COMMUNIST UTOPIA EÐA DRAUMALANDIÐ?

Vofa gengur ljósum logum um Evrópu. Vofa kommúnismans. Var það ekki einhvern veginn svona, sem Kommúnistaávarpið byrjar? Og nú er það komið aftur í tísku. Því til staðfestingar er troðfullur salur 102 á Háskólatorgi í gærkvöldi til að hlusta á nýja spámenn, þá Negri og Hardt – Ítala af skóla Gramscis og amerískan lærisvein hans af ítölskum uppruna, greinilega – sem voru mættir til þess að boða fagnaðarerindið strandaglópum frjálshyggjunnar á Íslandi. Fyrir gamlan marxista var þetta eins og að hverfa aftur á vit bernskunnar; að færast aftur í tímann um circa hálfa öld eða svo. Get ég mér rétt til um það að fyrir hrun hefðu kannski mátt búast við að tuttugu sálir eða svo hefðu sýnt sig á safnaðarfundi hjá nihilistum? En nú er öldin önnur. Kapítalisminn er hruninn. Vofa kommúnismans gengur aftur ljósum logum. Marx er kominn í tísku. Kannski er útópía kommúnismans einmitt hér og nú.

Á fundinum stóð upp ung stúlka og sagði fundarmönnum þau tíðindi, að hún hefði nýlega farið á verkstæði hjá bílaumboði með bílinn sinn, sem þarfnaðist viðgerðar. Þegar hún heyrði verðið á varahlutunum, varð henni á að spyrja: Hver á þetta verkstæði? Og svarið sem hún fékk var: Ég og þú, mín kæra. Sumsé: Einkaeignarrétturinn er farinn veg allrar veraldar. Framleiðslutækin (fyrirtækin) eru í höndum ríkisins. Öll völd eru hjá sovétinu – rétt eins og Lenin sagði. Sjálft kapítalið – bankarnir – hefur verið þjóðnýtt. Að vísu er það bara skuldirnar, sem kapítalistarnir skildu eftir sig. En það er sama. Eins og Hardt rifjaði upp fyrir fundargestum, þá er hin sígilda skilgreining kommúnismans: “Afnám einkaeignarréttar – þjóðnýting framleiðslutækjanna.” Er þetta ekki bara búið og gert? Og meðan ég man: Var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn, sem lét það verða sitt síðasta verk, rétt áður en hann hrökklaðist út úr stjórnarráðinu, að setja neyðarlög um allsherjar þjóðnýtingu og öll völd til ríkisins? Ég veit ekki betur.

Kannski hafa ekki allir, sem þessar línur lesa, eins rómantískar minningar um marxiska draumsýn frá unglingsárum og ég. Og þótt það hafi kostað mig ærna fyrirhöfn að aflæra þessi fræði á mennta- og háskólaárum, þá hefur einhver kjarni ævinlega setið eftir, enda blívur virðing mín fyrir gamla manninum, hvernig svo sem vandalausir menn hafa komið óorði á kenninguna með því að kenna ódæðisverk sín ranglega við Marx. Ég minninst þess enn, þegar ég sagði mig úr skóla í 5. bekk út af allsherjar leiðindum og sat við x tíma á dag að stauta mig fram úr fyrsta bindi kapítalsins áensku í Everyman útgáfu, milli þess sem ég tók lotur á Bela Bartok á píanóið. Þetta var óneitanlega meiri upplifun en að sitja við að beygja óreglulegar sagnir á fimm tungumálum í Lærða skólanum; og meiri upplifun en að þjösnast í gegnum skyldulesningu á Samuelson í hagfræði 101 í Edinborg árið eftir stúdentspróf og lengsta saltfisktúr sögunnar á Gerpi forðum daga.

Að því er varðar praktíska pólitík er rétt að geta þess að Negri er tær alþjóðasinni og á nákvæmlega ekkert skylt við þá forpokuðu þjóðernissinna, sem hér á landi þykjast kenna sig við róttækni, sem birtist aðallega í upphafningu eigin þjóðernis og tortryggni gagnvart nauðsynlegum bandamönnum í útlöndum. Þetta kom vel fram í svörum Negris við spurningum mínum á fundinum um stöðu þjóðríkja, áhrif hnattvæðingar og gildi hefðbundinnar alþjóðahyggju sósíalista: Öreigar allra landa – sameinist! Þið hafið engu að týna nema hlekkjunum!

Negri lítur á hnattvæðinguna sem óumflýjanlega (e. irreversible) og um margt jákvæða út frá bæjardyrum andstæðinga auðvaldsins séð. Hann kveður skýrt á um hnignun þjóðríkisins, sem lýsir sér í því að þau standa ekki framar á eigin fótum í samhengi efnahags- og stjórnmála, hvað þá heldur umhverfis- og menningarmála. Hann sér það fyrir, að heimurinn mun þróast í náinni framtíð upp í svæðisbundin samtök eins og t.d. Suður- og Norður-Ameríku, Evrópu, Austur-Asíu og s.frv.. Ég fæ ekki betur séð en að Negri sé Evrópusinni og fylgjandi sameiningu Evrópu innan Evrópusambandsins á forsendum sem eru ekkert ósvipaðar mínum. Væri ekki ráð að fá hann til að halda námskeið fyrir þingflokk Vinstri grænna – helst áður en sumarþingi lýkur?

Fyrir þá sem vilja forvitnast um Marx og erindi hans við samtímann er auðvitað best að byrja bara á kommúnistaávarpinu í nýrri útgáfu á þýðingu Sverris Kristjánssonar og reyna síðan við sjálft kapítalið. Enn í dag hefur enginn lýst innbyggðum kreppum kapítalismans betur en Marx sjálfur. Margt af því sem þar stendur skrifað er einfaldlega eins og samtímalýsing. En ef menn halda, að aðrir geti bætt um betur, þá sakar ekki að kíkja í doðranta gestanna frá í gær, þeirra Negris og Hardts. Bækurnar heita Empire og Multitude. Ég trúi ekki öðru en Bóksala stúdenta hafi haft veður af þessum verkum. Og svo er hægt að halda námskeiðinu áfram með því að leggja hlustir við Peter Hallward í 101 Odda, fimmtudaginn 11. júní, kl. 17 – og þá ekki síður að heyra Chantal Mouffe tala um róttæka pólitík fyrir okkar tíma á 102 Háskólatorginu, laugardaginn 13. júní, kl. 14.
Góða skemmtun.