NATO 60 ÁRA: HEIMAVARNARLIÐ EÐA HEIMSLÖGREGLA

Kannski er sálarháski Íslendinga í upphafi nýrrar aldar sá, að þjóðin hefur enn ekki fundið sér samastað í samfélagi þjóðanna. Við erum ekki lengur á amerísku áhrifasvæði, en hræðsluáróðurinn gegn Evrópusambandinu birgir okkur sýn og leiðir á villigötur. Við erum ein og yfirgefin. Hnípin (skuldug) þjóð í vanda.

Samt er engin umræða um utanríkismál fyrir kosningar. Ég segi utanríkismál – því að umræðan um Evrópusambandið, öfugsnúin og forskrúfuð sem hún er – er auðvitað um innanlandsmál. Hún snýst um það, hvernig fólk og fyrirtæki megi njóta starfsumhverfis eins og tíðkast í grannríkjum okkar. Hún snýst um normaliseringu. Hún snýst um stöðugleika í fjármálum, í verðlagi, vöxtum á lánum og greiðslubyrði skulda, svo að fólk og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir á sæmilega traustum forsendum. Hún snýst um að skapa 20 þúsund störf fyrir menntað fólk. Hún snýst m.ö.o. um innanríkismál.

Utanríkismál snúast hins vegar um það, hvernig tryggja megi framtíðaröryggi þjóðarinnar fyrir ytri áföllum og erlendri ásælni. Þjóð sem er sokkin í skuldir og hefur áhyggjur af afkomu sinni frá degi til dags, má ekki vera að því að hugsa um framtíðina.

Það kemur því kannski ekki á óvart að það voru varla fleiri en 30 manns, sem komu á Varðbergsfund á Hótel Borg í gærkvöldi (föstudaginn 17.04.) eftir fréttir og Kastljós, til að hlusta á okkur Höllu Gunnarsdóttur rökræða um framtíð NATO í tilefni af 60 ára afmæli hernaðarbandalagsins fyrr í mánuðinum. Við áttum að svara spurningum eins og þessum: Hefur NATO einhverju hlutverki að gegna eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins? Hvað er bandalag sem átti að verja Evrópu fyrir útþenslustefnu Sovétríkjanna að gera í Afganistan? Er NATO að verða að einhvers konar heimslögreglu?
Í þjónustu hverra, með leyfi? Fara hagsmunir Evrópuríkja ævinlega saman við hagsmuni ameríska heimsveldisins? Er ekki kominn tími til að Evrópa taki sín mál í eigin hendur? Og hvað með Ísland? Hvar á það heima í nýrri heimsmynd?

Það vakti athygli að meirihluti fundargesta var að eigin sögn í klappliði Höllu Gunnarsdóttur frá Vinstri grænum. Öðru vísi mér áður brá! Hér fer á eftir ræðan sem ég flutti á þessum fundi.

1. DÓMUR REYNSLUNNAR

Inngangan í NATO 1949 var umdeild ákvörðun, sem klauf þjóðina í andstæðar fylkingar.Menn greindi á um svör við brennandi spurningum: Var sjálfstæði Íslands raunverulega hætta búin? Hafði reynsla smáþjóða á millistríðsárunum ekki kennt þeim endanlega þá lexíu, að hlutleysið væri haldlaus flík?

Voru þeir, sem beittu sér fyrir þessari örlagaríku ákvörðun, þjóðníðingar og landráðamenn, eins og margir trúðu á þeim tíma? Eða voru þarna að verki ábyrgir stjórnmálamenn og framsýnir, sem sáu fyrir að það yrði að tryggja nýfengið sjálfstæði fyrir hugsanlegri ásælni óvinveittra afla? Hafa áhyggjur hinna bestu manna um að aðildin að NATO og dvöl bandarísks herliðs í landinu í kjölfarið mundi hafa í för með sér endanlok íslensks sjálfstæðis, þjóðernis og menningar – hafa þessar áhyggjur reynst vera á rökum reistar?

Sextíu árum síðar getum við metið svörin við þessum spurningum í ljósi reynslunnar.
Jafnvel þótt Stalíni hafi verið meira í mun að loka hinar föngnu þjóðir Sovétsins inni í þjóðafangelsi sínu, fremur en að leggja afganginn af Evrópu undir sig, þá er það hygginna manna háttur að taka út tryggingu fyrirfram. Slagorðið: “þú tryggir ekki eftir á” – er enn í fullu gildi.

Óttinn við endalok íslensks þjóðernis reyndist ekki á rökum reistur – alla vega ekki í það skiptið. Ég lærði því snemma að bera virðingu fyrir Bjarna Benediktssyni, þáverandi utanríkisráðherra, af því að hann þorði að fylgja eftir sannfæringu sinni, þrátt fyrir harða og óbilgjarna gagnrýni andstæðinga. Kjarklitlir stjórnmálamenn eru gagnslausir stjórnmálamenn. Ef við ekki vissum það áður, þá vitum við það núna.Við þurfum ekki annað en að líta í kringum okkur.

Niðurstaða mín um reynsluna af hinu liðna er því afdráttarlaus. Atlantshafsbandalagið var trúlega árangursríkasta varnarbandalag sögunnar. Lýðræðið hélt velli. Evrópa hefur notið friðar í 60 ár, – lengur en sögur fara af fyrr á tíð. Og Ísland naut góðs af veru sinni í NATO. Þetta var fínn klúbbur. Hin nýfrjálsa þjóð tók sér fari á fyrsta farrými.Við fengum aðgang að og áheyrn hjá valdhöfum voldugustu þjóða heims.

Við fengum Marshallaðstoð, án þess að uppfylla skilyrðin. Við græddum á hermanginu, meðan aðrar þjóðir færðu fórnir til að standa undir landvörnum. Við nutum margvíslegra forréttinda þótt hljótt hafi farið, eins og t.d. varðandi flugrekstrar- og lendingarleyfi í flugi yfir Atlantshafið. Og við gátum fært okkur hernaðarlegt mikilvægi landsins í nyt til að spila á stórveldin í kalda stríðinu, til þess að ná fram okkar málstað. Þorskastríðin við Breta eru gott dæmi um það. Það var á þessum árum sem við vöndumst á það, að kjörorð Íslendinga í alþjóðasamskiptum ætti að vera “Allt fyrir ekkert.”

2. HEIMSMYND KALDA STRÍÐSINS

Hverjar voru forsendurnar fyrir varnarbandalagi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu á tímabili kalda stríðsins? Hvað var það sem sameinaði þær? Því má svara í einu orði: Sovétríkin – hinn sameiginlegi óvinur. Svo lengi sem þjóðir Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku töldu, að þeim stæði ógn af hernaðarmætti Sovétríkjanna – voru þessar þjóðir reiðubúnar að snúa bökum saman gegn sameiginlegum óvini.

Þrátt fyrir ólíka hagsmuni Bandaríkjanna og gömlu evrópsku nýlenduveldanna víðs vegar um heiminn; og þrátt fyrir gerólík lífsviðhorf bandarískra repúblíkana og vestur-evrópskra sósíaldemókrata, þá voru allir aðilar sammála um að fórna bæri minni hagsmunum fyrir meiri: Vörn lýðræðis og mannréttinda gegn alræði og ógnarstjórn. Heimsmyndin var í svart/hvítu: Frelsi versus helsi. Þeir sem ekki eru með mér eru á móti mér.

Auðvitað var þessi svart/hvíta heimsmynd kalda stríðsins stórlega ýkt, þegar skyggnst var á bak við tjöldin. Þeir sem lesið hafa hina svörtu bók um sögu kommúnismans vita, að það var engu logið um það alþjóðlega bófafélag sem réð ríkjum í Kreml og innan veggja hinnar forboðnu borgar Maos formanns í Beijing.

En hið rísandi heimsveldi Bandaríkja Ameríku og hin hnignandi nýlenduveldi gömlu Evrópu voru svo sem engir englar heldur. Bandaríkin skirrðust ekki við að beita hervaldi og klækjum til að kollvarpa lýðræðislega kjörnum umbótastjórnum eða til að hindra valdatöku vinstrimanna í ríkjum Mið- og Suður-Ameríku. Hver valdaræninginn öðrum ófrýnilegri fékk að mergsjúga þjóðir þessara landa í skjóli Bandaríkjanna. Mottóið var: “They may be sons of bitches, but they are our sons of bitches.”Allt var þetta réttlætt í nafni krossferðarinnar gegn kommúnismanum.

Evrópsku nýlenduveldin háðu blóðugar styrjaldir gegn sjálfstæðishreyfingum fyrrverandi nýlendna í Afríku og Asíu. Allir sem leiddu vopnaðar uppreisnir gegn nýlendukúgun og arðráni voru stimplaðir óvinir vestræns lýðræðis. Þeir voru annað hvort kommúnistar eða handbendi þeirra og réttdræpir sem hryðjuverkamenn, hvar sem til þeirra náðist. Þessi meinta krossferð gegn kommúnismanum var oftar en ekki blygðunarlaus hagsmunavarsla nýlenduvelda og fjölþjóðlegra auðhringa, til þess að komast yfir auðlindir þriðja heimsins.

Gott dæmi um þetta var þegar leyniþjónustur Breta og Bandaríkjamanna komu Íranskeisara til valda, í samvinnu við systurnar sjö í olíubransanum. Þetta valdarán og sú blóðuga ógnarstjórn sem af hlaust, hefur dregið langan slóða á eftir sér. Krossferðin gegn kommúnismanum náði að lokum hápunkti í hátæknihernaði Ameríkana gegn hrísgrjónabændum í Vietnam, þar sem heimsveldið laut í fyrsta sinn í lægra haldi fyrir skæruliðum örbrigðarinnar. Þessi dæmi duga til að minna okkur á að það er sögufölsun að kalda stríðið hafi verið barátta góðs og ills, þar sem hið góða – hinn frjálsi heimur – hafði sigur.

3. ÁREKSTRAR MENNINGARSVÆÐA/TRÚARBRAGÐA

Kalda stríðinu lauk um áramótin 1991/92, þegar rauði fáninn með hamri og sigð var dreginn niður í hinsta sinn yfir turnspírum Kremlar og þjóðfáni Rússlands var dreginn að húni í staðinn. Var þá ekki hlutverki NATO lokið, um leið og Sovétríkin hættu að vera til? Fyrrum nýlenduþjóðir Sovétríkjanna tóku upp markaðshagkerfi og lýðræði og leituðu hver á fætur annarri athvarfs innan vébanda NATO og Evrópusambandsins. Hafði ekki lýðræðið sigrað?

Hver var óvinurinn, sem réttlætti áframhaldandi hernaðarbandalag? Rússland – sem var efnahagslegur dvergur – og upptekið af innri vandamálum vegna efnahagslegrar og pólitískrar upplausnar? Kína, sem hafði opnað Kínamúrinn fyrir innrás alþjóðlegs fjármagns og var á hraðleið til miðstýrðs kapítalisma? Og átti velgengni sína undir hindrunarlausum aðgangi að mörkuðum Bandaríkjanna? Var ekki óhætt að fara að ráðum Bush sr. og lýsa yfir sigri? Táknaði þetta e.t.v. endalok hugmyndafræðinnar, eins og Fukuyama boðaði? Var ekki “The New World Order” eftirmynd sigurvegarans, hins ameríska kapítalisma?

Eða voru framundan ný átök, sem byggðu fremur á “Clash of Civilizations”, eins og Samuel Huntington varaði við, fremur en hugmyndafræði 19du aldar? Stefndum við hraðbyri inn í 3ju heimsstyrjöldina, sem yrði eins konar trúarbragðastyrjöld – krossferð eða jihad – milli kristni og Islam? Hafði NATO – sem var eins konar heimavarnarlið V-Evrópu – einhverju hlutverki að gegna í þeirri krossferð? Mundu vígvellir framtíðarinnar vera í Mið-Austurlöndum, í Pakistan eða jafnvel upp til fjalla í Afganistan?

4. NATÓ SEM HEIMSLÖGREGLA: Í ÞJÓNUSTU HVERRA?

NATO var stofnað til þess að tryggja frið í Evrópu á tíma kalda stríðsins. Það hafði tekist – í skjóli bandarískra kjarnavopna – án þess að hleypa af skoti. Í hinum tvískipta heimi kalda stríðsins var NATO holdgerving Atlantshafstengslanna – “The Transatlantic Relationship” – milli gamla og nýja heimsins.En er nokkuð sjálfgefið að það haldi áfram í gerbreyttri heimsmynd? Ensk/ameríska vikuritið The Economist svarar þessari spurningu í umfjöllun um afmælisbarnið 60 ára, þann 28. mars s.l.:

“NATO is losing its role as the main forum for stragetic dialogue between America and Europe. The economic crisis is being dealt with in the G20; the threat of a nuclear Iran is being handled by a small club of six powers; the security of energy supplies from Russian is better addressed by the European Union; and intelligence cooperation against terrorism is done bilaterally. “Military operations have become our raison d´etre,” says one senior NATO insider, “I intervene, therefore I am”.”

Einu sinni var Henry Kissinger að vandræðast með það, hvert hann ætti að hringja, ef hann vildi hafa samband við Evrópu. Eftirmaður hans, Hillary Clinton, þarf ekki lengur að velkjast í vafa um það. Hún á að hringja í Evrópusambandið. Hvað á NATO þá að gera? Á NATO að vera einhvers konar heimslögregla? Í þjónustu hverra, með leyfi? Það vekur upp margar spurningar: Hver hefur beðið NATO um að taka að sér að halda uppi lögum og reglu í heiminum?

Sú var tíð að gömlu evrópsku nýlenduveldin töldu sig sjálfskipuð til að gegna því hlutverki. En þar kom að þau fengu sig fullsödd af því vanþakkláta starfi. Evrópa er núna post-colonial í sinni tilveru. Ameríska heimsveldið er hins vegar á hápunkti valds síns. Hnignunarskeiðið er framundan. Er það sjálfgefið að Evrópa vilji ráða sig sem málaliða til þess að vinna skítverkin fyrir ameríska heimsvaldasinna og þiggja fyrir molana, sem hrjóta af borðum húsbændanna? Qui bono? – spurðu Rómverjar forðum. Hverjum í hag?

Á diplómatísku dulmáli var einu sinni sagt að NATO hefði verið stofnað til þess að halda Bandaríkjunum inni. Þýskalandi niðri og Sovétríkjunum úti. Þetta er allt saman liðin tíð. Sovétríkin eru úr sögunni. Sameinað Þýskaland er forysturíki Evrópusambandsins. Og Bandaríkin eru heimsveldi, sem samkvæmt eigin hernaðarkenningu hafa sagt sig úr lögum við alþjóðasamfélagið og þurfa ekki á bandamönnum á halda.

Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar báru Bandaríkin ægishjálm yfir heiminn í krafti efnahagslegs og hernaðarlegs styrks. Bandaríska hagkerfið var helmingur heimshagkerfisins. Bandaríkin voru eina kjarnorkuveldið. Þetta er allt fyrir löngu breytt. Evrópa er löngu risin úr rústum. Evrópusambandið er jafnoki Bandaríkjanna á efnahagssviðinu og atkvæðameira í heimsviðskiptum. Evrópa hefur alla burði til að tryggja sjálf sitt innra og ytra öryggi.

Þá vaknar spurningin: Hvers vegna ætti sameinuð Evrópa að halda áfram að vera áhrifalaus undirverktaki Bandaríkjanna við stríðsrekstur þeirra á fjarlægum slóðum? Samrýmist það þjóðahagsmunum Evrópusambandsins? Ef ekki, þá á NATO, í sinni núverandi mynd, ekki framtíðina fyrir sér. Evrópa getur ekki verið verkfærakassi, sem Bandaríkjamenn grípa til út úr neyð, þegar þeim þóknast, en án samráðs. Annað hvort verður að semja upp á nýtt og þá á jafnréttisgrundvelli, með tilliti til gagnkvæmra hagsmuna beggja aðila, eða það er komið að leiðarlokum. Hér hlýtur “kalt hagsmunamat” að ráða, eins og þegar sjálfstæðismenn lýsa afstöðu sinni til Evrópusambandsins!

5. AMERÍKA OG EVRÓPA: AÐ VAXA Í SUNDUR…?

Á s.l. ári kom út athyglisvert safnrit eftir ameríska og evrópska sérfræðinga á sviði alþjóðamála, öryggis- og varnarmála og alþjóðaviðskipta undir heitinu: America and Europe in the 21st Century: Growing Apart? Höfundarnir færa fyrir því rök að það sé engan veginn sjálfgefið að grundvallarhagsmunir amerísks kapítalisma og evrópska velferðarríkisins ( e.The European Social Model) fari saman í framtíðinni. Hver ætti að vera hinn sameiginlegi óvinur, sem viðheldur fóstbræðralaginu?

Það er ekki tilviljun að þessar ríkjaheildir taka æ oftar ólíka afstöðu í leit að lausnum á helstu vandamálum samtímans. Það á við t.d. um loftslagsbreytingar af mannavöldum, verndun hins náttúrulega umhverfis, vaxandi misskiptingu auðs og tekna innan þjóðríkja og á heimsvísu, efnahagsaðstoð og þróunarhjálp, hernaðaruppbyggingu og valdveitingu í samskiptum þjóða. Íraksstríðið afhjúpaði þennan ágreining, sem mun ágerast ef að líkum lætur, að sögn höfunda. Afstaðan til Ísraels, sem er skjólstæðingsríki Bandaríkjanna, og til ofbeldisverka Ísraela á hernumdu svæðunum í Palestínu, er annað dæmi, þar sem þorri Evrópumanna hefur allt aðra afstöðu en bandarísk stjórnvöld.

Þessi grundvallarágreiningur, sem fræðimennirnir spá að muni fara ört vaxandi, endurspeglar þá staðreynd að þjóðarhagsmunir ameríska heimsveldisins annars vegar og Evrópusambandsins, í sinni post-colonial tilveru, hins vegar, fara æ sjaldnar saman. Spurningin er: Hvenær kemur að því að það sem sundrar vegur þyngra á vogarskálunum en það sem sameinar? Nýr forseti demókrata í Bandaríkjunum hefur uppi sýnilega tilburði til að snúa við þessu tafli tímans. En eins og Matthías Jóhannessen, skáld, rifjaði upp fyrir okkur um daginn af gefnu tilefni í Draumalandinu, þá er ekkert til sem heitir vinátta í alþjóðamálum – bara hagsmunir.

Og hvað með Ísland? Við erum ekki lengur á amerísku áhrifasvæði. Hvenær ætli Íslendingar manni sig upp í að horfast í augu við þá staðreynd, að við eigum í framtíðinni samleið með öðrum Norðurlandaþjóðum í svæðisbundnu samstarfi innan Evrópusambandsins? Það er spurningin um að þekkja sinn vitjunartíma.