Í MINNINGU GALBRAITHS. ÖRBIRGÐIN Í ALLSNÆGTUNUM

Allsnægtaþjóðfélagið (“The Affluent Society”) eftir John Kenneth Galbraith kom út árið 1958. Þar með hafði kvatt sér hljóðs maður, sem átti eftir að hafa mótandi áhrif á skoðanir margra af minni kynslóð um margt af því, sem mestu máli skipti í samtímanum. Galbraith var skarpskyggn hagfræðingur, heillandi rithöfundur og vel innrættur jafnaðarmaður – allt í sömu persónunni. Hann var sérfræðingur í að afhjúpa innistæðuleysi venjuviskunnar –“ the conventional wisdom” – en það er hugtak, sem hann átti höfundarréttinn að. Hann lést 29. apríl s.l., 97 ára að aldri. Með honum er horfinn af sjónarsviðinu einn áhrifaríkasti fulltrúi hinnar frjálslyndu Ameríku, sem afgangurinn af heiminum batt vonir við. Þess vegna er vert að minnast hans með nokkrum vel völdum orðum.

Allsnægtir og örbirgð.

Áhrifamesta bók hans, Allsnægtaþjóðfélagið, kom út árið sem ég lauk stúdentsprófi, en ég komst fyrst í tæri við hana nokkrum árum seinna, á námsárunum í Edinborg. Þessi bók opnaði heilli kynslóð nýja sýn á grundvallarþversögn amerísks kapitalisma. Þessi þversögn birtist okkur í einkaveröld allsnægtanna mitt í niðurníðslu almannaþjónustu. Hann festi þessa þjóðfélagsmynd í hugskoti lesenda sinna með orðtakinu: “Private affluence amid public squalor”. Þessi mynd er ekki síður raunsönn lýsing á amerísku þjóðfélagi í dag en hún var fyrir hálfri öld. Víggirt villuhverfi, lúxusbílar og óhófsneysla en vanræktar almannasamgöngur, niðurnídd fátækrahverfi, engar almannatryggingar, opinbert skólakerfi og heilsugæsla að hruni komið. Fimmtungur barnafjölskyldna undir fátæktarmörkum og lífsgæði undirstéttarinnar, sem minna meira á þriðja heiminn en ríkasta þjóðfélag heims. Þetta hefur ekki breyst til hins betra frá því að Galbraith afhjúpaði sannleikann um ójöfnuð og stéttaskiptingu bandarísks samfélags. Þvert á móti. Það hefur versnað um allan helming. Draumurinn um land tækifæranna hefur snúist upp í andhverfu sína. Bandaríkin eru nú mesta ójafnaðarþjóðfélag meðal þróaðra þjóða í heiminum.

Gerviþarfir vs. almannaþarfir.

Galbraith taldi, að þetta jafnvægisleysi milli hóflausrar einkaneyslu og vanrækslu á fjárfestingum til sameiginlegra þarfa stafaði af því, að ein helsta kennisetning markaðstrúboðsins um að “neytandinn væri konungurinn” og að markaðskerfið snerist um að fullnægja þörfum hans, væri goðsögn sem enginn fótur væri fyrir. Hann beindi athygli manna að sívaxandi samþjöppun eignarhalds í bandarískum stórfyrirtækjum og einokunar- eða fákeppnisstöðu þeirra á helstu mörkuðum. Hann sýndi fram á, að fyrirtækin verja löngum meiri fjármunum, gegnum auglýsingar og markaðssetningu, í að búa til þörf fyrir vörur sínar og þjónustu meðal neytenda. Hinar ímynduðu þarfir halda neysluþjóðfélaginu (hagvextinum ) gangandi. Þessi fullnæging gerviþarfa sniðgengur raunverulegar þarfir almennings um heilsugæslu, gæði menntunar, umönnun barna vegna útivinnandi mæðra, almannasamgöngur, hvað þá heldur verndun óspilltrar náttúru og umhverfis.

Hugsun Galbraiths um efnahagsmál snerist m.o.ö. um samspil almannavaldsins og markaðsaflanna. Hann sýndi ekki einasta fram á takmörk þess, sem gróðasjónarmið markaðsafla gat leyst; heldur einnig, að því fór fjarri, að grundvallarforsenda frjáls markaðskerfis, þ.e. virk samkeppni, væri til staðar, þegar hér var komið sögu. Samþjöppun eignarhalds væri orðin slík, að samkeppnin virkaði ekki án íhlutunar ríkisvaldsins. Ég fæ ekki betur séð en, að sjónarmið, sem ritstjóri þessa blaðs er helsti talsmaður fyrir þessi misserin, séu sótt í smiðju Galbraiths. Alla veg eru þau mjög í hans anda. Þessi grundvallarsjónarmið Galbraiths voru mikill þyrnir í holdi íhaldssamra rétttrúnaðarhagfræðinga á hans tíð. Þeir fundu honum það líka til foráttu, að hann var rithöfundur af guðs náð, sem kunni að gera flókin mál skiljanleg, að minnsta kosti upplýstum leikmönnum, þannig að bækur hans um efnahagsmál urðu metsölubækur hver á fætur annarri. Það þótti ófyrirgefanlegt.

Ríkisvald og markaður.

Þessi óvenjulega sýn Galbraiths á innri gerð og starfshætti hins ameríska kapitalisma mótuðust á stríðsárunum. Hin mikla gróttarkvörn auðsköpunar amerísks kapitalisma hafði, sem kunnugt er, brætt úr sér og lamast á kreppuárunum. Það þurfti atbeina ríkisvaldsins – “New Deal” Roosevelts – til þess að láta hjól atvinnulífsins snúast á ný. Samt var það ekki nóg. Það þurfti heila heimsstyrjöld til. Stríðshagkerfið bandaríska gekk fyrir þörfum hersins, framleiðslan var margfölduð og atvinnuleysi útrýmt. Menn óttuðust óviðráðanlega óðaverðbólgu. Roosevelt gerði Galbraith að verðlagsstjóra Ameríku. Hann skellti á verðlagshömlum og verðlagseftirliti, og varð eiginlega hálfhissa á því sjálfur, að þetta svínvirkaði. Hann uppgötvaði, að það var hægt að halda uppi fullri atvinnu og fullri nýtingu framleiðslugetunnar án verðbólgu. Þetta var að vísu brot á enn einni grundvallarkennisetningu hagfræðinnar. En hver var skýringin? Hún var sú, að sögn Galbraiths, að stórfyrirtækin, með sína ráðandi markaðshlutdeild, voru vön því að ákveða verðið (þar sem samkeppni var engin eða takmörkuð).”Það er tiltölulega auðvelt að ákveða verð, sem þegar hefur verið ákveðið með samráði.” Það sem þurfti til viðbótar var bara umbun eða refsing.

Hagfræði hand auðkýfingum.

Fyrsta bók Galbraiths, sem náði almenningshylli, kom út árið 1952 og hét: “American Capitalism: The Concept of Countervailing Power”. Þar hélt Galbraith því fram, að þar sem virk samkeppni væri að mestu úr sögunni á helstu mörkuðum, yrðu aðrir að taka á sig hlutverk eftirlitsskyldu og aðhalds: Neytendur, stéttarfélög og ríkisvaldið sjálft, sem fulltrúi almannahagsmuna. Það er að vísu lítil von til þess, að stéttarfélög geti gegnt þessu hlutverki í bandarísku þjóðfélagi, þar sem einungis einn af hverjum tíu vinnandi mönnum eru meðlimir verkalýðsfélaga, og handahafar ríkisins telja það sitt helsta hlutverk að lækka skatta á hina ofurríku, á sama tíma og útgjöld til vígbúnaðar eru tvöfölduð.Galbraith sat sig ekki úr færi um að hafa skattastefnu þeirra Reagan og Bush að háði og spotti. Hann sagði, að hugmyndir þeirra um að lækka skatta hinna ofurríku, en skera niður velferðarþjónustu til hinna fátæku, virtust vera byggðar á þeirri hagfræðikenningu, að hinir ríku þyrftu hvatningu til að leggja sig fram í formi meiri peninga, en hætt væri við, að hinir fátæku mundu leggjast í leti, ef þeir fengju meiri peninga. Hann tók sem sé humbúkkið ekki hátíðlega og kunni að beita háðinu, svo að undan sveið. Sjálfur varð ég vitni að því, haustið 1976, þegar þeir leiddu saman hesta sína í “einvígi aldarinnar” við Harvard, Galbraith og Milton Freedman, höfuðpáfi frjálshyggjutrúboðsins.

Endalok lýðræðis?

Galbraith var andlega virkur fram í andlátið. Við upphaf áratugar græðginnar (1990), þegar allir aðrir vegsömuðu gróðafíknina sem drifkraft framfaranna, sendi hann frá sér bókina “A Short History of Financial Euphoria”, þar sem hann rifjaði upp frægar sögur frá fyrri tíð, þar sem græðgin hafði teymt menn á asnaeyrum út í fjárhagsleg kviksyndi. Hálfníræður sendi hann frá sér athyglisverða bók: “The Culture of Contentment” (1992). Sú bók staðfestir ekki einasta gamalkunnar efasemdir höfundar um það, hvert óbeisluð og eftirlitslaus markaðsöfl muni að lokum leiða okkur, heldur hefur bæst við heldur bölsýnisleg greining á endalokum amerísks lýðræðis. Hann bendir á, að um eða yfir helmingur kjósenda í Bandaríkjunum mætirekki á kjörstað. Þar með hafa þeir gefið upp alla von um, að lýðræðið geti lengur þjónað hagsmunum þeirra. Fjármagnið virðist hafa yfirtekið lýðræðið. Eignarhald á fjölmiðlum eru í höndum fáeinna auðhringa, og fjölmiðlum er í vaxandi mæli beitt í þágu þeirra. Frambjóðendur verða nauðugir viljugir að beygja sig undir lögmál fjáröflunar kosningabaráttunnar. Þeir hafa ekki efni á að styggja ráðandi öfl. Þeir eru flestir keyptir menn. Lýðræðið er múlbundið á klafa sérhagsmuna.
Meirihluti kjósenda skiptir ekki lengur máli. Þeir sitja uppi í slömmunum með sína lélegu skóla, sem þýðir að helsta leið þeirra til að losna úr vítahring fátæktarinnar er að bjóða sig fram í herinn, sem býður þeim upp á sérhæfingu og þjálfun og svolitla umbun fyrir að verja hagsmuni auðstéttarinnar í hinu kalda stríði, sem nú geisar um yfirráð yfir auðlindum jarðar.

Flestir höfundar mega sætta sig við, að hugmyndir þeirra reynist skammlífar og standist lítt tímans tönn, ekki síst á byltingarkenndum breytingartímum. Það á ekki við um Galbraith. Hugmyndir hans blíva, af því að þær voru aldrei tískuhugmyndir. Hann hafði andlegt þrek til að standa gegn ríkjandi rétttrúnaði og afhjúpa innihaldsleysi venjuviskunnar. Það var hans höfundarréttur.