Hvað er til ráða eftir hrun? Húsfyllir í Norræna húsinu.

Þrátt fyrir bjart og fagurt vetrarveður í gær, laugardaginn 7. mars, var fullt út úr dyrum á fundinum sem ég boðaði til í Norræna húsinu. Þétt setið í salnum svo að það þurfti að raða upp aukastólum í anddyrinu. 160 manns að sögn húsráðenda. Fundarefnið var:
HVAÐ ER TIL RÁÐA EFTIR HRUN?

Ég leitaði svara við mörgum spurningum sem nú brenna á fólki:

  1. Er hrunið sjálfskaparvíti eða erum við saklaus fórnarlömb heimskreppunnar?
  2. Þurfum við ekki að ræða hinar dýpri orsakir? Frjálshyggjumódelið, áhrif Eimreiðarhópsins, áætlunina um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, og ójafnaðarþjóðfélagið o.fl.
  3. Af þeirri löngu röð mistaka, sem fyrrverandi ríkisstjórn og forverar hennar gerðu sig seka um á tímabilinu frá einkavæðingu til hruns, voru þau mistök mest og verst, að hafa ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu og tekið upp evru meðan við fullnægðum öllum skilyrðum til að gera það. Hefði sú leið verið farin, eins og Alþýðuflokkurinn boðaði allt frá því fyrir kosningar 1995, væri Ísland ekki hrunið þjóðfélag.
  4. Ég kortlagði viðskilnað fyrrverandi ríkisstjórnar og stsærðargráðu vandans út frá þjóðhagslegu sjónarmiði.
  5. Þá ræddi ég rækilega vanda heimila og atvinnulífs og lýsti þeim leiðumn sem færar væru til að koma til móts við hin skuldugu heimili og til að koma hjólum atvinnulífsins í gang.
  6. Loks ræddi ég allítarlega um langtímalausnir og framtíðarsýn. Ég spurði sjálfan mig og fundarmenn að því hverjar væru hinar raunverulegu ástæður fyrir því hvers vegna forysta Sjálfstæðisflokksins hefur brugðist svo átakanlega varðandi þetta stærsta mál samtímans. Hringlandaháttur Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum er með eindæmum og sér ekki fyrir endann á því. Ástæðan er sú að forystan óttast klofning. Hún setur flokkshagsmuni í forgang umfram þjóðarhagsmuni.
  7. Loks ræddi ég allar helstu röksemdir andstæðinga Evrópusambandsins gegn aðild: Yfirráð yfir auðlindum; hagsmuni sjávarútvegsins; stöðu landbúnaðarins innan ESB; hinn meinta lýðræðishalla; meint áhrifaleysi smáþjóða og loks öfugmælaþuluna um framsal fullveldis og sjálfstæðis.
  8. Í lokaorðum brýndi ég fundarmenn á því að stóra verkefnið framundan væri að endurreisa hið norræna velferðarríki á Íslandi úr rústum frjálshyggjunnar í svæðasamstarfi með Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðum innan Evrópusambandsins.
  9. Að lokinni framsögu barst fjöldi fyrirspurna, auk þess sem ýmsir fundarmenn tóku til máls og gerðu ýmsum málum betri skil.
  10. Margir höfðu að orði að þetta hefði verið hressilegur fundur, sem hefði í lokin aukið mönnum trú á því að við gætum yfirbugað erfiðleikana framundan og var þó síst reynt að fegra ástandið eða gera lítið úr vandanum.