Svar til Þorsteins Helga

Heill og sæll, Þorsteinn Helgi:
Það gleður mig að heyra frá frænda, sem ég geng út frá að beri nafn sr. Þorsteins í Vatnsfirði og Helga í Dal. Er það rétt til getið? Mér sýnist af þinni orðsendingu, að við verðum að sætta okkur við að vera sammála um að vera ósammála, þrátt fyrir frændsemina. Og allt í lagi með það af minni hálfu.

Það er satt sem þú segir, að ESB mun ekki borga fyrir okkur; líka að við verðum “sjálf að vinna okkur út úr þessu”. Það sem okkur greinir á um er, hvernig það verði best gert. Ég tel, að okkur sé fyrir bestu að byggja upp fjölbreytt þjóðfélag, sem skapar störf fyrir vel menntað fólk í hagkerfi sem er opið og virkur þátttakandi í alþjóðaviðskiptum. Forsendan fyrir því að byggja upp þjóðfélag af þessu tagi er stöðugleiki. Þennan stöðugleika tryggjum við best með þátttöku í stærra myntsvæði.

Vegna þátttöku okkar í innri markaði ESB gegnum EES er þátttaka í evrusvæðinu hin rökrétta niðurstaða. Hinn kosturinn er að sætta sig við áframhaldandi gengissveiflur og óstöðugleika. Það útilokar, að hér vaxi og dafni fjölbreytt atvinnulíf, sem þrífst ekki nema við lágmarks stöðugleika. Hagsveifla fiskihagkerfisins verður þá ráðandi um þróunina, eins og við þekkjum úr fortíðinni. Til þess að draga úr skaðvænlegum áhrifum gengisfellinga krónunnar verður nauðsynlegt að loka hagkerfinu, þ.e.a.s. taka upp viðvarandi gjaldeyrishöft og skömmtun.

Í þjóðfélagi af þessu tagi verða ekki til störf við hæfi þess fólks, sem við erum að mennta til þátttöku í fjölbreyttu þjóðfélagi. Sjávarútvegur og landbúnaður munu ekki skapa störf handa þessu fólki. Þetta fólk mun því greiða atkvæði með fótunum gegn slíkri þjóðfélagstilraun og hverfa af landi brott. Þess vegna tel ég að þetta sé ekki raunverulegur kostur, heldur veruleikafirring eða draumórar.

Ég viðurkenni, að það mun taka tíma áður en hagsveiflan íslenska verður samhverf evrusvæðinu. Það gerist smám saman með þátttöku í innri markaðnum og uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs. Stöðugleikinn fæst ekki án fórna.Við fórnum gengisfellingarvopninu af því að við viljum ekki búa við ófyrirséðar kollsteypur í efnahagslífinu. Í staðinn fyrir gengisfellingu verðum við að beita öðrum ráðum til að vega upp á móti áhrifum hagsveiflunnar (business cycle) eða ytri áföllum. Það verður ekki gert með neinum patentlausnum eða töfraformúlum. Það kallar á samræmda og agaða hagstjórn, þar sem helstu stjórntækin eru ríkisfjármál ( skatta- og útgjaldastig) og virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Tilgangurinn með öllu þessu basli er að finna réttu leiðina til að tryggja Íslendingum lífskjör, sem eru sambærileg við þau sem grannþjóðir okkar búa við.

Með bestu kveðjum, Jón Baldvin

P.s. Þú ert sennilega of bjartsýnn, þegar þú gerir ráð fyrir að það muni bara taka okkur 2-3 ár að ná okkur aftur á strik. Ástandið á sýnilega eftir að versna verulega, áður en það fer að batna á ný. Bankakerfið verður ekki endurreist á grundvelli hundrað prósent innheimtu skulda af gjaldþrota heimilum og fyrirtækjum. Fyrirsjáanlegur viðskiptajöfnuður dugar ekki einu sinni fyrir vöxtum af skuldum. Það er þess vegna sem við þurfum að semja við lánardrottna, við aðildarþjóðir ESB og við ESB, um greiðslukjör á skuldum og stuðning við veikburða gjaldmiðil í millibilsástandinu, áður en við getum fastbundið krónuna við evruna.
Sami