ÆTLAR RÍKIÐ AÐ BORGA ÞAÐ SEM MARKAÐURINN AFSKRIFAR?

Orðaskipti okkar Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, um áorðnar afskriftir á markaði á skuldum gömlu bankanna, hafa leitt til líflegra skoðanaskipta. Ólafur Arnarson hefur fullyrt, að skuldabréf gömlu bankanna hafi lent í ýmsum vafningum og gengið kaupum og sölum á MARKAÐNUM með gríðarlegum afföllum. Janfvel túkall fyrir hundraðkallinn.

Gylfi ráðherra svarar þessu upp á kiljönsku á þann veg, að hann geti ekki undanþegið “vont fólk” frá stjórnarskrárvörðum “eignarétti sínum”. Skuldabréf eru sem sé skuldabréf. Eigandi skuldabréfs, sem MARKAÐRUINN hefur verðfellt, hefur ekki verið sviptur neinum eignarétti. Hann tók áhættu og tapaði. Það er lögmál markaðarins.
Þótt spákaupmaðurinn kaupi hundraðkrónubréf fyrir túkall á MARKAÐNUM , er hið lögfræðilega sjónarmið eftir sem áður, að hinn upphaflegi samningur (“contract”) haldi gildi sínu – þótt heimurinn hrynji og MARKAÐURINN segi allt annað. Hingað til hafa hagfræðingar hallast að því, að handafl stjórnvalda komi fyrir lítið, ef það er í blóra við verðmyndun MARKAÐARINS. MARKAÐURINN blívur.

Ungfrú Lísa tók að sér að útskýra þessa lögfræði fyrir Dísu Bach. Ég geri enga athugasemd við lögfræðina. Ég geri bara athugasemd við tvennt: Í fyrsta lagi voru gömlu bankarnir, íslensku, einkafyrirtæki sem fóru á hausinn. Þeir eru núna þrotabú undir ráðstjórn skiptaráðenda. Það eru nokkrir hlutir alveg á hreinu varðandi gömlu bankana – meira að segja líka lögfræðilega. Þeir voru einkabankar, ekki ríkisbankar.

Þeir nutu ekki ríkisábyrgðar. Þeir voru áhættusæknir fjárfestingarsjóðir, sem sökktu sér í skuldir. Skuldir bankanna voru á ábyrgð hluthafa þeirra, ekki ríkisins. Það er af því að þeir voru einkavæddir á sínum tíma – þar með færðist ábyrgðin af ríkinu til eigenda þeirra. Eigendur þeirra tóku mikla áhættu og græddu mikið. Þeir urðu ofurríkir. Sá gróði er falinn í flóknum vef eignarhaldsfélaga, utan íslenskrar skattheimtu og lögsögu. Eftir stendur: Alveg eins og gróðinn var einkavæddur, á tapið að vera einkavætt. Íslenska ríkið, íslenskir skattgreiðendur, íslenskur almenningur átti ekki þessa banka, stofnaði ekki til skulda þeirra, bar ekki ábyrgð á rekstri þeirra og á ekki að sitja uppi með skuldir þeirra.

Lögfræðiskruddan kveður á um, að skuldabréf sé skuldabréf. Hagfræðiskruddan kennir, að verð slíkra bréfa ráðist endanlega á MARKAÐNUM. Ef MARKAÐURINN verðfellir bréfin – þá er fátt annað um það að segja en “so be it.” Ef íslenska ríkið ætlar í nafni umbjóðenda sinna, íslenskra skattgreiðenda, að eiga viðskipti við kröfuhafa gömlu bankanna ( þessa sem keyptu hundrað -krónu-bréfin á túkall) , þá ætlumst við til þess, að þau viðskipti fari fram á markaðsverði. Ella væri ríkið að láta spekúlanta (“vonda fólkið hans Gylfa”) hafa íslenska skattgreiðendur að féþúfu. Það er ekki flóknara en það.

Umbjóðendur viðskiptaráðherra, íslenskur almenningur og skattgreiðendur, bíða eftir svari.

Sjá umræður á eyjan.is