinar um menn, þegar þeir eru dauðir. Kolla heyrir í þessu efni, eins og öðrum, til undantekninga. Það er óumdeilt, að hún hefur þegar í lifanda lífi sett sinn sérstaka svip á mannlífið í þessu grjótaþorpi samtímans. Kúltúrinn er með öðrum orðum óhugsandi án Kollu.

Að þessu leyti minnir hún á aðra konu, sem uppi var í Moskvu á dögum rússnesku byltingarinnar og hét Alexandra Kollontai. Reyndar er ekki útilokað, að Kolla hafi verið Kollontai í fyrra lífi. Kollontai var sem kunnugt er þeirrar skoðunar, að rússneska byltingin ætti að vera um frelsi, jafnrétti og – frjálsar ástir. Hún hélt því fram statt og stöðugt, að þeir kumpánar, Lenín og Stalín, hefðu misskilið boðskapinn. Og ættu að láta sér segjast.

En þótt þeir Vladimir Ilíts og Jósep Djugasvili hafi breytt Bolsjevíkaflokknum í bófafélag og byltingunni í betrunarhús, þá lögðu þeir aldrei í Kollontai. Henni leyfðist að skamma þá fóla óbótaskömmum, án þess að þeir þyrðu að snerta hár á höfði hennar af ótta við, að þá væri lesendum hennar nóg boðið; að þá mundi aðdáendaklúbbur Kollontai gera byltingu – þ.e.a.s. gagnbyltingu í nafni frelsis, jafnréttis og frjálsra ásta.

Þeir tóku því enga áhættu, en gerðu Kollontai að sendiherra í Svíþjóð, þar sem hún hélt áfram að boða frjálsar ástir við hirð Gústafs Adolfs Svíakonungs. – Og með sýnu meir árangri en við hirð Stalíns.
Það var eina sendiráð Sovétríkjanna í heiminum, þar sem ekki var mynd af Stalín uppi á vegg. Í staðinn voru myndir af Önnu Akmatovu og Maxim Gorki, Gogol og Dostojevskí og öðrum góðum mönnum. Stalín ákvað að kalla hana aldrei heim.

Með vísan til þessa hef ég hér með ákveðið, að þegar ég tek aftur við Utanríkisráðuneytinu til þess að leiða þjóðina inn í Evrópu eftir kosningarnar 2015, verði Kolla aftur gerð að sendiherra í Svíþjóð. Án heimkvaðningarskyldu.
Lengi lifi byltingin.
Lengi lifi frelsi, jafnrétti og frjálsar ástir.
Lengi lifi Kolla Kollontai.