SWINDLER´S LIST: HAGFRÆÐI EÐA HINDURVITNI?

Það er ekki óvenjuleg sjón nú til dags, að sjá viðskiptahölda leidda í handjárnum í tugthúsið – þ.e.a. s. á sjónvarpsskjám í Bandaríkjunum. Vísbendingarnar hrannast nú upp frá degi til dags um, að okkar menn hafi ekki gefið amerískum kollegum sínum neitt eftir í svindlinu.

Samt hefur enginn verið ákærður ennþá, hvað þá sakfelldur. Hvað dvelur réttvísina? “Slow justice is no justice”, segja Bretar. Það er of seint að bíða þangað til tætararnir hafa eytt öllum sönnunargöngunum, eins og Dr. William K. Black, hagfræðiprófessor við háskólann í Kansas City í Missouri, sagði í háskólafyrirlestri í Öskju s.l. mánudag, 11. maí.

Hagfræðiprófessorar kenna það, sem kunnugt er, í hundrað þúsund háskólum, að framboð og eftirspurn á samkeppnismörkuðum tryggi neytendum lægsta mögulega verð og þjóðfélaginu í heild bestu nýtingu framleiðsluþáttanna. Þeir sem tekið hafa blinda trú á óskeikulleika markaðanna, trúa því jafnframt, að bregði eitthvað út af lögmálinu um stund, þá leiðrétti markaðirnir sig sjálfir. Markaðirnir eru sagðir “self-regulating.” Það verður frægt í textabókum framtíðarinnar í fjármálafræðum, þegar Alan Greenspan, fv. seðlabankastjóri Bandaríkjanna (og talinn óskeikulll á sinni tíð) var dreginn fyrir þingnefnd og beðinn um að útskýra, hvers vegna helstu fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna (og þ.m.t. heimsins) væru hrunin, eða að hruni komin.

Guðinn sem brást

Greenspan gerði þá sögulega játningu. Hann sagði: Í 40 ár hef ég trúað því, að markaðirnir leiðrétti sig sjálfir. Ríkið þyrfti því ekki að setja þeim reglur eða hafa eftirlit með framgöngu fyrirtækja á markaði. Reglusetningin og íhlutunin væri ekki einasta óþarfi – heldur beinlínis skaðleg. Ég viðurkenni, að ég hef haft skelfilega rangt fyrir mér “I admit I´ve been terribly wrong.” Þessi sögulega játning ætti að vera innrömmuð uppi á vegg á kontórum allra fjármálaráðherra og seðlabankastjóra heimsins – þeim til áminningar.

Höfuðkenning frjálshyggjunnar, sem hefur verið ríkjandi rétttrúnaður í amerískri akademíu og pólitík s.l. 30 ár, er sem kunnugt er sú, að Ríkið sé ævinlega partur af vandanum, en aldrei partur af lausninni. Íhlutun ríkisins sé ævinlega af hinu illa, því að markaðirnir leiðrétti sig sjálfir. Þeir þurfi því hvorki á umferðarreglum né eftirliti að halda. Þess vegna beri að einkavæða og afnema reglur og eftirlit. Þess vegna beri að aflétta íþyngjandi sköttum á fyrirtæki og fjármagnseigendur. Þess vegna beri að veita fjárfestum og forstjórum fullt frelsi til athafna, því að það muni hámarka hagvöxtinn. Að vísu muni hinir ríku græða á tá og fingri. En það sé af hinu góða, því að fyrr en síðar muni auðurinn seytla niður til hinna snauðu og þurfandi. Það heitir “trickle-down” í fræðunum.

Við, lærisveinar Keynes, höfum löngum þóst vita, að þessi kenning væri svo sem engin hagvísindi, heldur þvert á móti hindurvitni í þágu hinna ofurríku. Hagsagan hefur líka sýnt það, að sú skoðun er rétt. Á fyrra tímibili frjálshyggjunnar, upp úr fyrra stríði, var markaðsöflunum gefinn laus taumurinn, reglur afnumdar og eftirlit skert. Það endaði í heimskreppunni, sem hófst 1929. New Deal Roosevelts byggði m.a. á því að skilja í sundur viðskiptabanka og áhættusjóði og að endurreisa regluverk og eftirlit. Norrænir sósíal-demókratar gerðu slíkt hið sama. Evrópa fylgdi í kjölfarið eftir seinna stríð. Því fylgdi einstakt blómaskeið í hagþróun Vesturlanda. Það var ekki einasta ör hagvöxtur, heldur varð tekju- og eignaskiptingin jafnari en áður hafði verið. Frjálshyggjuskeiðið, sem hófst með Reagan og Thatcher um 1980, sneri þessu öllu á hvolf. Kapítalistarnir fengu að leika lausum hala. Afleiðingin er ójafnaðarþjóðfélag og markaðshrun. Kapítalistarnir hafa því sem næst gengið af kapítalismanum dauðum.

Trúboð græðginnar

Dr. Black, sem mætti í Silfur Egils s.l. sunnudag og talaði í háskólanum í hádeginu á mánudag, hefur lagt fram athyglisverðan skerf til skýringar á þessum hrunadansi frjálshyggjunnar. Hann sýndi fram á, að hagfræðingum hefur láðst í kenningasmíð sinni að gera ráð fyrir því, að jafnvel góðir menn geti gert sig seka um illvirki, ef hvatningin til ódæðisverka er nægilega freistandi. Þetta er víst mannlegt eðli, segir sálfræðin.

Að vísu gerir hagfræðin ráð fyrir því, að menn láti stjórnast af hvötum (e. incentives). Í kapítalisku kerfi er það hlutverk kapítalistans að græða. Það þykir einkar lofsvert, af því að gert er ráð fyrir því, að með því að leggja rækt við eigingirni sína, geri kapítalistinn öðrum gott (skapi atvinnu og þar með eftirspurn). Allt frá dögum Adams Smith, hins skoska guðföður hagfræðinnar, hafa menn viljað trúa þessari undarlegu kenningu, að virkjun eigingirninnar leiði til góðs fyrir fjöldann.

Ef reynslan sýnir á hinn bóginn, að gróðahvötin geri kapítalistann að glæpamanni, sem skirrist einskis í gróðafíkn sinni; og að í leiðinni safnist gróðinn á æ færri hendur, á sama tíma og kjör alls þorra almennings fara versnandi – þá er illa komið fyrir kenningunni og kapítalismanum í leiðinni.

Það er nákvæmlega þetta sem Dr. Black hefur verið að rannsaka s.l. 40 ár. Kenning hans um f-orðið (e. fraud – á íslensku svindl) er sú að ef forstjórinn býr við ómótstæðilega hvatningu til að hlaða upp skammtímagróða, hvað svo sem það kostar, þá mun hann láta leiðast í freistni. Það er sérstök undirkenning í þessum fræðum (m.a. s. Nóbelsverðlaunuð), að því aðeins geti fjarmagnseigendur treyst forstjórum til að hámarka gróða sinn, að þeir hafi beinna hagsmuna að gæta í að hámarka verð hlutabréfa á kauphöllinni og þar með arð eigendanna. Þetta er gert með ofurlaunum, bónusum og sérstökum kauprétti á hlutabréfum á vildarkjörum.

Til hvers leiðir þetta? Það byrjar með því að hagræða bókhaldinu. Þeir fela skuldir og ýkja tekjur. Þeir múta meðstjórnendum til að taka þátt í leiknum. Svo magnast þetta stig af stigi. Fyrst er þetta á gráu svæði. Svo verður ekki aftur snúið. Loks er farið yfir landamæri hins löglega. Hluthafar fá rangar upplýsingar um raunverulega afkomu. Fjárfestar eru blekktir. Markaðsmisnotkun og innherjasvindl verður daglegt brauð. Fyrst er þetta áberandi í fjármálafyrirtækjnum. Vöxtur þeirra hefur reyndar verið svo ör s.l. tvo áratugi, að pappírsauðurinn er orðinn meira en tífaldur á við framleiðslustarfsemi heimsins. Um leið og regluverkið og eftirlitið var afnumið, blómstraði þessi iðja.

Blekkingaleikur

Hugvitsemin við að púsla saman fjármálapródúktum, sem byggðu á fölskum afkomutölum og skapandi bókhaldi, var takmarkalaus. Allt var þetta hátimbraða fjármálakerfi fyrir löngu orðið veruleikafirrt og byggt á blekkingarleik, sem höfundarnir sjálfir voru hættir að botna í. Þetta var spilaborg, þar sem græðgin leiddi trúgirnina sér við hönd í átt til glötunar.

Dæmin sem Dr. Black nefndi um það, hversu útbreitt svindlið er orðið í amerískri fjármálastarfsemi, eru legio. Eftirlitsstofnun, sem gerði úttekt skv. slembiúrtaki, á stóru veðlánasafni bandarískra banka, komst að þeirri niðurstöðu, að 80% af þessum fjármálaskuldbindingum voru beinlínis byggðar á svindli. Það breytti ekki því, að alþjóðlega virt matsfyrirtæki (eins og Standard & Poor´s, Moody´s og Fitch, etc.) höfðu gefið þessum sömu bankastofnunum mat upp á “triple A” – þrefalt A. Etir á kom á daginn, að þessi virðulegu matsfyrirtæki (sem eru sjálf kostuð af fjármálastofnununum) höfðu ekki haft fyrir því að líta á eitt einasta “skuldaportfólío.”

Þetta eru sömu eftirlitsstofnanirnar og gáfu íslensku bönkunum glimrandi heilbrigðisvottorð fram undir það síðasta, þótt þær vissu fullvel, að hvorki ríkisstjóður Íslands né seðlabankinn byggju yfir svo digrum gjaldeyrissjóðum, að dygði til að bjarga bönkunum, þegar þeir gætu ekki lengur vélað til sín sparifé almennings í Bretlandi og Hollandi til að endurfjármagna skuldasöfnin (eða til að fá sitt daglega fix, eins og það heitir á máli dópfíklanna).

Aftur til Keynes

Er svindl af þessu tagi undantekning frá reglunni? Við héldum það lengi vel í sakleysi okkar. Margur veit ekki lengur, hverju trúa skal. En dæmin sem Dr. Black tíundar í bókum sínum og fyrirlestrum benda til þess, að við séum ekki að tala um tilviljunarkennd frávik frá reglunni. Hann færir rök fyrir því, að svindlið sé hegðunarmynstur, sem sé kerfislægt. Frá og með því að stjórnvöld leggja af regluverk og eftirlit, verði svindlið að faraldri.

Þetta þýðir, að allt tal um fullkomna markaði er fásinna. Allt tal um, að frjáls samkeppni tryggi hagsmuni neytenda er bara huggunarsögur handa einfeldningum. Ef þeir sem svindla mest, ná bestum árangri, þýðir það að þeir, sem fara eftir leikreglunum, verða undir. Ef bókhaldi og afkomutölum er ekki að treysta er auðvelt að féfletta þá, sem ekki búa yfir réttum upplýsingum. Allt heila kerfið verður maðksmogið af spillingu. Óbeislað markaðskerfi leiðir að lokum til þess, að fjármagnið safnast á fáar hendur hinna ofurríku (1% framteljenda í Bandaríkjunum) á sama tíma og kjör almennings staðna eða rýrna að kaupmætti, eins og gerst hefur í Bandaríkjunum s.l. aldarfjórðung.

Siðferðilegt gjaldþrot frjálshyggjunnar er endanlega staðfest, þegar þeir sem einkavæddu gróðann krefjast nú þess, að tapið verði þjóðnýtt. Svarti maðurinn frá Chicago, sem nú situr í Hvíta húsinu, þar sem hann tók við þrotabúi frjálshyggjunnar úr hendi Bush ættarinnar, hefur nú ekki undan að moka almannafé ofan í botnlausa hít græðgiskapítalismans, sem hefur sett efnahagskerfi Bandaríkjanna og alls heimsins úr skorðum.

Barak Obama á nú tveggja kosta völ: Að freista þess að halda þessu hátimbraða fjármálakerfi áfram uppi með því að dæla í það almannafé í þeirri von að þannig megi halda uppi atvinnu og verðmætasköpun; eða að láta það riða til falls, eins og hverja aðra spilaborg, sem byggð var á sandi. Og hefjast síðan handa við að byggja upp nýtt kerfi á rústunum. Það eru fleiri en hann sem standa í sömu sporum. En hvora leiðina sem menn fara, þá er eitt víst: Leiðsögnina út úr ógöngunum er ekki að finna í hugmyndafræðikreddum frjálshyggjupostulanna, sem kenndar hafa verið sem vísindi á undanförnum áratugum. Nær væri að dusta rykið af Keynes og rifja upp afrek Roosevelts í New Deal.