ALÞÝÐUFLOKKURINN 90 ÁRA

Nú þekkist sú skoðun og þykir fín, að þær þjóðir einar, sem gefa fjármagnseigendum lausan tauminn,geti spjarað síg í hinu hnattræna hagvaxtarkapphlaupi. Það megi ekki íþyngja þeim um of með afskiptasemi og sköttum, því að þeir kunni að fyrtast við og fara. Þar með væri hagvöxturinn í hættu og um leið atvinna og afkoma almennings. Þeim þjóðum gangi hins vegar allt í haginn, sem dansa eftir töfraflautu fjármagnsins, lækka skatta, einkavæða ríkisfyrirtæki og þjónustu og láta af óþarfa afskiptasemi og eftirliti.
Það fylgir sögunni, að það sé engra annarra kosta völ. “Take it or leave it”, eins og þeir segja á máli villta vestursins.

1.
Þannig hljóðar í stuttu máli erkibiskupsboðskapur nýfrjáls-hyggjunnar, sem stundum er kenndur við höfuðstöðvar hennar og kallast þá “Washington – vizkan”. Boðskapurinn er einatt settur fram, eins og hann væri óumdeild niðurstaða vísindalegra rannsókna. Samt er hann boðaður af ákefð heittrúarmannsins. Þetta trúboð hefur tröllriðið heimsbyggðinni s.l. tvo áratugi. Hinum trúuðu er heitið sæluvist þegar í þessu lífi, en efasemdarmönnum er hótað hörðu í hagvaxtarlausum heimi.

Samkvæmt kenningunni er hið norræna velferðarþjóðfélag – reyndar velferðarríkið evrópska – á villigötum og mun ekki standast mikið lengur í hinum harða heimi, þar sem þjóðríkin verða að keppa hvert við annað um hylli fjármagnsins. Ávöxtur hundrað ára þrotlausrar pólitískrar baráttu jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingar fyrir félagslegu réttlæti er þar með veginn og léttvægur fundinn. Dagar velferðarríkisins eru sagðir taldir. Hinn vesturheimski kapitalismi græðginnar fer óstöðvandi sigurför um heiminn.

2.
Er eitthvað nýtt í þessu? Höfum við kannski heyrt þetta áður? Skyldi þeim bregða í brún, brautryðjendunum, sem stofnuðu Alþýðuflokkinn og Alþýðusambandið í Bárubúð – steinsnar héðan frá fyrir 90 árum – ef þeir mættu nema erkibiskupsboðskap – þar sem þeir nú sitja á friðarstóli á æðra tilverustigi? Ég held ekki. Ég held þetta mundi hljóma kunnuglega í eyrum þeirra; jafnvel eins og gamlar lummur.
Jafnaðarmannaflokkar Evrópu – með verkalýsðhreyfinguna að bakhjarli – urðu til sem mannréttindahreyfing fátæks fólks í baráttu við ofurvald auðs, sem safnast hafði á fáar hendur. Þessi mannréttindahreyfing hafnaði valdbeitingu. Hún beitti samtakamætti sínum og sannfæringakrafti, samkvæmt leikreglum lýðræðisins, í því skyni að jafna lífskjörin og að tryggja öllum, án tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu, jöfn tækifæri til að þroska hæfileika sína og til að lifa mannsæmandi lífi, frjáls undan oki fátæktar og réttleysis. Þessi einföldu orð – jöfn tækifæri allra til þroska án tillits til efnahags og þjóðfélagsstöðu – rúma vel kjarnann í lífsskoðun okkar jafnaðarmanna. Þessi lífsskoðun byggir ekki á hagfræðilegum hindurvitnum heldur á þeirri siðfræði fjallræðumannsins, sem kenndi: “Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.”

Sjálfsagt mál, ekki satt, segir samtíminn við sjálfan sig. En er þetta endilega sjálfsagt mál í dag fyrir þann helming jarðarbúa, sem sveltur heilu og hálfu hungri og eygir enga von um betra líf fyrir börn sín og barnabörn, þrátt fyrir töfratækni og ofgnótt fjármagns, sem að bestu manna yfirsýn dugir vel til að útrýma fátækt í heiminum, á æviskeiði einnar kynslóðar?
Þóttu þessar einföldu kröfur sjálfsagt mál, þegar brautryðjendurnir, sem við minnumst í dag, þrykktu þær fyrst á kröfuspjöld til að bera fram 1. maí í augsýn alþjóðar? Þótti það sjálfsagt mál að stéttarfélögin fengju viðurkenndan samningsrétt um kaup og kjör vinnandi fólks? Að togarasjómenn ættu rétt á hvíld frá ofurmannlegum vinnuþrældómi nokkrar stundir á sólarhring; að þeir sem yrðu fyrir slysum eða örorku ættu rétt á afkomutryggingu; að þeir sem misstu vinnuna ættu rétt á atvinnuleysistryggingum; að þjóðfélagið ætti að tryggja öllum aðgang að heilsugæslu og læknishjálp án tillits til efnahags; að skynsamlegt væri að sveitarfélög byðu upp á dagvistun barna til þess að gera mæðrum kleift að leita út á vinnumarkaðinn, þar sem þær skyldu þiggja sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar? Sjálfsögð mál, eða hvað?

Nei – því fór fjarri. Ekkert þessara mála þótti á sinum tíma sjálfsagt mál. Það var tekist á um þau, hvert og eitt, skref fyrir skref. Og viðkvæðið var oftar en ekki, eitt og hið sama: Avinnulífið (þjóðfélagið) hefur ekki efni á þessu. Fyrirtækin kikna undan þessum byrðum. Við verðum ekki samkeppnisfær á erlendum mörkuðum með þessu móti. Ef greiðslugetu atvinnuveganna er ofgert, blasir atvinnuleysi við.
Sannleikurinn er sá, að ef þetta viðkvæði hefði verið satt, í hvert sinn sem það var kveðið, værum við fyrir löngu komin á hausinn, fyrirtækin, atvinnulífið, þjóðfélagið og allt heila galleríið. En það vill svo til, að við fengum það vottað um daginn, að við værum sjötta ríksta þjóð í heimi, – þrátt fyrir allt. (Við vorum það alla vega í fyrradag, hvað svo sem verður á morgun).

3.
Getur verið, að það kveði við falskan tón, nú þegar frjálshyggjukórinn kyrjar útfararsönginn um velferðarríkið, sem skv. ritualinu á að vera að þrotum komið? Eða hvað er að frétta af hinu norræna velferðarþjóðfélagi með sitt öfluga ríkisvald, tiltölulega háa skatta, víðtækar almannatryggingar og skylduaðild að lífeyrissjóðum, með ríkisrekna skóla og opinberar fjárfestingar í innviðum samfélags á öllum sviðum? Er það ekki fyrir löngu komið á vonarvöl? Er ekki fjármagnið flúið? Hagvöxturinn þrotinn? Nýsköpunarglóðin kulnuð? Og hvað með framtak einstaklingsins, sköpunarkraftinn og frumkvöðulsandann? Hefur þetta ekki allt saman kafnað undan fargi reglugerðafársins? Sér nokkurs staðar fyrir endann á biðröðum atvinnuleysingjanna?

Á seinni árum hafa sprottið upp ótal stofnanir, sem sýsla við það að láta þjóðir heims gangast undir eins konar samræmd próf í keppnisgreinum hnattvæðingarinnar. Hverjar eru keppnisgreinarnar? Þær eru hagvöxtur og hagsæld (VLL pr. mann); menntunarstig þjóða (t.d. hlutfall háskólamenntaðra karla og kvenna af viðeigandi aldursárgöngum); framlög ríkis og fyrirtækja til rannsókna og þróunar; nýsköpunarkraftur og hagnýting nýrrar tækni í framleiðsluferlum og þjónustu; aðtvinnuþátttaka karla og kvenna og sköpun nýrra starfa; frumkvöðlaandi og fjölgun nýrra hátæknifyrirtækja; viðskiptafrelsi og samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum; heilsa og vinnuvilji; lífslíkur og lífsgleði.

Einstaka prófdómarar skyggnast undir yfirborðið og bregða mælistiku á skiptingu auðs og tekna. Til hvers er hagvöxtur, ef hann fellur aðeins fáum í skaut? Þess vegna er það partur af frammistöðumatinu að mæla t.d. fátækt barna og barnafjölskyldna eða tíðni glæpa og fjölda þeirra, sem sitja í fangelsum, svo að samborgurunum stafi ekki af þeim hætta. Þá kemur t.d. í ljós, að þótt höfuðvígi heimskapitalismans, Bandaríkin, skori dável í hagvexti og nýsköpun er árangurinn öllu lakari, þegar kemur að nýtingu mannauðsins, sem er helsta auðlind þekkingarþjóð-félagsins.

Bandaríkin, sem eitt sinn voru hið fyrirheitna land tækifæranna, eru nú orðin meira ójafnaðarríki en hin gömlu evrópsku konungsríki, sem vesturfararnir flúðu á sínum tíma. Um 1% þjóðarinnar, hinir ofurríku, eiga helming þjóðarauðsins. Eitt af hverjum fjórum til fimm börnum lifir undir fátæktarmörkum. Á Norðurlöndum telst eitt af hverjum tuttugu börnum búa við slíka fátækt, sem þykir smánarblettur á þjóðfélaginu. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir m.a., að norræna velferðarríkið er nú álitlegra sem “land tækifæranna” en Bandaríki Norður-Ameríku.

Einn helsti þjóðfélagsfræðingur Bandaríkjamanna, Manuel Castels, segir að fátækrahverfum í sumum borgum Bandaríkjanna sé helst að líkja við þróunarlönd; hann kallar þau ” svarthol þjóðfélagsins”, þar sem einstaklingar sitja fastir í fátæktargildrum vonleysis og eymdar. Slíkt umhverfi getur af sér víðtæk afbrot, sem m.a. birtist í því að u.þ.b. tíu sinnum stærri hluti þjóðarinnar er í fangelsi í Bandaríkjunum en á Norðurlöndum, þar sem fangahlutfallið er lægst.

4.
En hvernig kemur hið norræna velferðarríki út á samræmdu prófunum í keppnisgreinum hnattvæðingarinnar? Því er fljótsvarað: Þau eru öll, því sem næst án undantekninga, best í sínum bekk. Þau eru jafnokar Bandaríkjanna um hagvöxt, nýsköpun og sköpun starfa. En þegar kemur að nýtingu mannauðsins, menntunarstiginu, atvinnuþátttökunni og jafnréttinu, standa Norðurlöndin Bandaríkjunum langtum framar. Þar skiptir sköpum langtímafjárfesting samfélagsins í menntun, heilsugæslu og umönnun barna. Það kemur nefnilega á daginn, að grundvallarreglan góða – kjarninn í lífsskoðun okkar jafnaðarmanna- um jöfn tækifæri allra til þroska, er sjálf undirstaða samkeppnishæfni þjóða í hinu alþjóðlega þekkingarþjóðfélagi samtímans. Þetta skapar norræna velferðarríkinu sam-keppnisforskot. Það er ekki þrátt fyrir velferðarríkið – heldur vegna þess. Dauðadómur Washington viskunnar yfir velferðarríkinu sýnist því ótímabær – ef ekki hreint öfugmæli.

Á s.l. ári gaf Háskólaútgáfan út öndvegisfræðirit eftir feðgana dr, Stefán Ólafsson, prófessor, og Kolbein Stefánsson, sem er doktorsnemi í félagsfræði við Oxford háskóla. Ritið ber heitið: Ísland í breyttu þjóðfélagsumhverfi – Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag. Þarna er dregið saman á einn stað ógrynni upplýsinga um frammistöðu ólíkra þjóðfélagsgerða í keppnisgreinum hnattvæðingarinnar. Þetta öndvegisrit ætti að vera skyldulesning allra þeirra, sem fást við stjórnmál hér á landi og sér í lagi þeirra, sem láta sér annt um framtíð velferðarríkisins. Höfundarnir komast m.a. að eftirfarandi niðurstöðum:
“Sú sýn að opinbera velferðarkerfið sé fyrst og fremst útgjaldabyrði fyrir þjóðfélagið og atvinnulífið, eins konar lystisemdir, sem hamli efnahagsframförum, er (því) augljóslega röng….”
“Styrkur skandinavísku leiðarinnar felst í því að með henni hefur tekist að samræma farsæla hagsældarþróun við jöfnun tækifæra og aukið réttlæti í samfélaginu.”
Og að lokum þetta:
“Skilningur á því, að velferðarríkið geti haft stórt og mikilvægt hlutverk við að skapa hagstæð skilyrði fyrir þekkingarhagkerfið fer nú víða vaxandi. Velferðarríkið skapar betri skilyrði fyrir nýtingu mannauðsins í þjóðfélaginu. Það býður upp á farsælar leiðir til að fjárfesta í börnum, forða þeim frá fátækt og leggur góðan grunn að menntun og þjálfum þeirra til virkrar þátttöku í starfi þjóðfélagsins. Þannig er mannauðurinn best nýttur og lífskjör fjölskyldna bætt. Það er því flest sem bendir til þess, að velferðarríkið og þekkingarhagkerfið muni eiga farsæla samleið í þjóðfélagsgerð vestrænna þjóða á næstu áratugum.”

… Löng leið byrjar á litlu skrefi. Sú leið, sem brautryðjendurnir, sem stofnuðu Alþýðuflokkinn og Alþýðusambandið, lögðu upp í fyrir níutíu árum, hefur fært okkar þjóð árangur langt umfram björtustu vonir. Velferðarþjóðfélagið er afdráttarlaust mesta stjórnmálaafrek liðinnar aldar. Það er okkar, sem hér stöndum saman undir merki rósarinnar á nýrri öld, að tryggja að þær fórnir, sem forverar okkar færðu í baráttunni fyrir frelsi og félagslegu réttlæti, verði ekki kastað á glæ.