“DABBI OG SIMMI”: ANNAR ÞÁTTUR

Sjóið heldur áfram. Sömu leikarar í sömu hlutverkum: Dabbi og Simmi.
Dabbi leikur aðþrengdan stjórnmálamann með létta paranoju og lítt haminn ofsóknarkomplex. Simmi leikur rannsóknarlögreglumann hjá INTERPOL sem er nýr í bransanum en vill ólmur klára málið. Nær samt ekki alveg upp í það.

TAKA I.

Stjórnmálamaðurinn Davíð var svo seinheppinn að vistráða sig í Seðlabankann þegar hann “hætti í pólitík”. Lögum samkvæmt á hann bara að sjá um tvennt sem seðlabankastjóri: Að gjaldmiðillinn sé stöðugur og að bankakerfið sé traust. Hvort tveggja klikkaði á hans vakt. Það varð kerfishrun sem framvegis verður minnst í skólabókum sem sígilds dæmis um mistök á heimsmælikvarða. Afleiðingin er neyðarástand. Það mun taka þjóðina mörg ár að jafna sig eftir áfallið og borga reikningana. Rannsóknarspurningin er: Hvers vegna sögðu seðlabankastjórarnir ekki af sér kl. 9:00 stundvíslega daginn eftir hrun? Það skilur enginn (Skýring: Alan Greenspan var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í 18 ár. Hann er talinn bera höfuðábyrgð á heimskreppunni. Nafn hans er á válistanum, ásamt nöfnum minni spámanna eins og Oddsson og Haarde. Munurinn er sá að Greenspan hefur gengist við ábyrgð sinni. Hann sagði frammi fyrir rannsóknarnefnd þingsins: “Ég trúði því í 40 ár að markaðirnir leiðréttu sig sjálfir. Það voru mistök” sagði hann og baðst afsökunar.)

TAKA II.

Skýringin á því að seðlabankastjórinn hefur hvorki sagt af sé eða beðist afsökunar er sú að hann er stjórnmálamaður í gervi seðlabankastjóra. Og meira en það. Hann er hinn ókrýndi leiðstogi stjórnarandstöðunnar.Það er hlutverk stjórnarandstöðunnar að rífa kjaft. Og gott hjá Kastljóssdrengjunum að gefa stjórnarandstöðunni þrjú korter í drottningarviðtali til að vega upp á móti fjölmiðlasíbylju stjórnarflokkanna. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar hefur frá fornu fari traust ítök í flokkseigendafélagi Framsóknar. Helmingaskiptin eru lífseig. Nú hefur hann notað þessi tengsl til að stöðva seðlabankafrumvarpið og þar með að setja samstarfið við AGS í upnám. Fínn stjórnarandstöðuleikur. Og svo segir hann að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt fyrir fórnarlömb hrunsins (sem fyrrv. ríkisstjórn og seðlabankinn báru ábyrgð á). Þetta er töff stjórnarandstaða. Allt í einu sáum við hver er handsritshöfundur og leikstjóri stuttbuxnaliðs Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðunni á alþingi. Köld eru ráð undir Svörtuloftum.

TAKA III.

“Ég varaði við. Ég var alltaf að vara við,” sagði hann. Seðlabankastjórinn segist sum sé hafa verið í kór þeirra sem fóru með viðvörunarorð. Og það vantaði ekki viðvaranir. Innlendir og erlendir fræðimenn, erlendir bankar og greiningardeildir. Allir vöruðu þeir við, hver í kapp við annan. Viðvörunarbjöllurnar klingdu með vofveiflegum hljóm í a.m.k. tvö ár fyrir hrun. Það vantaði ekki. Hvað vantaði þá? Það vantaði viðbrögð – aðgerðir. Munurinn á utanaðkomandi fræðimönnum og stjórnmálamönnum (þótt sumir væru í gervi seðlabankastjóra) er sá, að ráðherrar og seðlabankastjórar hafa vald og stjórntæki í sinum höndum til að bregðast við: Til að fyrirbyggja hrun í tæka tíð. Þegar Davíð segist hafa varað við forystumenn fyrrverandi ríkisstjórnar, þau Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu, er hann að varpa sök af sér yfir á aðra: Af seðlabankanum yfir á sinn gamla stjórnarflokk, Sjálfstæðisflokkinn – og Samfylkinguna í leiðinni. Hann segist hafa varað þau við í einkasamtölum. Það er að vísu hálfvandræðalegt að hvorugt þykist við það kannast. Á mæltu máli er hann að segja að þau hafi verið meðvitundarlaus, skilningslaus, aðgerðalaus. Hvers vegna? Tóku þau kannski ekkert mark á seðlabankastjóranum af því að þau vissu sem var að hann var bara í pólitík? Að hann var hinn ókrýndi leiðtogi stjórnarandstöðunnar? Hvers á sú þjóð að gjalda sem má horfa upp á sápuóperu af þessu tagi vikum og mánuðum saman? Á þetta engan endi að taka?