OPIÐ BRÉF TIL VIÐSKPTARÁÐHERRA

Herra viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon.

Um leið og ég óska þér persónulega velfarnaðar í embætti viðskiptaráðherra – og síðar meir efnahagsmálaráðherra – nýrrar ríkisstjórnar, vil ég leyfa mér að vekja athygli þína á grein eftir Ólaf Arnarson, sem birtist í vefritinu “Pressan.is” í gær, fimmtudag. Í greininni eru settar fram fullyrðingar, sem varða mjög almannahag í ríkjandi neyðarástandi. Fullyrðingarnar eru þess eðlis, að miklu varðar að fá trúverðug svör um sannleiksgildi þeirra. Þær varða líka beinlínis afkomu þúsunda heimila og fyritækja í landinu og þar með þjóðarhag. Allar varða þessar spurningar málasvið, sem ég fæ ekki betur séð en heyri undir þitt ráðuneyti, sem ráðuneyti bankamála.

Höfundur fyrrnefndrar greinar, Ólafur Arnarson, hefur starfað hjá innlendum og erlendum fjármálafyrirtækjum. Hann gaf nýlega út bók um hrun íslenska fjármálakerfisins undir heitinu: Sofandi að feigðarósi. Að sögn útgefanda hans er þekkingu Ólafs og reynslu á sviði alþjóðafjármála viðbrugðið. Mér sýnist því ærin ástæða til að taka fullyrðingar Ólafs í fyrrnefndri grein alvarlega. Þar sem það getur skipt sköpum um afkomu og framtíðarhag fjölda heimila og fyrirtækja í landinu, hvort fullyrðingar Ólafs reynast sannleikanum samkvæmar eða ekki, leyfi ég mér að beina til þín eftirfarandi spurningum með beiðni um svör við fyrstu hentugleika.

Er það satt :

  • að megnið af þeim skuldabréfum, sem á sínum tíma voru gefin út af gömlu bönkunum og seld erlendum bönkum hafi “runnið inn í lánavafninga”, sem síðan voru seldir áfram á alþjóðlegum fjármálamörkuðum?
  • að hinir erlendu bankar (að sögn mestan part þýskir), sem lánuðu gömlu bönkunum með áðurnefndum skuldabréfakaupum, séu því skaðlausir og eigi lítið eftir af þessum skuldakröfum í sinni eigu?
  • að hinir erlendu bankar hafi selt fyrrnefnda “lánavafninga” til fjárfestingasjóða af ýmsu tagi?
  • að umræddir sjóðir, sem áttu íslensk bankaskuldabréf, hafi afskrifað þau nú þegar?
  • að “spákaupmenn” hafi í stórum stíl keypt þessi íslensku bankaskuldabréf fyrir slikk á eins konar brunaútsölu?
  • að núverandi eigendur þessara bréfa og þar með kröfuhafar á gömlu bankana séu því spákaupmenn, “sem keyptu bréfin á kannski tvær krónur fyrir hverjar hundrað”?

Fyrrgreindar spurningar varða fullyrðingar, sem settar eru fram í grein Ólafs. Því til viðbótar leyfi ég mér að bæta við tveimur spurningum:

  • Eru þessar fullyrðingar um löngu áorðnar afskriftir skulda gömlu bankanna af hálfu upphaflegra lánveitenda þeirra sannleikanum samkvæmar?
  • Reynist þessar fullyrðingar réttar, hvaða ályktanir má draga af því um áorðnar afskriftir á erlendum skuldum íslenskra heimila og fyrirtækja, sem áformað er að færist yfir til nýju bankanna?

Í beinu framhaldi af þessum spurningum vek ég athygli þína á eftirfarandi fullyrðingu greinarhöfundar og bið þig að svara henni opinberlega, af því að svarið hlýtur að varða allan almenning í landinu. Ólafur segir í grein sinni eftirfarandi:

“ Það skýtur því skökku við, þegar viðskiptaráðherra Íslands gengur fram fyrir skjöldu og gerir að sínu hjartans máli, að ekki megi afskrifa eina einustu krónu af skuldum Íslendinga – þ.e. okkar sem sitjum uppi með lánin, sem hafa a.m.k. tvöfaldast á meðan eignirnar hafa fallið í verði um helming. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, krefst þess að við borgum í topp lánin til spákaupmannanna, sem keyptu þau á brotabroti af nafnvirði – ekki til þeirra sem lánuðu okkur peningana, því þeir eru þegar búnir að tapa sínum peningum (leturbreyting mín). Spákaupmennirnir eru þeir hinir sömu og léku sér með krónuna og veðjuðu á fall Íslands. Þeir græddu á falli Íslands og nú vill Gylfi að skuldsettur almenningur á Íslandi tryggi þessum sömu “Íslandsvinum” glæpsamlegan hagnað með því að fjármagna á nýju bankana á herðum þeirra, sem mest hafa tapað á hruninu – nefnilega á herðum íslenskra fjölskyldna”.

Ég tel miklu varða, að almenningur í landinu fái skýr svör frá þér, sem yfirmanni bankamála, við fyrrgreindum fyrirspurnum mínum í tilefni af fullyrðingum greinarhöfundar. Umræðan varðar svo brýna hagsmuni svo margra, að ólíðandi er annað en að hún byggi á staðreyndum.

Með vinsemd og virðingu,
Jón Baldvin Hannibalsson
fv. ráðherra
jbh.is