ÚR FELUM

Geimvera, sem fengi það óöfundsverða hlutverk að fylgjast með borgarstjórnarkosningum í Reykjavík vorið 2006 og að senda skýrslu til geimkynnis síns, mundi trúlega eiga bágt með að fatta fídusinn í sjónarspilinu. Geimveran mundi álykta sem svo, að ritstjóri Morgunblaðsins væri fylgismaður Fidels Castro í heilögu stríði gegn fákeppnisklíku auðvaldsins. Og að nánustu bandamenn hans væri að finna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, undir forystu velviljaðs öldungs að nafni Vilhjálmur. Geimveran sæi í hendi sér, að þessi góði flokkur mætti ekkert aumt sjá og æli einkum önn fyrir börnum, konum, öldruðum og öryrkjum. Þetta bágstadda fólk ætti hins vegar undir högg að sækja hjá atvinnumiðlun Framsóknarflokksins ehf. , sem hefði lagt undir sig Heilbrigðisráðuneytið til þess að herja þaðan á varnarlaust fólk. Áróðursbæklingar Sjálfstæðisflokksins, leiknar sjónvarpsauglýsingar og annað kruðerí, litverpt úr bláu í bleikt, mundi styrkja geimveruna í þessum söguskilningi.

Höfundur velferðarríkisins.

Allar efasemdir hefðu svo horfið úr huga geimverunnar við að heyra Kjartan Gunnarsson, fjárfesti, (sem stýrði Sjálfstæðisflokknum og Landsbankanum um skeið í aukavinnu) upplýsa almenning um það í útvarpsþætti í vikulokin, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fundið upp velferðarríkið.

Þar með hefði geimveran slegið því föstu, að Sjálfstæðisflokkurinn væri heiðursfélagi í Alþjóðasambandi jafnaðarmanna, ef ekki beinlínis arftakaflokkur kommúnistaflokksins sálaða. Ef einhver hefði álpast til að nefna að fyrra bragði Hannes Hólmstein og frjálshyggjufélagið í hirð Davíðs á nafn, hefði sá hinn sami verið fullvissaður um, að Hannes væri núorðið sauðmeinlaus, enda lagstur í ferðalög og bókmenntagrúsk. Enda væru allar stríðsyfirlýsingar hægri sinnaðra hugsjónarmanna gegn velferðarríkinu horfnar af heimasíðum þeirra – fyrir kosningar.Og ránfuglsmerkið? Bara upstoppaðar fornmenjar og stofustáss. Hafið engar áhyggjur. Þjóð sem er svo lukkuleg að eiga svona góðgerðafélag eins og Sjálfstæðisflokkinn fyrir þjóðarflokk, þarf áreiðanlega ekki á neinum jafnaðarmannaflokki að halda – eða hvað?

Velferðarríkið og óvinir þess.

En hefði geimveran mátt vera að því að sitja ársfund Seðlabankans, hefði hún fengið að heyra meira. Þar hefði hún t.d. heyrt Seðlabankastjórann (fyrrverandi formann Góðgerðarfélagsins) skeyta skapi sínu á fyrrverandi félögum sínum í ríkisstjórn – einkum þó arftaka sínum á formannsstóli og fyrrverandi fjármálaráherra, Geir Haarde – fyrir að hafa brugðist í baráttunni við verðbólguna. Og fyrir að hafa skilið sig einan eftir á verðbólguvaktinni. Verðbólgan mælist nú hvorki meira né minna en 16% á þriggja mánaða tímabili. Hin skulduga þjóð horfir hnípin á höfuðstól skuldanna bólgna út, vaxtabyrðina þyngjast og kaupmáttinn hríðfalla. Hinir skuldugu vita, að veislunni er lokið og að reikningarnir eru komnir í innheimtu. Ástæðan er ekki illmennska heldur ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum, að sögn Seðlabankastjórans. Á útlensku heitir þetta “incompetence” – en á íslensku fúsk. Afleiðingarnar eru hinar sömu, hverjar svo sem nafngiftirnar eru. Það er komið að skuldadögum. Og það eru kjósendur sem borga brúsann.

Skattar og skerðingar.

Kannski geimveran hefði mátt vera að því að slást í hópinn í Háskólabíói, þar sem fulltrúar þrettán þúsunda aðstandenda aldraðra heyrðu Dr. Stefán Ólafsson, prófessor, afhjúpa blekkinguna um hið meinta Góðgerðafélag. Undir forystu fjármálaráðherra Góðgerðafélagsins, Geirs Haarde, hefur ójöfnuður vaxið sem aldrei fyrr í íslensku samfélagi. Hinir ríku hafa orðið ríkari, en hinir fátæku eru að verða fátækari. Þetta hefur sem betur fer ekki farið fram hjá lesendum Morgunblaðisins, þökk sér ritstjóra þess. Allt er þetta í anda Bush og Reagans, sem fjármálaráðherrann fyrrverandi er sagður hafa í hávegum. Geir hinn harði hefur létt skattbyrði hinna ríku, en þyngt hana á öllum hinum, og mest á þeim, sem minnst bera úr býtum. Þetta eru staðreyndir, sem ráðherrum og hjálparkokkum þeirra hefur ekki tekist að hrekja, þrátt fyrir ærna tilburði.
Með skattastefnu sinni og tekjutengingu lífeyrisgreiðslna, mitt í góðærinu, hefur fjármálaráðherrann tekið til baka í ríkissjóð með hægri hendinni það sem lífeyristryggingakerfið hefur greitt öldruðum með vinstri hendinni. Seðlabankastjórinn lofsyngur íslensku lífeyrissjóðina og segir þá vera hina öflugustu í heimi. Það er nokkuð til í því, þökk sé verkalýðshreyfingunni. En með sköttum sínum og skerðingum hefur fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins komið í veg fyrir, að ellilífeyrisþegar fái notið þessa skyldusparnaðar að lokinni starfsævi. Skyldusparnaðurinn er að verulegu leyti gerður upptækur í ríkissjóð. Með þessari stefnu eru fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins að grafa undan trausti almennings á velferðarríkinu. Þetta er eftiröpun á aðför bandarískra hægrimanna undir forystu Bush að velferðarríkinu. Þeir fylgja honum ekki bara í löglausu ofbeldi í Írak. Þeir herma eftir honum í heimastjórninni líka. Enda komst enska vikuritið The Economist að þeirri niðurstöðu, að hagstjórnarmistök Íslendinga væru af sama toga og hjá Bush – ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum, botnlaus viðskiptahalli og hraðvaxandi ójöfnuður – og myndu enda með ósköpum – þar líkt og hér.

Að kvitta fyrir með kjörseðli.

Kosningabarátta, sem er rekin af ímyndarumbum og förðunarmeisturum, mun seint kveikja ástríður í brjóstum fólks. Enda er tilgangurinn sá að svíkja bæði mál og vog ærlegra skoðanaskipta og að hylja veruleikann í værðarvoðum og felulitum. Eins og t.d. þeim, að Sjálfstæðisflokkurinn, þessi gamli fyrirgreiðsluflokkur sérhagsmunahópa, sé einhvers konar sambland af Rauða krossinum og Thorvaldsensbasarnum. Gott ef Móðir Theresa er ekki gengin í flokkinn, fyrir kosningar. En eldri borgarar þessa lands og aðstandendur þeirra, þeir sem fylltu Háskólabíó og hafa nú stofnað félagsskap til að halda hlífiskildi yfir öfum og ömmum þessa lands, sem sætt hafa skeytingarleysi og vanvirðu af hálfu fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, vita betur.
Kvenþjóðin veit líka, hverjir hafa rétt hlut kvenna í stjórnsýslustörfum og hverjir hækkuðu laun umönnunarstétta, þegar á reyndi. Það gerði borgarstjórn Reykjavíkur undir stjórn Reykjavíkurlistans. Þetta eru afgerandi stórmál, sem skilgreina afstöðu manna í pólitík, þegar á reynir, ekki bara í orði – heldur í verki. Og er nú rétt að muna frýjunarorð Einars Odds um aðför að stöðugleikanum af þessu tilefni og yfirlýsingu Mathiesens, fjármálaráðherra, um að kjör umönnunarstétta kæmu honum ekki við. Kjörseðlar eru kvittanir. Fyrir þetta þarf að kvitta.

Hugsjónir og hæfileikar.

Og eitt enn: Fyrir ungu kynslóðina í Reykjavík er valið í þessum kosningum auðvelt. Það er kosið um, hver skuli gegna embætti borgarstjóra Reykvíkinga. Þetta er valdamikið djobb. Valið stendur milli tveggja einstaklinga: Fulltrúa hins gamla fyrirgreiðsluflokks sérhagsmunanna annars vegar og leiðtogaefnis nýrrar kynslóðar jafnaðarmanna á Íslandi hins vegar. Það gengur ekki upp að kvarta undan því að hæfileikamenn fáist ekki til að gefa kost á sér í pólitík, en láta svo tækifærið sér úr greipum ganga, loksins þegar það gefst til að kjósa slíkan mann. Dagur Eggertsson hefur það til að bera, sem mestu varðar í fari stjórnmálamanna: Hugsjónir og hæfileika. Kjör hans í embætti borgarstjóra gæti orðið merkisviðburður í hinu pólitíska almanaki. Hugsum um það.

P.s. Í Staksteini sínum í dag, 21. maí, vænir ritstjóri Mbl. Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, um að vera “mafiós”, þ.e.a.s. spilltur stjórnmálamaður. Ritstjórinn tekur það fram, að Alfreð hafi alltaf dreymt um að starfa með Sjálfstæðisflokknum í spillingunni, en hann hafi “neyðst til að vinna með vinstri mönnum í 12 ár.” Þetta eru hlýlegar kveðjur til samstarfsflokksins í ríkisstjórn og þýðingarmikil skilaboð til kjósenda, sem þeir ættu ekki að láta fram hjá sér fara. – JBH