HEIMSSÝN – ÞRÖNGSÝN?

Hvað eiga þeir sameiginlegt, Hannes Hólmsteinn og Hjörleifur Guttormsson? Eða Ragnar Arnalds og Pétur Blöndal? Þeir eru allir í Heimssýn., samtökum þjóðernissinna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar sameinast það sem sumir kalla últra-vinstrið og öfga-hægrið í einum söfnuði – gegn sameiginlegum óvini. Það segir sína sögu. Ég hef stundum leyft mér að hafa þetta pólitíska skyndibrúðkaup öfganna í flimtingum og sagt, að selskapurinn ætti að heita Þröngsýn. Við áberandi daufar undirtektir minna gömlu bekkjarbræðra, Ragnars og Styrmis.

Heimssýn hélt fund í háskólanum í hádeginu í gær. Tilefnið var, að norskir trúboðar að nafni Seierstad og Lindblad frá norsku Nei-hreyfingunni voru mættir til að segja okkur, hvers vegna Norðmenn hafa í tvígang (1972 og 1994) hafnað aðildarsamningum við Evrópusambandið. Frændur okkar, Norðmenn, eru sér á báti meðal smáþjóða Evrópu að þessu leyti.

Mér lék nokkur forvitni á að vita, hvort ég fyndi til skyldleika við þessa sérvitringa fyrir hönd landa minna (sem eru að vísu bara norskir í aðra ættina, en keltneskir í hina og í bland við fleiri þjóðir). Seierstad, sem hafði orð fyrir þeim félögum, kom mér afskaplega vel fyrir sjónir. Hann var hlýlegur, kannski ögn þreytulegur, gamall sósíalisti, sem vill berjast fyrir frelsi hins vinnandi manns gegn auðvaldinu og attaníossum þess. Ég er eiginlega alveg sammála honum. Ég held að það eina sem okkur greinir á um sé leiðirnar – en um það snýst víst allur pólitískur ágreiningur, þegar öllu er á botninn hvolft.

Eftir að hafa hlustað grannt á Seierstad og hugleitt málflutning hans, þarf ég ekki lengur að velkjast í vafa um, hvers vegna meiri hluti íbúa hins aflanga Noregs er á móti því að binda trúss sitt við afganginn af Evrópu. Svarið felst í fjögurra stafa orði: Olíu. Noregur er hið óviðjafnanlega olíufurstadæmi Norðursins. Eftir að hafa dælt upp svarta gullinu úti fyrir ströndum Noregs eitthvað á 4ða áratug, eru Norðmenn orðnir svo ríkir, að þeir vita ekki lengur aura sinna tal. Þeir hafa fyrir löngu greitt upp alla sínar skuldir. Fjárfestingar olíuauðsins í útlöndum skila drjúgum arði linnulaust í ríkiskassa og þjóðarbú.

Á allra seinustu árum hefur eftirspurnin eftir olíu og gasi vaxið jafnt og þétt langt fram úr framboðinu. Þetta þýðir, að dollarar, evrur og yen hafa hlaðist upp í fjárhirslum olíuauðvaldsins, hvort heldur er hjá Putin Kremlarbónda eða konungsættunum í Saudi-Arabíu – og Noregi.

Þetta þýðir m.a., eins og Seierstad sýndi fram á, að hagsveifla olíuauðsins gengur þvert á hagsveiflu Evrulands. Þeim mun dýrari sem olían verður, þeim mun ríkari verður Noregur og þeim mun sterkari verður norska krónan. Í Evrulandi eru flestar aðildarþjóðirnar háðar innflutningi á olíu og gasi. Þeim mun dýrara sem svarta gullið verður, þeim mun meira verða Evrópubúar að borga og þeim mun óhagstæðari verður þeirra viðskiptajöfnuður. Það þarf eiginlega ekki að segja neitt meira til að útskýra, að Noregur á ekkert erindi í Evrópusambandið.

Þegar Norðmenn þurfa að hækka vextina til að draga úr þensluáhrifum olíuauðsins, þarf Evruland að lækka þá til að örva framleiðsluna. Þetta tvennt fer ekki saman. Þar að auki er olíufurstadæmið norska svo moldríkt, að það yrði að reiða fram fúlgur fjár til að lyfta lífskjörum fátækari Evrópubúa upp í átt til lífskjara hinna ríku Norðmanna. Það er eins konar sósíalismi – jafnaðarstefna. Og sannleikurinn er sá, að það eru afskaplega fáir sósíalistar í reynd, þegar þeir þurfa að opna budduna til að sýna það í verki. Seierstad er að sönnu sósíalist í orði. Mér er hins vegar til efs, að forstjóri Statoil tilheyri bræðalaginu.

Menn geta velt því fyrir sér, hvort meirihluti Norðmanna væri jafn staffírugur gegn aðild að Evrópusambandinu, ef það væri jafnilla fyrir Norðmönnum komið og hinum fjarlægu frændum þeirra á sögueynni. Ætli Norðmenn myndu ekki hugsa sig um tvisvar, ef þeir væru sokknir í skuldir; ef þeir þyrftu að fara með betlistaf í hendi til grannríkja og fjölþjóðasamtaka til þess að biðja um endurfjármögnun skulda eða bara um lánstraust frá degi til dags vegna innflutnings á nauðþurftum; ef meginið af norskum fyrirtækjum væri úrskurðað “tæknilega gjaldþrota”; ef skuldir fyrirtækja og heimila hefðu tvöfaldast í einu vettvangi vegna gengisfalls norsku krónunnar.

Varla mundi það bæta úr skák, ef Norðmenn yrðu að búa við gjaldeyrisskömmtun og gjaldeyrishöft; ef norsk fyrirtæki og heimili yrðu að borga nær 20% vexti af skuldum sínum á sama tíma og grannþjóðir borguðu um 5%; ef forráðamenn norska velferðarríkisins yrðu að skera velferðarþjónustuna – þ.m.t. heilbrigðisþjónustu og menntakerfi inn að beini, á sama tíma og Norðmenn yrðu að taka á sig verulega skattahækkun, þrátt fyrir kaupmáttarhrun. M.ö.o. ef Noregur væri ekki olíufurstadæmi heldur “a failed economic state” – eða eins konar fátækranýlenda, eins og Ísland kallast nú í fréttunum hjá þeim á BBC World. Ætli það myndi ekki kveða við annan tón?

Íslendingar og Normenn eru býsna ólíkar þjóðir, þrátt fyrir sameiginlegan uppruna. Seierstad sagði okkur dæmisögu af ömmu sinni, sem skýrir þennan mun að sínu leyti. Amma var, að hans sögn, sannkristin kona. Hún hafði sérstaka stofu í sínum húsakynnum, þangað sem heimilisfólkið steig aldrei fæti inn fyrir dyr. Þangað kom bara sannkristið fólk, sem sóttist eftir félagsskap hvers annars til þess að stunda bíblíulestur á hvíldardögum – án milligöngu preláta.

Í dæmisögunni var kirkjan Evrópusamband (establishment) þeirra tíma, en amma og hennar bíblíufróðu vinir táknmynd almennings, sem var sjálfstæður í hugsun og hafnaði leiðsögn preláta kirkjunnar. Gallinn er bara sá, að Norðmenn þáðu biblíuna á dönsku og lásu því sitt guðsorð á mállýsku herraþjóðarinnar, með kunnum afleiðingum fyrir norska tungu. Það má segja Íslendingum til hróss, að þeir þýddu sitt danska guðsorð á íslensku og hafa þar með trúlega bjargað sameiginlegri tungu og menningararfi norrænna þjóða frá glötun. Reyndar held ég, að við lítum enn á Jón Arason og syni hans sem píslarvotta hinnar dönsku kirkju og tökum hana því mátulega alvarlega enn í dag. Þessi veraldlega efahyggja virðist reyndar eiga meira skylt við hugarfar margra þjóða Evrulanda en hið norskættaða heimatrúboð.