Marshall Brement, sendiherra á Íslandi – minning

Marshall Brement, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi (1981-85), var enginn venjulegur kerfiskall. Í samanburði við þá kollega hans, bandaríska, sem hafa til siðs að kaupa sér sendiherraembætti í fjarlægum löndum fyrir framlög í kosningasjóði, vitandi varla hvar þeir eru staddir á landakortinu, var Marshall hinn útvaldi atvinnumaður.

Þegar hann kvaddi Ísland 1985 lauk um leið 30 ára ferli í bandarísku utanríkisþjónustunni. Marshall var “strategiskur” hugsuður, sem fjallaði um alþjóðamál af ástríðu. Sérgreinar hans voru Sovétríkin og Kína (enda talaði hann bæði rússnesku og mandarísku), þótt eftirlæti hans væri Suðaustur-Asía. Eftir að hafa starfað í utanríkisþjónustu landsins í Hong Kong, Singapore, Indónesíu og Vietnam, varð hann stjórnmálaráðgjafi við sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu.

Marshall starfaði við þjóðaröryggisráðið sem ráðgjafi Carters forseta um málefni Sovétríkjanna og þjónaði sem maður númer tvö sem sendimaður Bandaríkjastjórnar hjá Sameinuðu þjóðunum. Marshall var gyðingur og rakti ættir sínar til Mið- og Austur-Evrópu. Svo sem hæfir slíkum manni var hann fjöltyngdur. Fyrir utan hebresku hafði hann frönsku og spænsku á valdi sínu. Sem sendiherra á Íslandi fór Marshall létt með að flytja hnyttnar samkvæmisræður á íslensku. Hann var að upplagi fræðimaður, málvísindamaður og skáld, sem hafði þann starfa að reyna að skilja heiminn.

Sendiherrar eru sem kunnugt er ekki nema hálfir menn nema þeir hafi sér við hlið maka, sem bæta þá upp. Kona Marshalls í 35 ár, Pamela Sanders, var sjálf rithöfundur og lífskúnstner, sem gaf fundum og samkvæmum sendiherrahjónanna líf og lit. Sameiginlega höfðu þau hjón ósvikinn áhuga á íslensku þjóðlífi og menningu og gerðu sér far um að kynnast mönnum og málefnum, án nokkurra pólitískra fordóma. Það hefur löngum verið plagsiður bandarískra sendimanna að tala helst ekki við aðra en “innvígða og innmúraða” sjálfstæðismenn í fjáröflunarnefnd og viðskiptaráði Flokksins. Ætli honum hafi ekki leiðst svoleiðis félagsskapur?

Alla vega vílaði hann ekki fyrir sér að forvitnast um vinstrið og tala við fulltrúa slíkra viðhorfa í pólitík og menningu. Einhvern tíma á þessum árum stóðum við ásamt fleiri vinstrimönnum í mótmælavarðstöðu fyrir utan bandaríska sendiráðið við Laufásveg. Tilefnið var að dauðasveitir hægriöfgamanna í El Salvador, fjármagnaðar og vopnaðar af Reagan-stjórninni, höfðu myrt forstöðukonu mannréttindanefndar El Salvador. Hún hafði skömmu áður verið gestur jafnaðarmanna á Norðurlöndum, þar sem hún leitaði liðsinnis. Þar sem við stóðum þarna brá fyrir ásýnd sendiherrans, þar sem hann stóð á tali við ritstjóra Þjóðviljans, Árna Bergmann. Þeim Árna og Lenu og Marshall var vel til vina. Ætli þeir hafi ekki verið að halda upp á afmæli Púskins?

Eftir að Marshall lét af störfum í utanríkisþjónustunni gerðist hann fræðaþulur og rithöfundur. Hann kenndi við Naval War College í New Port, Rhode Island, þar sem hann veitti forstöðu rannsóknarstofnun, sem ráðlagði yfirvöldum bandaríska flotans. Um skeið var hann einn af forstöðumönnum rannsóknarstofnunar, sem kennd er við George C. Marshall, utanríkisráðherra (sem Marshall-áætlunin er kennd við), í Garmisch-Partenkirchen í Þýskalandi. Þessi stofnun bauð m.a. upp á aðstoð við stofnanauppbyggingu lýðræðis í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur Evrópu. Seinustu árin gegndi Marshall starfi prófessors í alþjóðamálum við University of Virginia. Þetta var á Washington árum okkar. Þá lágu leiðir okkar saman á ný, því að Marshall og Pamela höfðu þá sest að í Middleburgh, VA., sem er sögufrægt þorp úr Borgarastyrjöldinni, ekki fjarri Washington D.C. Það voru einatt fagnaðarfundir.

Árið 1990, ári fyrir hrun Sovétríkjanna, sendi Marshall frá sér merka bók: Reaching out to Moscow: From Confrontation to Cooperation. Í þessari bók brýndi Marshall það fyrir forystumönnum Bandaríkjanna að leggja Rússlandi lið við uppbyggingu lýðræðis og markaðsbúskapar undir lýðræðislegri stjórn. Heimurinn liti betur út í dag ef farið hefði verið að hans ráðum. Árið 2006 gaf Marshall út skáldsögu, Day of the Dead. Bókin er byggð á persónulegri reynslu hans sjálfs úr Vietnamstríðinu og afhjúpar ábyrgð Bandaríkjamanna á morðinu á Ngo Dinh Diem, forseta Suður-Vietnams. Sjálfur sagði Marshall í mín eyru að honum þætti vænst um þýðingar sínar í tveimur bindum á íslenskum ljóðum, sem voru ávöxtur náinna kynna hans af íslensku lista- og menningarlífi.

Við sendum Pamelu og fjölskyldu þeirra Marshalls samúðarkveðjur, um leið og við minnumst eftirminnilegs vinar með virðingu og þökk fyrir gefandi kynni.