HVERJIR ERU ÞESSIR ÍSLENDINGAR?

Hverjir eru þessir Íslendingar, og hvaðan koma þeir? Íslendingar geta státað af því, umfram flestar aðrar þjóðir, að eiga skráðar heimildir um fund landsins og landnám á 9du og 10du öld. Þetta gerist á útþensluskeiði norrænna manna, sem við köllum Víkingaöld, u.þ.b. 800-1190, ef fall Dyflinar sem víkingavirkis árið 1190 er talið tákna lok þess tímabils. Á Víkingaöld leituðu norrænir menn út frá meginlandi Skandínavíu austur og vestur og jafnvel suður á bóginn inn í veröld Miðjarðarhafsins. Sókn þeirra yfir Atlantshafið í áföngum með fundi og landnámi Færeyja, Íslands, Grænlands og loks meginlands Norður-Ameríku um árið 1000, var afrek, sem færði út landamæri hins þekkta heims þeirrar tíðar, hálfu árþúsundi á undan Kólumbusi. Ógrynni heimilda hafa varðveist, þ.á.m. í Íslendingasögum, um samskipti norrænna manna, misjafnlega friðsamleg, og hinna ýmsu ættbálka handan Eystrasalts, sem nú byggja þau lönd, sem við köllum Finnland, Eistland, Lettland og Litháen og inn í Rússland og Úkraínu. Lívónía, Kúrland og Kænugarður eru kunnuglegt sögusvið í Íslendingasögum.

Víkingar sóttu í vesturveg til skosku eyjanna, inn í Skotland og Írland og til Englands og stofnuðu reyndar víkingaríki í Normandí í Frakklandi. Vilhjálmur hinn sigursæli, sem seinustum manna heppnaðist innrás í England árið 1066, var beinn afkomandi Göngu-Hrólfs, stofnanda víkingaríkisins í Normandí. Tæknikunnátta við skipasmíði, sjómennskureynsla og siglingakunnátta tryggði víkingum yfirburði umfram aðra á þeim tíma. Það voru þessir tæknilegu yfirburðir, sem gerðu víkingum kleift að stunda úthafssiglingar á Atlantshafi og brúa þannig bilið milli Evrópu og Ameríku í fyrsta sinn, svo vitað sé.

Landnámsmenn og konur Íslands voru einkum af blönduðum stofni norrænna manna og Kelta. Þeir virðast hafa sameinað skipulagshæfni Norðurlandabúa og skáldgáfu hins keltneska kyns. Þeir stofnuðu sérstakt þjóðfélag á Íslandi, sem blómstraði í 300 ár (930-1262). Landnemarnir stofnuðu fyrsta þjóðþing sögunnar árið 930 á Þingvöllum og kölluðu Alþingi. Alþingi var hvort tveggja löggjafarsamkoma og dómstóll. Landnemarnir reyndu að leysa árekstra og viðhalda friði eftir leiðum réttarríkisins. Engan vildu þeir konung hafa né aðalsmenn og reyndar ekkert miðstýrt framkvæmdavald. Þetta var einstætt þjóðfélagsform á þeim tíma. Það byggði á hugsjóninni um frelsi einstaklingsins, en var jafnframt gegnsýrt jafnaðaranda. Þetta hljómar framúrstefnulegt, jafnvel enn í dag. Þetta þjóðfélag var ekki einasta frjálst og farsælt, heldur lifir hugmyndaheimur þess og gildismat í sígildum bókmenntum, Íslendingasögum og Eddukvæðum, sem teljast til helstu andans afreka Miðalda. Þessar bókmenntir, sem voru skráðar á hinu forna máli víkinganna, eru sameiginleg uppspretta norrænnar menningar.

En land elds og ísa er hættulegt land að lifa í. Ísland er á einu virkasta eldfjallasvæði jarðar. Viðkvæmur jarðvegur lands undir heimskautsbaugi á í stöðugu stríði við eyðingarölf eldgosa og ofbeitar. Loftslagsbreytingar, hin svokallaða litla ísöld (1400-1880), náttúruhamfarir og sjúkdómsfaraldrar, ásamt með glötuðu sjálfstæði, fyrst í hendur Noregskonunga og síðar Dana, knúði þjóðina því sem næst á ystu nöf útrýmingar á 19du öld, þegar fjórðungur þeirra, sem höfðu lifað af, gáfu upp alla von og flúðu til Norður-Ameríku.

Íslendingar hófu vegferð sína á 20stu öld sem einhver fátækasta þjóð Evrópu. En þeir voru ekki einasta örsnauðir, heldur spáðu fáir þeim farheilla. Við lok 20stu aldar eru Íslendingar taldir í hópi tíu ríkustu þjóða heims. 20sta öldin hefur því reynst Íslendingum, öfugt við margar aðrar þjóðir, bæði gjöful og eftirlát. Kannski er forsjónin að bæta þeim upp sjö alda harmkvæli. Hvað gerðist? Íslendingar áunnu sér heimastjórn frá Dönum árið 1904 og fullt sjálfstæði árið 1918, þótt þeir héldu áfram konungssambandi við Danmörku, uns lýðveldið var stofnað 1944. Um leið og Íslendingar gátu ráðið eigin málum sjálfir, reyndust þeir fljótir að taka upp nýja tækni og að beita henni við nýtingu náttúruauðlindanna: Hinna auðugu fiskimiða umhverfis landið og hinnar hreinu og endurnýjanlegu orku, sem fólgin er í fossum landsins og í iðrum jarðar. Hið íslenska efnahagsundur á 20stu öld, þegar þjóðin reis frá örbirgð til allsnægta, hefur forsagnargildi fyrir aðrar smáþjóðir, sem nú hafa nýlega velt af sér oki erlendra yfirráða og lagt upp í langferð í átt til sjálfbærrar efnahagsþróunar. Sem eitt hinna fimm norrænu velferðarríkja er Ísland reiðubúið að leggja fram sinn skerf til að rækta og styrkja samstarf Norðurlanda og Eystrasaltþjóða og sameiginlegan framgang þeirra á 21stu öldinni. Sameiginlega getum við náð miklum árangri og um leið gefið öðrum verðugt fordæmi.

Þegar Íslendingar eru spurðir, hvers vegna þeir hafi sýnt svo lifandi áhuga á baráttu Eystrasaltsþjóða fyrir endurreisn sjálfstæðis, og hvers vegna Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna endurreisn sjálfstæðis þeirra, fær maður gjarnan svar eitthvað á þessa leið: Við eigum sameiginlega sögu. Á grundvelli hennar vonumst við til að eiga sameiginlega framtíð.