LENNART MERI, FYRRVERANDI FORSETI EISTLANDS

Af öllum þessum mönnum, sem voru í fararbroddi sjálfstæðishreyfinga Mið- og Austur Evrópu á árunum 1988 fram að falli Ráðstjórnarríkjanna 1991 og ég kynntist á þessum árum, skera þrír sig úr. Lennart Meri frá Eistlandi, Vytautas Landsbergis frá Litháen og Vaclav Havel frá Tékkóslóvakíu. Auðvitað ber að geta rafvirkjans frá Gdansk, Walensa, en honum kynntist ég aldrei. En þessi þrír, sem ég gat í upphafi, voru allir listamenn. Enginn þeirra hefði náð frama í pólitík undir venjulegum kringumstæðum. Til þess voru þeir allir of óvenjulegir. Þeir voru listamenn, sem kerfið skildi að voru hættulegir af því að menning þjóða þeirra var þeim runnin í merg og bein. Kerfið skildi, að ef það tækist að uppræta þá – einangra þá og drepa andlega – þá væri ekkert eftir.

Allir gegndu þeir lykilhlutverki, þegar mest á reið. Þjóðir þeirra fundu í sínu innsta eðli, að þeim væri treystandi fyrir sjálfu fjöregginu: Sameiginlegri menningu og reynslu þjóða í ánauð. Það var von til þess, að fulltrúar annarra þjóða, sem hittu þessa menn, augliti til auglitis, gætu skilið, að það var barist fyrir einhverju, sem skipti máli; tungumáli, sögu, reynslu, í einu orði sagt – menningu – sem heimurinn stæði snauðari eftir, ef hún færi forgörðum. Það er framlag listamannsins til lífsins. Þeir voru kjörnir til að berjast fyrir lífi þjóða sinna, af því að þeir skildu hvað það er, sem gefur lífinu gildi. Réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Hvers frekar geta menn óskað sér af örlagadísunum?

Einn þessara örlagavalda samtímans er fallinn í valinn: Lennart Meri, fyrrverandi forseti Eistlands (1992-2000). Hver var hann? Fyrrverandi fangi í hinum sovéska gúlaki, fyrrverandi skógarhöggsmaður og raftakýlir á fljótum Síberíu.Og talaði mál Puskins betur en flestir Rússar. Hann þýddi bókmenntir þeirra um þjáningarþol mannsandans á tungu Eista, til að halda móðurmáli sínu lifandi eftir að það hafði verið dæmt til dauða – af Rússum. Hann var kvikmyndagerðarmaður um örlög týndra þjóða í frera Gúlagsins. Hann er höfundur hins “Hvíta silfurs”, sögu meira en þúsund ára baráttu Eista og annarra Eystrasaltsþjóða fyrir frelsi sínu og tilverurétti, sem ritskoðurum kerfisins tókst ekki að hindra að seitlaði út í gegnum sprungur virkisveggjanna. og var lesin á laun við arinelda skógarlandsins í rökkri síðkvölda. Það voru þessir lesendur, sem tóku höndum saman og mynduðu mannlega keðju frá Tallinn í norðri til Vilnu í suðri, og sungu um frelsið. Af því að frelsisglóðin hafði aldrei kulnað. Menn eins og Lennart Meri og Vitautas Landsbergis gættu eldsins og blésu í glæðurnar. Og skilaboðin bárust út með hraða ljóssins og hittu fólkið í hjartastað, af því að þessir menn og margir aðrir, síður nafnkunnir, gáfust aldrei upp. Menn af þessu tagi, sem berjast fyrir háleitari markmiðum en eigin frama – fyrir lífi þjóða sinna – gefast aldrei upp. Þeir sem helst þurfa að læra þessa lexíu sitja ekki lengur bara í Moskvu, heldur hafa líka hreiðrað um sig í Washington D.C. Menn eru seint útskrifaðir úr hinum harða skóla sögunnar.

Menn koma og fara. En Lennart Meri er einn hinna fáu útvöldu, sem þjáðist meðal hinna þjáðu, en sótti í þá lífsreynslu styrk til að rísa upp, þegar böðlarnir linuðu tökin og til að leysa hlekki meðbræðra sinna og systra, þegar dagur lausnarinnar loksins reis. Það leikur ljómi um nafn hans. Það voru forréttindi að fá að kynnast honum og læra af honum.