PÓLITÍSK ÁBYRGÐ?

Jón Ólafsson, lærdómsmaður að Bifröst, vandar um við mig í pistli sínum fyrir að gera ekki tilhlýðilegan greinarmun á ráðherraábyrgð og ábyrgð flokksformanns. Það getur vel verið að á þessu tvennu sé einhver munur þótt rökstuðningur J.Ól. fyrir því sé lítt sannfærandi. Og þegar hann sakar mig um að “rugla saman … fullkomlega óskyldum tegundum siðferðilegrar ábyrgðar,” er hann áreiðanlega farinn að fullyrða meira en hann getur staðið við.

Samkvæmt leikreglum lýðræðisins er stjórnmálamönnum skylt að leggja mál sín reglulega “í dóm kjósenda.” Öfugt við embættismenn, t.d. bera þeir ábyrgð frammi fyrir kjósendum. Þetta á við um alþm. og ráðherra, sem skv. íslenskri hefð eru oftast sama persóna. Þessu til viðbótar ber að nefna landsdóm, sem er sérstakur dómstóll sem á að dæma um afglöp ráðherra í starfi. Merkilegt nokk hefur sá dómstóll ekki haft mikið að gera á Íslandi.

Hver er ábyrgð flokksformanna? Þeir eru kosnir af flokksfólki eða fulltrúum þess á flokksþingi og til ákveðins tíma. Flokksformaður ber því ábyrgð frammi fyrir almennum flokksmönnum og eftir atvikum stofnunum flokksins og kjósendum, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og reglum.

Það er áreiðanlega ofmælt hjá heimspekingnum J.Ól. að hér sé um að ræða”fullkomlega óskyldar tegundir siðferðilegrar ábyrgðar.”
Báðir, þ.e. alþingismaðurinn og ráðherrann annars vegar og flokksformaðurinn og ríkisstjórnaroddvitinn hins vegar, bera pólitíska ábyrgð gagnvart umbjóðendum sínum, þótt kjósendahópurinn sé ekki nákvæmlega sá sami.

Ég er sakaður um að leggja að jöfnu pólitíska ábyrgð forystumanna Sjálfstæðisflokksins eftir átján ára stjórnarsetu og forystumanna Samfylkingarinnar eftir átján mánuði. Ég hef hvergi lagt þetta að jöfnu. Það geta menn sannfærst um með því að lesa greinasafn mitt um hrunið og afleiðingar þess á heimasíðu minni (www.jbh.is). En þótt ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé sýnu þyngri þá verður pólitísk ábyrgð seint reiknuð nákvæmlega samkvæmt hlutfallareikningi. Skv. íslenskri stjórnskipun er ábyrgð forsætis- og fjármálaráðherra meiri en annarra ráðherra á efnahagsstefnunni. Ábyrgð seðlabankastjóra á framkvæmd peningastefnu er ótvíræð. Svo ber þess að geta að í íslenskum samsteypustjórnum eru það formennirnir sem eru valdamestir. Þeir eru oddvitar ríkisstjórnarinnar. Þeir bera meiri ábyrgð en aðrir ráðherrar. Þar fer saman ábyrgð þess sem er flokksformaður og ráðherra.

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru oddvitar fyrrverandi ríkisstjórnar og bera sem slíkir meiri pólitíska ábyrgð á störfum þeirrar ríkisstjórnar en aðrir. Viðskilnaður þessarar ríkisstjórnar var óumdeilanlega hinn versti í lýðveldissögunni og þótt víðar væri leitað. Efnahagshrunið er mælanlegt á venjulega hagkvarða og skuldabyrði heimilanna í landinu sömuleiðis. Mikill fjöldi fólks á persónulega um sárt að binda, t.d. vegna atvinnu- eða eignamissis, beinlínis af völdum aðgerða eða aðgerðaleysis fyrrverandi ríkisstjórnar. Þess vegna er sú krafa uppi með þjóðinni að þeir sem báru höfuðábyrgð á þessum þungbæru áföllum, víki.

Ef þetta hefðu verið hamfarir af náttúrunnar völdum myndum við tala um slys. Í versta falli yrði rannsakað hvort hamfaravörnum hefði verið áfátt eða hvort björgunarstarfið hefði gengið eðlilega fyrir sig. En efnahagslegur ófarnaður íslensku þjóðarinnar var af mannavöldum. Hann var fyrirsjáanlegur og fyrirbyggjanlegur. Upplýsingar um yfirvofandi hrun lágu fyrir og voru aðgengilegar í tæka tíð. Aðgerðir og aðgerðaleysi oddvita ríkisstjórnarinnar sýna að þau gerðu sér enga grein fyrir hættuástandinu og brugðust þeirri skyldu sinni að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana í tæka tíð. Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, hefur kallað þetta mestu afglöp lýðveldissögunnar. Haldbær rök til að hnekkja þeirri fullyrðingu eru satt að segja vandfundin.

Í samanburði við þessi ósköp sýnist mér þrætubók Jóns Ólafssonar um tvenns konar ábyrgð, ráðherrans og flokksformannsins (sem í þessu dæmi eru ein og sama persónan), vera ósköp lítilfjörleg og varla þess virði að eyða á hana meira púðri. Samfylkingarfólk verður einfaldlega að gera það upp við sig í forvali og á landsfundi hvort því finnst við hæfi að bjóða þeim kjósendum, sem nú eiga um sárt að binda af völdum fyrrverandi ríkisstjórnar upp á óbreytta forystu? Og hvort því finnst ekki svolítið holur hljómur í því að krefjast þess af andstæðingum okkar sem báru ríkisstjórnarábyrgð á óförum þjóðarinnar, að þeir víki – en ekki okkar maður?