80 DAGA STJÓRNIN OG ATVINNULÍFIÐ OG HEIMILIN

Fréttir dagsins úr atvinnulífinu eru ógnvekjandi. Fyrir skömmu lýstu Samtök atvinnulífsins því yfir að u.þ.b. 70% fyrirtækjanna í landinu væru “tæknilega gjaldþrota”. Það þýðir að þau eiga ekki fyrir skuldum.Samkvæmt fréttum dagsins er gósentíð framundan hjá innheimtulögfræðingum. Þeir búast við því að út þetta ár fari um 10 fyrirtæki á hausinn á dag. Atvinnulaust fólk telst nú þegar um 15 þúsund. Þeim mun fjölga dag frá degi út árið verði ekki að gert.

Fyrir nokkrum vikum kom hingað til lands Göran Persson fv. forsætisráðherra Svía. Hann miðlaði okkur af reynslu sinni af kreppuvörnum í Svíþjóð frá árunum 1992-95, en þá gegndi hann embætti fjármálaráðherra Svía. Hann lagði í máli sínu þunga áherslu á fá en einföld sannindi: Gerir strax í upphafi áætlun til næstu ára um kreppuvarnir. Kynnið áætlunina rækilega og rökstyðjið nauðsyn hverrar aðgerðar frammi fyrir þjóðinni, þannig að fólk sannfærist um illa nauðsyn harðráðanna. Því að eins að þetta sé gert getur fólk eygt vonarneista um að með harðfylgi, sjálfsaga og sjálfsafneitun geti þjóðin unnið sig út úr vandanum með samstilltu átaki. Fólk þarf að geta treyst því að björgunaráætlunin sé sanngjörn og réttlát.

Eitt af því sem Persson sagði var eftirfarandi: Gerið allt sem í ykkar valdi stendur til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Fremur launalækkun og hlutastarf en uppsögn og atvinnuleysi. Setjum þau sem missa vinnuna á skólabekk. Það er alla vega fjárfesting í framtíðinni. En einbeitum okkur að því að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.

Aðgerðaáætlun

Hvað getur 80 daga stjórnin gert til þess? Tvennt strax: Lækka vexti og starta bönkunum í gang. Þetta er lágmark. En strax merkir strax, ekki á morgun. Þetta þolir enga bið. Fyrri ríkisstjórn vísaði alltaf í aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Það er ótrúlegt en satt að samningsaðilar af Íslands hálfu (seðlabankastjórinn og fjármálaráðherrann) reyndu ekkert til að fá fulltrúa sjóðsins ofan af þeirri firru að hækka stýrivexti úr 12 í 18%, þótt fyrir því væru nákvæmlega engin rök:

Í fyrsta lagi komu gjaldeyrishöft, sem enn eru í gildi, í veg fyrir fjárflótta og þar með nýtt gengisfall. Í öðru lagi var 18% verðbólguskot afleiðing af verðhækkun innflutnings vegna gengisfalls krónunnar. Það verðbólguskot gengur nú hratt niður, samanber það að viðskiptahalli hefur snúist í jöfnuð. Í þriðja lagi er verðhjöðnun framundan en ekki verðbólga. Það er því sannanlega engin réttlæting fyrir 18% stýrivöxtum. Burt með þá.Við treystum því að nýr fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fái þessu framgengt við fulltrúa sjóðsins nú þegar reglubundin endurskoðun aðgerðaáætlunar AGS stendur fyrir dyrum.

Nýr viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, hlýtur að ganga hart fram í því að ljúka eigna- og skuldamati nýju bankanna og endurfjármögnun þeirra, þannig að bankakerfið verði í stakk búið til þess að sinna þörfum fyrirtækjanna. Þetta er það sem hægt er að gera með almennum aðgerðum strax til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Þessu til viðbótar koma fjölmargar sértækar aðgerðir á ýmsum sviðum, allt frá t.d. kræklingaeldi í sjávarútvegi til ráðstafana til að taka á moti auknum fjölda ferðamanna þegar á þessari vertíð.

Stórtækari lausnir útheimta nothæfan gjaldmiðil. Hann fæst ekki nema með samningaviðræðum við Evrópusambandið. Evrópusambandsaðild er þess vegna atvinnumál, um leið og hún er lífskjaramál. Atvinnulífið þarf fyrst og fremst á að halda stöðugleika og lágum vöxtum sem aðeins fæst með traustum gjaldmiðli. Heimilin þurfa lægra verð á lífsnauðsynjum, lægri vexti og afnám verðtryggingar, sem aðeins fæst með traustum gjaldmiðli.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að Vinstri græn þurfa nú, í nafni almannahagsmuna, að endurskoða stefnu sína í Evrópumálum. Við endurskoðun stjónarskrárinnar á yfirstandandi þingi ættu þau nú þegar að fallast á ákvæði í stjórnarskrá sem heimilar íslenska ríkinu að hefja þegar í stað aðildarsamninga við Evrópusambandið. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Verða heimilin varin?

En hvað er að frétta af bjargráðum til handa heimilunum í landinu? Það er tvennt sem þarf að gera: Í fyrsta lagi þarf að taka tímabundinn verðbólgukúf út úr verðtryggingarferlinu af því að hann er tímabundinn og framundan er verðhjöðnun. Í öðru lagi þarf að eyða ríkjandi óvissu um það hvort ríkið, sem eigandi nýju bankanna, ræður við það að breyta erlendum myntkörfulánum íbúðakaupenda yfir í innlend lán á verðtryggingarkjörum og með lengingu lánstímans

Þetta er það sem þarf að gera með almennum aðgerðum, ef það á að koma til móts við þær fjölskyldur, sem eru að missa íbúðirnar sínar. Önnur úrræði, svo sem eins og frestun afborgana, frestun aðfararaðgerða, þak á innheimtukostnað og hemlar á harðræði innheimtulögfræðinga og uppboðsaðila er allt gott og blessað, svo langt sem það nær. En þetta eru í eðli sínu allt saman bráðabirgðaúrræði, sem leysa engan vanda, en fresta honum. Það er ekki nóg.

Almenningur í landinu væntir þess að nýr félagsmálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, eyði hið fyrsta allri óvissu um það, hvort 80 daga ríkisstjórnin ætli að ráðast í almennar aðgerðir til bjargar heimilunum og þá hvernig.Ef niðurstaðan er sú að ríkið (Íbúðalánaasjóður), bankarnir (í ríkiseigu) og lífeyrissjóðirnar (handhafar skyldusparnaðar almennings) hafi ekki efni á því að standa undir bjargráðum af þessu tagi, þá ber að segja það strax. Óvissan er verst.

Neyðarúrræði?

Verðtryggingin bjargaði lífeyrissjóðum almennings á sínum tíma frá því að fuðra upp á báli verðbólgunnar. Lífeyrissjóðirnir eru í vanda. Þeir hafa tapað stórfé í bankahruninu. Iðgjaldabasi þeirra mun rýrna með minnkandi atvinnu og lækkun launa. Forstöðumönnum lífeyrissjóðanna er eðlislægt að ríghalda í verðtrygginguna og vísitölukerfið sem hún byggir á.

Samt kemur mörgum launþegum, sem nú eru í nauðum staddir, það spánskt fyrir sjónir að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna eru harðsvíruðustu talsmenn fjármagnseigenda í landinu. Sumir sjá í því undarlega þversögn. Aðrir benda á, að eftir hrun er ekkert eins og var. Það er neyðarástand ríkjandi. Allir – og þá meinum við allir – verða að slá af ítrustu kröfum. Það á jafnt við um lífeyrissjóðina sem aðra.

Það eru til haldbær rök fyrir því að fjármagnseigendur (ríkið), bankar, almannasjóðir, lífeyrissjóðir – verði að slá af ítrustu kröfum vegna ríkjandi neyðarástands. Hver er ella hinn kosturinn? Vilja þessir aðilar sitja að lokum uppi með eignir stórs hluta fjölskyldna í landinu, sem teknar hafa verið eignarnámi við gjaldþrotaskipti? Og verða síðan væntanlega seldar fjármagnseigendum fyrir slikk? Viljum við það ?

Nú er engra góðra kosta völ. Við verðum hins vegar að velja illskásta kostinn. Verst af öllu er ákvarðanafælnin og úrræðaleysið, sem einkenndi framgöngu fyrrverandi ríkisstjórnar. Þess vegna var hún hrópuð af.
80 daga stjórnin vekur vissulega væntingar og nýja von. En við vitum öll að hún getur ekki gert kraftaverk. Við förum hins vegar fram á það að hún segi okkur umbúðalausan sannleikann og geri undanbragðalaust það sem hún getur. Meira er ekki unnt að fara fram á.