Fyrst: verðtryggingin. Meginákvæði um hana er enn að finna í svokölluðum “Ólafslögum” frá árinu 1979. Lögin eru kennd við flutningsmann þeirra, Ólaf Jóhannesson. Hann var formaður Framsóknarflokksins, ekki Alþýðuflokksins.
Annað: Kvótinn: Ekki veit ég af hverju þú vilt ræna Halldór Ásgrímsson, fv. formann Framsóknarflokksins og sjávarútvegsráðherra (sá sem innleiddi kvótakerfið) þessu helsta framlagi hans til íslenskra stjórnmála. Þorvaldur Gylfason, prófessor, er einhver staðfastasti gagnrýnandi gjafakvótakerfisins frá upphafi vega í þjóðfélagsumræðunni. Hann á allt annað skilið en að vera sakaður um höfundarrétt að kvótakerfinu.
Þriðja: Þjóðareign á sjávarauðlindinni. Höfundur 1.gr. fiskveiðistjórnarlaganna um að fiskistofnar innan íslenskrar lögsögu séu sameign þjóðarinnar heitir Jón Sigurðsson, ráðherra Alþýðuflokksins í vinstristjórninni 1988-91. Þingflokkur Alþýðuflokksins gerði sameignarákvæðið að skilyrði fyrir því að samþykkja framlengingu kvótakerfisins 1988, sem meirihluti var fyrir á alþingi. Þegar knúið var á um framsal veiðiheimilda nokkrum árum síðar, settum við kratar það viðbótarskilyrði að síðari tíma breytingar á úthlutun veiðiheimilda (eins og nú stendur til í fyrsta sinn) myndu undir engum kringumstæðum baka ríkinu (skattgreiðendum) skaðabótaskyldu; þetta tvennt, sameignarákvæðið og áskilinn réttur til breytinga, án skaðabótarskyldu, eru þeir hornsteinar sem baráttan gegn gjafakvótakerfinu hefur hvílt á alla tíð síðan. Ef við kratar hefðum ekki beitt hörku til að fá þessi ákvæði inn í lögin (því að við höfðum ekki meirihlutafylgi á þingi fyrir þessum tillögum) , þá væri kvótinn fyrir löngu orðinn lögvarin eign útgerðarmanna og sjálfsagt stutt dómsúrskurðum í þokkabót.
Nú standa vonir til, að endanlegur sigur vinnist í þessu máli með því að koma þjóðareignarákvæðinu í stjórnarskrá. Eftir er að sjá, hvernig nýmyndaðri stjórn tekst til við afturköllun gjafakvótanna og endurúthlutun í samræmi við grundvallarreglur stjórnskipunarinnar um jafnræði fyrir lögum og atvinnufrelsi. Alla vega munu skattgreiðendur ekki þurfa að borga kvótahöfum skaðabætur fyrir afturköllun veiðiheimilda. Fyrir það geta þeir þakkað okkur krötum, eins og reyndar fyrir sjálft þjóðareignarákvæðið. Þú vegsamar þjóðareignarákvæðið, en lastar höfunda þess. Finnst þér það fara vel saman?
Með vinsemd,
JBH