Eimreiðarhópurinn: Who is who í valdakerfinu

Kafli úr ræðu Jón Baldvins, sem hann mun flytja á opnum fundi í Norræna húsinu á morgun kl. 14:00.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Þeir ungu menn sem gerðust handgengnir nýfrjálshyggjunni hér á landi mynduðu snemma með sér félagsskap sem gekk undir nafninu Eimreiðarhópurinn. Það er athyglisvert að þeir þrír einstaklingar sem verið hafa formenn Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherrar í umboði hans s.l. aldarfjórðung tilheyrðu allir þessum félagsskap. Hafi Davíð Oddsson verið hinn ókrýndi leiðtogi hópsins þá var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hugmyndafræðingurinn, eins konar Suslov, en Kjartan Gunnarsson var apparatchíkinn, framkvæmdastjóri Flokksins. Þegar litið er yfir nafnalistann lítur hann út eins og Who is Who yfir valdakerfi Sjálfstæðisflokksins s.l. áratugi.

Stóra planið virðist eftir á að hyggja hafa verið að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð í anda nýfrjálshyggjunnar. Yfirhugmyndafræðingurinn gaf reyndar út um það eins konar manifesto: Hvernig geta Íslendingar orðið ríkasta þjóð í heimi? Þar var allt á sömu bókina lært: Einkavæðum, lækkum (eða afnemum) skatta á fjármagnseigendur og fyrirtæki, afnemum hamlandi reglugerðir, eftirlit og íhlutun. Og sjá – þá munu öll gæði veraldarinnar veitast yður að auki.

Eftir að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráherra, hafði loks tekist með erfiðismunum að flæma Davíð Oddsson, seðlabankastjóra út úr musterinu, vakti það athygli að hún skipaði útlendan sérfræðing í embættið í staðinn. Það var væntanlega gert til þess að leggja áherslu á nauðsyn þess að binda endi á klíkuvensl og flokkspólitískt forræði sem þar hefur ráðið ríkjum á seinni árum. Hitt vakti minni athygli að forsætisráðherra skipaði útlenda konu, Ann Sibert, að nafni, í peningastefnuráð bankans. Dr. Sibert er bandarísk að þjóðerni, starfar í Bretlandi og er doktor í stærðfræðilegri hagfræði og tölfræði.

Hún var reyndar meðhöfundur skýrslunnar frægu um íslenska bankakerfið, sem unnin var fyrir Landsbankann í upphafi árs 2008. Þar lýsir hún íslenska viðskiptamódelinu, sem útrásarbankarnir störfuðu eftir, á tilþrifamikinn hátt. Vöxtur bankakerfis á sex árum upp í tífalda stærð hagkerfisins, þar sem vöxturinn er tekinn að láni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er glæfralegur. En að gera þetta á grundvelli minnsta myntsvsæðis veraldarinnar með seðlabanka og skattlagningarstyrk þjóðfélags á stærð við miðlungsborg í Evrópu að bakhjarli – þetta viðskiptamódel er fyrirfram dauðadæmt. Það er spilaborg sem mun fyrirsjáanlega hrynja. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær. Það þurfti enga heimskreppu til að kolvarpa þessu hrófatildri.

Dr. Sibert var ekki sú fyrsta til að vara við í tæka tíð. Þorvaldur Gylfason, prófessor, var óþreytandi að vara við afleiðingunum af aðhaldslausri stefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt; Sérstaklega hafði hann uppi sterk varnaðarorð við misráðinni og misheppnaðri peningamálastefnu. En þeir voru margir fleiri sérfræðingarnir, innlendir og erlendir, sem vöruðu við í tæka tíð. Það er sérstök ástæða til að nefna nafn Ragnars Önundarasonar, sem með varnaðarorðum í tæka tíð reyndi að bjarga æru íslenskra bankamanna.

Það var ekki bara skellt við skollaeyrum. Gagnrýnendum var fundið flest til foráttu. Eða hvers vegna skyldu nýfrjálshyggjumenn játa á sig mistök, þegar þeir voru einmitt að framfylgja yfirlýstri stefnu? Og hældust um, hver í kapp við annan, af öfundsverðum árangri. Voru ekki ríkisafskipti af hinu vonda? Bar ekki að draga úr reglugerðarfargani og eftirlitsáráttu? Var þetta ekki allt samkvæmt bókinni?

Kaflar úr ræðunni þann 7. mars 2009, skrifaðir eftir fundinn