En bíðið hæg: Eftirspurnin var næg, samstarfsaðilinn var fús og samkeppnishæfnin – lágt gengi krónunnar – í toppi. Samt gekk þetta ekki. Hvað var að? Vöntun á nothæfum gjaldmiðli, það er það sem var að. Hvorki seljandi né kaupandi treysti sér í fjárhættuspil með íslensku krónuna, eins og þeir orðuðu það sjálfir.Að vita ekki frá degi til dags, hvort evran kostar 88 krónur eða 250 krónur eða eitthvað þar á milli.
Þetta er vandi íslensku þjóðarinnar í hnotskurn. Þessi litla frétt segir meira en mörg orð. Hún segir vissulega meira en allt blaðrið sem hellt hefur verið yfir þjóðina í fjölmiðlaumræðunni fyrir kosningarnar á laugardaginn. Sá sem skilur, hvers vegna díllinn um bjórútflutning til Bretlands datt upp fyrir, skilur um leið, hvers vegna við verðum að byrja samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru strax – daginn eftir kosningar.
Hvað á ég við? Þetta er spurningin um það, hvernig störf verða til. Ef þú veist eitthvað um það, þá veistu hvernig á að útrýma atvinnuleysi. Ef störfum fjölgar og atvinnuleysi minnkar, þá verða til tekjur. Tekjur standa undir eftirspurn, sem kallar eftir framleiðslu, þjónustu og viðskiptum, sem skapar meiri tekjur. Það er svona sem Íslendingar þurfa að vinna sig út úr hruninu.Og það er einmitt það sem er ekki að gerast, eins og sagan um bjórdílinn, sem datt upp fyrir, sýnir í hnotskurn. Það er ekki að gerast af því að við höfum ekki nothæfan gjaldmiðil til þess að geta stundað viðskipti.
Hvernig verða störf til? Þau verða til í fyrirtækjum. Reynum að setja okkur í spor þeirra, sem eru að reyna að reka fyrirtæki á Íslandi í dag (og þar með að skapa störf). Að reka fyrirtæki byggist að lokum á áreiðanlegum upplýsingum. Viðskiptahugmynd er í reynd áætlun fram í tímann. Árangurinn fer eftir því, hvort áætlunin stenst eða ekki. Þú þarft að vita um verð á aðföngum og afurðum. Þú þarft að geta reitt þig á, að áætlanir um tekjur og gjöld standist. Þú þarft að vita, hver er greiðslubyrðin af skuldum. Auðvitað er hægt að fara nánar út í þessa sálma, en þetta nægir til að koma meiningunni til skila.
Ef þú veist ekki frá degi til dags, hverjar eru tekjur þínar eða gjöld, þá er tilraun þinni til að reyna að reka fyrirtæki rétt lýst: Fjárhættuspil. Fjárhættuspil er handa fíklum. Það á ekkert skylt við að reka fyrirtæki. Það er ekki hægt að reka fyrirtæki, hvað þá heldur að byggja upp traust fyrirtæki til langs tíma, nema á grundvelli stöðugleika. Samkeppnishæfni er lykilhugtak. Það skiptir ekki öllu máli, hvort þú framleiðir fyrir heimamarkað eða flytur út. Í hvoru tilvikinu sem er, þarftu að standast samkeppni. Og það gerir þú einfaldlega ekki með gjaldmiðil, sem heldur ekki gildi sínu frá degi til dags.
Ég lái ekki minni elskulegu þjóð, þótt hún hrynji ofan í djúpt þunglyndiskast við það að verða fórnarlamb auglýsingastríðsins og klisjukeppninnar, sem gengur undir nafninu kosningabarátta. Eru kjósendur einhverju nær um vitiborin svör við þessari einföldu spurningu: Hvernig á að búa til störf. 20 þúsund störf handa þeim sem þegar hafa misst vinnuna? Þúsundir annarra starfa handa unga fólkinu, sem kemur inn á vinnumarkaðinn á næstu árum? Vita menn ekki að fyrirtæki, sem eru sokkin í skuldir, þurfa endurfjármögnun? Vita menn ekki að til þess að fjárfesta í framleiðslutækjum, þarf aðgang að lánsfé? Vita menn ekki, að lánsfjármarkaðir eru Íslendingum lokaðir; að við njótum einskis lánstrausts; að erlent fjármagn er ófáanlegt að taka þátt í “fjárhættuspilinu?”
Vita menn ekki að það er ekkert ál á dagskrá? Vita menn ekki að eftirspurn eftir áli fer þverrandi og að álverð er hrunið? Vita menn ekki að pólitíkusarnir sem stýrðu Íslandi í hrun, munu ekki búa til nein ný störf? Vita menn ekki að það þýðir ekkert að hverfa aftur til fortíðar? Vita menn ekki að ríkisrekinn landbúnaður og skuldum hlaðinn sjávarútvegur munu hvorugt búa til þau störf, sem þarf til að halda hinum atvinnulausu í landinu? Sjá menn ekki, hversu aumkunarvert rifrildið í músarholunni er?
Skilja menn ekki að pólitík, sem hefur enga framtíðarsýn, er engin pólitík – heldur bara blaður? Er fólki ofviða að skilja að einmitt af því að það tekur tíma að semja um Evrópusambandið og að ávinna okkur rétt til að taka upp evru – einmitt þess vegna þurfum við að sækja um strax. Löng ferð byrjar á fyrsta skrefinu. Sá sem aldrei stígur fyrsta skrefið, fer aldrei í ferðalagið.