AL GORE GEGN AMRÍSKA HEIMSVELDINU

Al Gore: The Assault on Reason
The Penguin Press, N.Y., 2007, 308 bls..

Ef Al Gore, þáverandi varaforseti og frambjóðandi í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000, hefði unnið kosningarnar, eins og öll rök stóðu til, hefði hann ekki þurft að skrifa þessa bók. Al Gore hafði verið einn áhrifamesti varaforseti í sögu þess vandræðalega embættis, (a.m.k. fram að tíð Cheneys, núverandi varaforseta, sem flestir álíta meiri þungavigtarmann en meintan húsbónda í Hvíta húsinu). Bill Clinton naut almennra vinsælda sem forseti og hefði auðveldlega fengið umboð kjósenda þriðja kjörtímabilið í röð, væri það leyfilegt samkvæmt stjórnarskránni. Clinton og Gore höfðu skilað góðu búi. Það var uppgangur í efnahagslífinu, sem var drifinn áfram af tæknibyltingu, sem jók framleiðni og samkeppnishæfni bandarískra fyrirtækja og dró um leið úr atvinnuleysi. Viðvarandi fjárlagahalla hafði verið snúið upp í fimm trilljón dala tekjujöfnuð. Það blés því byrlega fyrir Al Gore.

Keppinautur hans af hálfu republíkana, fráfarandi ríkisstjóri í Texas, hafði af litlu að státa. Hann hafði verið drykkfelldur dekurdrengur og mislukkaður bissnissmaður, sem hafði sloppið frá gjaldþroti fyrir atbeina föður síns og vina hans. En hann hafði frelsast fyrir náð Jesús og snúið til betri vegar. En þessi fákunnandi og reynslulausi einfeldningur frá Texas, sem hafði komið einu sinni til útlanda (til Mexíkó), virtist lítið erindi eiga í hendurnar á Al Gore. Gore var þrautreyndur stjórnmálamaður eftir langa setu í fulltrúadeildinni og Senatinu, auk þess sem hann hafði bakað skæðari keppinauta en Bush í frægum sjónvarpseinvígum, þeirra á meðal menn eins og Senator Bradley og Ross Perot.

Samt tókst Gore að klúðra kosningabaráttunni við viðvanginginn Bush. Honum var svo mikið í mun að afneita vináttu sinni við Bill Clinton til þess að hann yrði aldrei vændur um vafasamt siðferði, (munið þið eftir Moniku Lewinski?), að hann lét meira að segja undir höfuð leggjast að verja pólitíska arfleifð þeirra fóstbræðra. Kjósendur fengu því engan botn í það, fyrir hvað þessi Al Gore stóð, og fengu þar að auki hálfpartinn samúð með hinum málhalta Bush, sem virtist vera meinlaus miðlungsblók – rétt eins og þorri kjósenda.

Versti forseti í manna minnum.

Að vísu fékk Gore fleiri atkvæði meðal kjósenda, sem nam hálfri milljón eða svo. En úrslitin réðust meðal kjörmanna í Floridafylki, þar sem bróðir Bush var ríkisstjóri. Framkvæmd kosninganna var öll í skötulíki. Að lokum úrskurðaði meirihluti Hæstaréttar, þar sem dómarar, skipaðir af föður Bush, réðu úrslitum, að hætt skyldi að telja atkvæðin, og tilnefndu þar með W. Bush sem forseta. Ef þetta hefði gerst í Suður-Ameríkuríki, hefði þetta verið kallað valdarán. En þar sem þarna átti í hlut sjálfskipað forysturíki lýðræðis í heiminum, var þetta látið gott heita.

Al Gore ber því þunga ábyrgð, ekki einasta frammi fyrir sögu Bandaríkjanna, heldur frammi fyrir jarðarbúum öllum, á afleiðingum klúðursins, sem birst hafa í skelfilegum afleiðingum af stjórnarháttum Bush og félaga. Sagnfræðingar í Bandaríkjunum deila nú ákaft innbyrðis um, hvort það sé ekki hafið yfir allan vafa, að George W. Bush sé versti forseti, sem setið hefur í Hvíta húsinu í sögu Bandaríkjanna. Það er reyndar söguskoðun, sem engum þeirra hefur tekist að afsanna enn, sem komið er. Ábyrgð Al Gores á þessum ósköpum hlýtur því að hvíla þungt á herðum hans.

Átta árum síðar lítur hann í spegil sögunnar og kemst að þeirri niðurstöðu, að “Bandaríkjamenn þekki varla lengur sitt eigið land”. Sjálft lýðræðið er í hættu, segir hann. Líkt og í Róm forðum hefur lýðveldið breyst í heimsveldi, þar sem forsetinn hefur tekið sér allt að því alræðisvald, sem yfirmaður heraflans í ríki, sem hefur lýst yfir stöðugu styrjaldarástandi; þar sem hornsteinn stjórnskipunarinnar, þrískipting ríkisvaldsins, er nú orðið aðeins að nafninu til, og þar sem stjórnarskrárvarin mannréttindi eru ekki lengur virt. Menn eru handteknir og haldið í fangelsi án dóms og laga, og bandaríski herinn stundar pyntingar á stríðsföngum. Hryðjuverkamennirnir – óvinir ríkisins – hafa greinilega haft meiri áhrif en ætla mátti í upphafi.

Það er eins og Bandaríkjamenn viti varla lengur, hvaðan á þá stendur veðrið: “Við höfum þingið – Congress . Við höfum sjálfstætt dómsvald. Við höfum þrískiptingu ríkisvaldsins. Við höfum réttarríkið. Við höfum málfrelsi. Við höfum frjálsa fjölmiðla. Hefur allt þetta brugðist okkur?” – spyr höfundurinn í forundran. Og hann svarar sér sjálfur: Já – sjálft lýðræðið er í hættu. Sem yfirmaður heraflans hefur forsetinn sölsað undir sig meiri völd í nafni þjóðaröryggis en stjórnarskráin heimilar. Forsetinn er orðinn hafinn yfir lögin. Þingið er orðið að þýlyndri afgreiðslustofnun. Það er búið að fylla dómstólana af pólitískum málaliðum.

Lýst eftir stjórnarandstöðu.

En hvar er stjórnarandstaðan og hinir frjálsu fjölmiðlar? Eftir ellefta september tókst ríkisstjórninni að þagga niður í báðum. Hver þorir að sitja uppi með stimpil landráðamannsins á sama tíma og bestu synir fósturjarðarinnar heyja tvísýnt stríð í nafni hins góða gegn hinu illa? Þjóðin er umsetin óvinum hið ytra (terroristar) og hið innra (stjórnarandstaðan). “Ef þið viljið, að terroristarnir vinni, kjósið þá demókratana”, sagði forsetinn a.m.k. þrisvar sinnum á dag fyrir þingkosningarnar 2006. Og hvar eru hinir frjálsu fjölmiðlar? Þeir eru í eigu örfárra auðhringa. Þeir eru að sjálfsögðu reknir í hagnaðarskyni. Þær fréttir einar eru fluttar, sem laða að miklar auglýsingar. Gagnrýni á stjórnvöld, á sama tíma og þjóðin stendur í stríði, er óþjóðholl. Þjóðin þarf að sýna samstöðu. Gagnrýnisraddir eru því þaggaðar niður. Þær heyrast því ekki lengur nema í neðanjarðargöngum netheima. Það er þetta , sem Gore á við, þegar hann segir, að sjálft lýðræðið sé í hættu. Án virkrar stjórnarandstöðu og gagnrýninnar þjóðfélagsumræðu er lýðræðið ekki svipur hjá sjón.

Þegar menntamálaráðherra frá Þýskalandi sneri heim til Berlínar eftir nokkurra daga dvöl í “landi óttans”, varð henni á að segja, að ástandið minnti hana á andrúmsloftið á árunum eftir valdatöku Hitlers. Hún varð auðvitað að segja af sér, því að þýskir valdhafar með sína sögulegu sekt í arf hafa ekki leyfi til að tala svona. En nú staðfestir fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna í bók, sem hann kennir við “árás á heilbrigða skynsemi”, að þýski menntamálaráðherrann hafði reyndar rétt fyrir sér. Meira að segja aðskilnaður ríkis og kirkju, þessi hornsteinn bandarísku stjórnarskrárinnar, er ekki lengur virtur. Guð er allt í einu orðinn repúblíkani, og demókratar eru handbendi erlendra hryðjuverkasamtaka. Guð hjálpi Guðs eigin landi. Hvað kemur næst?

Sú var tíð, að sjálfsímynd bandarískra ríkisborgara var “grunnmúruð og innvígð” í allt að því goðsögulegri helgisögn sakleysisins. Frelsisstyttan við innsiglinguna til New York lyfti kyndli frelsisins hátt á loft. Hún breiddi út faðminn og tók fagnandi við hinum snauðu, forsmáðu og kúguðu, sem leituðu nýrra tækifæra, lausir undan oki stéttaskiptingar, ójöfnuðar og ófrelsis í gamla heiminum. Engum datt í hug að taka af þeim fingraförin þá.

Sjálfsímynd sakleysisins.

Bandaríkin voru hinum forsmáðu fyrirheit um nýtt líf. Þar sem einstaklingurinn í krafti eigin framtaks gat orðið sinnar eigin gæfu smiður. Bandaríska byltingin gegn breskum nýlendudrottnum var systurhreyfing frönsku byltingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Hinir vitru landsfeður, höfundar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar og bandarísku stjórnarskrárinnar, voru lífsreyndir menn, sem skildu mannlegt eðli; sköpunarkraft hins frjálsa anda, en jafnframt breyskleika erfðasyndarinnar um ágirnd og valdafíkn. Þeir voru svarnir óvinir sjálfskipaðra yfirvalda gamla heimsins, sem þóttust í hroka sínum hafa umboð sitt frá guði. Þeir mæltu því fyrir um, að Bandaríkjamenn skyldu njóta trúfrelsis. En það var bannað að blanda saman stjórnmálum og trúarbrögðum,(sem hver einstaklingur átti við sinn guð).

Landsfeðurnir mæltu fyrir um þrískiptingu ríkisvaldsins: Framkvæmdavalds (forsetans), löggjafarvaldsins (Congress) og dómsvalds, þar sem Hæstiréttur gegndi því hlutverki að vaka yfir stjórnskipuninni og koma í veg fyrir samþjöppun valds í höndum fárra á kostnað fjöldans. Fulltrúalýðræðið, þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar sóttu umboð sitt til almennings, byggði að lokum á trausti á dómgreind upplýsts almennings. Frjálst flæði upplýsinga og gagnrýnin rökræða átti að leiða til skynsamlegra ákvarðana, rétt eins og frjálst flæði upplýsinga á markaðnum auðveldaði neytendum að taka ákvarðanir um kaup og sölu, sem byggði á raunsæju mati og réttum upplýsingum. Öfugt við frönsku byltinguna, sem reyndist skammlíf og endaði í hernaðareinræði keisarans frá Korsíku, Napóleons, stóðst bandaríska byltingin hverja raun, þar á meðal borgarastyrjöldina, sem stundum er kennd við þrælastríðið upp úr miðri nítjándu öld.

Vissulega er reginmunur á helgisögn og raunveruleika hins bandaríska lýðræðis. Auðvitað hafa komið tímabil, þar sem lýðræðið var í hættu frammi fyrir ofurvaldi auðkýfinga, sem svifust einskis í harðsvíraðri eftirsókn eftir yfirráðum yfir auðlindum og auðsuppsprettum. Bandaríska þingið hefur á stundum verið lítið annað en lítilþægur uppboðsmarkaður sérhagsmuna. Árið 1906 lýsti Theodore Roosevelt, föðurbróðir Franklins Delanos, ástandinu með eftirfarandi orðum (sem Al Gore segir, að eigi að breyttu breytanda vel við um ríkjandi ástand):

“Bak við hina sýnilegu ríkisstjórn situr önnur ósýnileg í hásæti sínu og skuldar þjóðinni enga hollustu og ber frammi fyrir henni enga ábyrgð. Fyrsta verkefni lýðræðislega kjörinna stjórnvalda á okkar tíð er að steypa þessari ósýnilegu ríkisstjórn af stalli sínum; að sundra þessu vanhelga bandalagi spilltra viðskiptajöfra og spilltra stjórnmalamanna.”

Helgisögn hins bandaríska lýðræðis stenst auðvitað ekki gagnrýna skoðun frekar en aðrar helgisagnir. Fram hjá því verður ekki litið, að bandaríska lýðveldið var í upphafi grundvallað á ofbeldi, sem fólst í útrýmingu hinna innfæddu, og hagkerfi, sem byggði á þrælahaldi hinna þeldökku. Jafnvel hinir frjálslyndustu í hópi höfunda stjórnarskrárinnar, eins og t.d. sjálfur Thomas Jefferson, byggðu afkomu sína á þrælahaldi. Sjálfur Abraham Lincoln, mesti andans jöfur, sem setið hefur á bandarískum forsetastóli, viðurkenndi, að t þrælastríðið snerist fyrst og fremst um að halda ríkjasambandinu saman, fremur en að afnema þrælahald af siðferðilegum ástæðum. En þrátt fyrir allan sinn ófullkomleika, sem staðfesti þrátt fyrir allt skilning höfunda stjórnarskrárinnar á mannlegum breyskleika, stóðst hið unga lýðveldi hverja raun í tímans rás, uns það nú trónir yfir gervallri heimsbyggðinni. Hersveitir þess, gráar fyrir járnum, hreiðra nú um sig á framandi meginlöndum, þar sem barist er um forræði yfir auðlindum og auðsuppsprettum. Lýðveldið horska hefur breyst í drottnandi heimsveldi.

Gamli og nýi heimurinn.

Evrópumenn hafa frá upphafi vega gert sér sérstakar hugmyndir um samband sitt við hið rísandi heimsveldi í nýja heiminum. Ameríka var í upphafi byggð flóttafólki frá Evrópu. Þetta flóttafólk flúði gamla heiminn undan harðstjórn, kúgun, ófrelsi, stéttaskiptingu, ójöfnuði og bágum kjörum. Nýi heimurinn var þessu fólki fyrirheit um frelsun frá fjötrum fortíðar og von um ný tækifæri í leit að lífshamingju.

Þegar gamla Evrópa brotlenti evrópskri siðmenningu á vígvöllum fyrri heimstyrjaldar – hver kom þá til hjálpar á örlagastundu nema afkomendur flóttafólksins, sem Evrópa hafði á sínum tíma hrakið frá sér? Og þegar öfgastefnur alræðisins voru við það að slökkva á veiku skari lýðræðisins í gamla heiminum, hver kom þá til hjálpar enn á ný og bjargaði Evrópu frá sjálfri sér? Ameríka – “vopnabúr lýðræðisins” – eins og Roosevelt forseti lýsti landi sínu. Og hver var það, sem rétti gömlu Evrópu hjálparhönd, þar sem hún lá magnþrota í blóði sínu í rústum seinni heimsstyrjaldar? Marshallaðstoðin stuðlaði að endurreisn Evrópu og bægði frá allri hættu á pólitískri upplausn.

Og aðeins Ameríka hafði til þess burði að vera forysturíki lýðræðisins í hálfrar aldar köldu stríði við heimskommúnismann, sem ríkti yfir þriðjungi jarðarbúa undir forystu Sovétríkjanna. Bandaríkin og bandalagsríki þeirra unnu þetta kalda stríð. Sovétríkin eru horfin á öskuhauga sögunnar. Forysturíki lýðræðisins er um leið mesta herveldi allra tíma og stefnir að eigin sögn að því að viðhalda þeim hernaðaryfirburðum á láði og legi, í lofti og í geimnum. Að vísu hafa Bandaríkjamenn hingað til tekið því víðs fjarri, að þetta sjálfskipaða forysturíki lýðræðis í heiminum stefni að heimsyfirráðum. Þeir eru aldir upp við þá barnatrú, að Bandaríkin séu góðkynja veldi. Það eitt vaki fyrir þeim að útbreiða lýðræði og frelsi í mannheimum.

Margir þeirra trúðu því einlæglega, að þegar ameríski tækniherinn hefði haldið innreið sína í Bagdad, myndu börn og konur fagna þeim með blómum sem frelsisenglum. Nú hafa þeir viðhaldið hernámi sínu í Írak lengur en sem nemur þátttöku þeirra í seinni heimsstyrjöldinni. Blóðið flýtur um götur Bagdad í grimmilegri borgarastyrjöld, sem ekki sér fyrir endann á. Og öflugasta herveldi allra tíma ræður ekki neitt við neitt. Og þrátt fyrir alla hernaðaryfirburðina geta þeir ekki komið skæriliðum í þriðjaheimsríki eins og Afganistan á kné; ekki frekar en þeir gátu beygt hrísgrjónabændur Vietnam til hlýðni á sinni tíð. Heimsveldið mikla er ekki ósigrandi. Og einhvern veginn hefur manninum, sem setið hefur í Hvíta húsinu s.l. átta ár (þar sem Al Gore átti að ráða húsum, ef allt hefði verið með felldu), tekist að sannfæra almenningsálitið vítt og breitt um heimsbyggðina um, að lýðveldið, sem átti að frelsa heiminn, sé orðið hættulegt sjálfu sér og afganginum af heimsbyggðinni.

Að drottna yfir heiminum.

Það sætir auðvitað meira háttar tíðindum, að fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, sem ber persónulega ábyrgð á því, að George W. Bush komst til valda, skuli undir lok valdatíma Bush senda frá sér bók, þar sem hann lætur sér ekki nægja að gagnrýna stefnu Bush (þó nú væri), heldur gengur svo langt að segja, að stjórnarhættir undir Bush brjóti beinlínis í bága við stjórnarskrána í veigamiklum atriðum, og að sjálfu lýðræðinu stafi hætta af forsetanum og hinni pólitísku valdstreituvél republíkanaflokksins.

Hin sögulega fyrirmynd, að mati Gore, er fall rómverska lýðveldisins. Þegar Júlíus Sesar rauf bann Senatsins við því, að yfirmaður rómverska hersins kæmi inn fyrir borgarmúra Rómar – nema því aðeins, að hann léti af herstjórninni – innsiglaði hann endalok lýðveldisins. Þar með hvarf “lýðræðið” af yfirborði jarðar næstu sautján aldirnar eða svo.

Með viðbrögðum sínum við árásinni á tvíburaturnana í New York ellefta september, 2001 hefur George W. Bush kerfisbundið grafið undan burðarstoðum lýðveldisins (þrískiptingu valdsins og opinni þjóðfélagsumræðu). Með því að lýsa yfir viðvarandi styrjaldarástandi hefur forsetinn, sem yfirmaður heraflans, tekið sér vald langt umfram það, sem stjórnarskráin heimilar. Hann hefur afnumið stjórnarskrárvarin mannréttindi með einu pennastriki. Hann hefur smám saman innleitt aðferðir lögregluríkisins (t.d. fangelsanir án dóms og laga og pyntingar á stríðsföngum, svo fátt eitt sé nefnt) og réttlætir það allt með nauðsyn þjóðaröryggis. Gagnrýnisraddir, hvort heldur er á þingi eða í fjölmiðlum, eru miskunnarlaust þaggaðar niður með ásökunum um skort á þjóðhollustu eða sakargiftum um að ganga erinda óvina ríkisins. Stjórnarfarið einkennist af pólitísku ofsóknarbrjálæði, eins og á dögum Macarthyismans og á seinustu dögum Nixonstjórnarinnar. Forsetinn og pólitískir varðhundar hans sjá óvini í hverju horni. Höfuðáhersla er lögð á leynd upplýsinga. Skýrslur fást ekki birtar. Pólitískir varðhundar ritskoða allar upplýsingar, sem frá stjórnarstofnunum koma. M.a.s. vísindamenn í þjónustu stjórnvalda þurfa að þola ritskoðun pólitískra spunameistara. Andrúmsloftið í stjórnkerfinu einkennist af ótta, tortryggni og ofsóknum. Og þjóðfélagið dregur dám af því. Al Gore lýsir Ameríku undir stjórn Bush sem “landi óttans”.

En hvernig stendur á því, að stjórnarandstaðan og fjölmiðlarnir brugðust, a.m.k. allt þar til republíkanar misstu þingmeirihlutann í þingkosningunum 2006, og mönnum fór smám saman að verða ljóst, að stefna frjálshyggjuhaukanna í Hvíta húsinu og í Pentagon hafði leitt Bandaríkin út í hreinar ógöngur? Gore svarar því með því að benda á, að sjálft ónæmiskerfi lýðræðisins – opinská og gagnrýnin þjóðfélagsumræða með almennri þátttöku upplýsts almennings – hafi á undanförnum árum veikst svo mjög, að virku lýðræði sé vart hugað líf að óbreyttu. Hann segir fullum fetum, að þorri þingmanna sé svo upptekinn við að afla fjár hjá útgerðaraðilum sínum, að þeir hafi ekki tíma aflögu til mikils annars, eða að þeir séu ófrjálsir að skoðunum sínum.

Andlegt skyndibitafæði.

Hann bendir á, að sjónvarpið er eini miðillinn, sem nær augum og eyrum almennings í Bushlandi (Bushland er meginland Ameríku og hið djúpa Suður, að fráskildum stórborgum austur- og vesturstrandarinnar, þar sem vitibornir prentmiðlar þrífast enn, þótt þeir nái til fárra). Þar í landi ver meðaljóninn fjórum og hálfum klukkutíma á degi hverjum fyrir framan sjónvarpsskjáinn. Það eru tveir þriðju hlutar af frítíma hans utan vinnu. Þessar sjónvarpsstöðvar eru í eigu og undir stjórn örfárra auðhringa. Sjónvarpsefnið, þar með taldar fréttir, er við það miðað að afla auglýsingatekna. Þetta andlega fóður er svipað að gæðum og skyndabitaruslið, sem selt er á McDonalds. Umfjöllun um stjórnmál birtist í þrjátíu sekúndna auglýsingum, þar sem gagnrýnendum Bush er lýst sem guðleysingjum, óþjóðhollum leiksoppum hryðjuverkamanna eða annarra óvina ríkisins. Upplýst umræða? Gagnrýnin skoðun? Virkt aðhald að stjórnvöldum? – Gleymdu því.

Þótt kosningavél repúblíkana njóti rausnarlegs stuðnings “big oil and big tobacco”, (les: vígbúnaðar – olíu – og orkuiðnaðarins, ásamt lyfja- og tryggingarisum), mundi það eitt út af fyrir sig ekki duga til að tryggja þeim meirihluta. Það þarf meira til. Það þarf blessun Guðs. Það er hið þéttriðna net ótal þaulskipulagðra trúfélaga, sem komu trúbróður sínum í Hvíta húsið. Guð er ekki bara amerískur – hann er repúblíkani. Kristna bandalagið að baki Bush er andlega skylt samtökum öfgatrúfélaga í Ísrael (Likud), og meðal Múhameðstrúarmanna og Hindúa. Þegar saman fer trúarofstæki og þjóðremba – þá er fjandinn laus (afsakið orðbragðið) . Bókstafstrúarmenn allra trúarbragða eiga það sameiginlegt, að þeir lifa í trúarvissu, þar sem efi um eigið ágæti og gagnrýnin hugsun um rétt og rangt, á ekkert erindi. Í slíku samfélagi fær ekkert lýðræði þrifist. Þar þekkist heldur ekkert umburðarlyndi gagnvart mannlegum breyskleika. Og engin virðing fyrir skoðunum annarra.

Hinir kristnu boða krossferð (crusade) gegn hinu illa – synir Múhameðs boða heilagt stríð – Jihad – gegn hinum trúlausu. Sér um líkir sækjast þeir. Þetta vandamál vill vefjast nokkuð fyrir Al Gore. Hann kveðst sjálfur vera trúaður og á því bágt með að samþykkja inngöngu Guðs í repúblíkanaflokkinn. Hann reynir því að skýra hin herfilegu mistök frjálshyggjuhaukanna í Írakstríðinu eingöngu með vísan til hugmyndafræðilegrar blindu nýfrjálshyggjunnar. Hann vill helst ekki trúa því, að trúarofstækið blindi þeim sýn. Þetta er sá kafli bókar Gore , sem er síst sannfærandi. Og svo lengi sem demókratar taka ekki upp harða gagnrýni á kerfisbundna misnotkun repúblíkana á trúhneigð og ættjarðarást mannskepnunnar, er hætt við að þeir standi höllum fæti í baráttunni um “hug og hjörtu” sjónvarpsglápenda í Bushlandi.

“Áfram kristmenn, krossmenn…”

Hryðjuverkastríð Bush og félaga er komið út í hreinar ógöngur, hvort heldur er í Afganistan eða Írak. Blindur stuðningur Bush við ofstækisöflin í Ísrael, sem eru að ganga af palestínsku þjóðinni dauðri í ásýnd alþjóðasamfélagsins, er stöðugur fleinn í holdi eðlilegra samskipta vestrænna ríkja við Arabaheiminn. Stefna Bush í utanríkismálum flokkast nú orðið víðast hvar undir stórslys. Svipaða sögu er að segja af heimavígstöðvunum. Þeir, sem bandarískir kjósendur fela að taka við pólitísku þrotabúi Bushstjórnarinnar, eru ekki öfundsverðir af sínu hlutskipti. Á tveimur kjörtímabilum hefur Bush vísvitandi rústað fjárhag ríkisins og bundið svo um hnútana, að Hillary og Obama verða að byrja á því að hækka skatta til að endurreisa fjárhag ríkisins. Kínverskir kommúnistar, sem hafa fjármagnað hallarekstur Bandaríkjanna með kaupum á ríkisskuldabréfum, munu sennilega ráða meiru um stöðu dollarans en seðlabankastjórinn bandaríski.

Átta ára valdaferill Bush hefur þegar reynst bandarísku þjóðinni, og reyndar jarðarbúum öllum, dýrt spaug. Margir virðast binda vonir við það, að valdaferill Bush sé senn á enda og að demókrötum muni takast að bæta fyrir áorðin mistök og að endurreisa álit Bandaríkjanna með öðrum þjóðum. En það er einmitt í þessum punkti, sem ádeilurit Al Gore veldur lesandanum mestum vonbrigðum. Það er satt að segja fátt um fína drætti, þegar kemur að tillögugerð um lausnir á kreppu hins bandaríska lýðræðis. Bush er þessi misserin fyrst og fremst að gjalda afleiðinga eigin heimsku og mistaka, fremur en að demókrataflokkurinn, eða foringjar hans (Hillary, Obama og John Edwards) hafi byggt upp trúverðugan valkost um frjálslynda umbótastefnu eða sigursælt bandalag andstæðinga hinna kristilegu afturhaldsafla í Bandaríkjunum. Mun Hillary þora að ganga í berhögg við fjármálavald Gyðinga í heimafylki hennar í New York til þess að halda aftur af öfgaöflunum í Ísrael í því skyni, að Palestínumenn nái aftur lands- og mannréttindum sínum? Gleymdu því. Mun konan, sem klúðraði kosningaloforði Bills Clinton um almannatryggingar handa almenningi í Bandaríkjunum, bæta fyrir þau mistök, nái hún sjálf húsbóndavaldi í Hvíta húsinu? Trúum því varlega.

Eftir stendur svo að lokum ein áleitin spurning fyrir smáþjóð, sem enn í dag er að finna á listanum yfir bandarísk leppríki í krossferðinni í Írak; og er enn í varnarbandalagi við heimsveldið: Hversu lengi getur vopnlaus smáþjóð, sem á líf sitt og þjóðarhagsmuni undir því komið, að alþjóðasamfélagið virði lög og rétt í samskiptum þjóða, haldið sig í slíkum félagsskap?