HVER SKULDAR HVERJUM?

Það veldur ýmsum áhyggjum, að kvótahafar innan LÍÚ segjast munu fara beint á hausinn, ef þeir þurfi að bjóða í 5% veiðiheimilda á árí á markaðsverði. Þetta kemur mönnum spánskt fyrir sjónir af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi vissu menn ekki betur en að kvótahafarkvótahafar væru nú þegar á dúndrandi hausnum. Ábyrgir aðilar hafa látið hafa eftir sér, að útgerðin sé skuldum hlaðin sem samsvari þrefaldri ársframleiðslu. Ástæðan er sögð vera sú, að útgerðamenn hafi slegið lán – innan lands en þó einkum utan – til að kaupa og leigja kvóta. M.ö.o. til að kaupa suma keppinauta út úr greininni og til að gera aðra að leiguliðum. Margir eiga bágt með að skilja, hvernig kvótahafarnir höfðu efni á þessu, en alls ekki hinu, að borga eiganda auðlindarinnar gjald fyrir nýtingarréttinn.

Erlendar skuldir útgerðarinnar hafa að sönnu tvöfaldast við hrun krónunnar. Þess vegna eiga ýmsir bágt með að skilja, hvers vegna LÍÚ stendur fyrir kostnaðarsamri herferð til að standa vörð um þennan hrunda gjaldmiðil, sem veldur því að þeir eru ekki lengur borgunarmenn fyrir skuldum. Skyldu þeir ekki hafa eitthvað annað og betra að gera við peningana sína, ef þeir ættu einhverja?

Þegar útgerðarmenn á sínum tíma fengu einkarétt til að nýta auðlindina – gríðarlega verðmæt forréttindi – án afgjalds, voru rökin þau, að þar með mundi útgerðarkostnaður snarlækka og arðsemi útgerðarfyrirtækjanna stóraukast. Þar fyrir utan myndu fiskistofnarnir braggast við takmarkaða sókn. Ekkert af þessu hefur staðist. Samt held ég að enginn hafi ímyndað sér það fyrirfram, að þeim mundi takast að sökkva fyrirtækjunum í botnlausar skuldir, þrátt fyrir meðgjöfina.

Sennilega eiga kvótahafarnir innan LÍÚ ekki annan kost betri, úr því sem komið er, til að losna úr skuldafangelsinu en þann að ganga í Evrópusambandið. Þar með mundu útgerðarfyrirtækin öðlast sama rétt og önnur fyrirtæki í landinu til þess að fjármagna sig með hlutafjárframlögum í stað þess að reiða sig eingöngu á lánsfé. Þeim mun skrýtnara er, að þessir sömu útgerðarmenn telja sig hafa efni á því að kosta dýran hræðsluáróður til þess að hræða stjórnmálamenn frá því að krefjast afgjalds fyrir nýtingarrétt á auðlindinni, f.h. eigandans, íslensku þjóðarinnar.

Ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið og erlendar fjárfestingar verða þar með leyfðar í sjávarútvegi, eins og í öðrum greinum, er eina leiðin til að tryggja að þjóðin njóti eðlilegs arðs fyrir leigu á nýtingarréttinum sú, að bjóða veiðileyfin upp á markaði. Fyrir eigandann – þjóðina – skiptir það þá litlu máli, hverjir bjóða best. Það sem skiptir máli er, að þjóðin fái í sinn hlut eðlilegan arð fyrir nýtingu auðlindarinnar. Ekki mun af veita til þess að þjóðin geti borgað upp allar þær skuldir, sem forréttindaliðið lagði henni á herðar á áratug frjálshyggjunnar. Vonandi mun vinstri stjórnin, sem tók við völdum í dag, ekki láta hræða sig frá því að standa við stefnu sína. Einu sinn var til flokkur sem hafði að kjörorði: “Gjör rétt – þol ei órétt”. Það er sérstök ástæða til að forða þessu spakmæli frá gleymsku.