AF SKÚRKUM OG FÓRNARLÖMBUM ICESAVE-MÁLSINS

VEI YÐUR, ÞÉR HRÆSNARAR.
Hvað svo sem mönnum finnst um samningsniðurstöðuna í Icesave-málinu, þá er eitt víst: Stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn, ættu síst af öllum að þykjast þess umkomnir að gagnrýna núverandi ríkisstjórn, hvað þá heldur núv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, fyrir að hafa haldið illa á málum eða fyrir að hafa lagt drápsklyfjar á þjóðina að ósekju.

Núverandi ríkisstjórn hafði enga samningsstöðu í þessu máli. Ábyrgðin á þessu klúðri er ekki hennar, heldur forvera hennar. Stjórnarandstaðan (að Borgarahreyfingunni undanskilinni) ætti því að sjá sóma sinn í að þegja. Og að hafa hægt um sig á næstunni.

Þegar menn gera upp hug sinn um samningsniðurstöðuna er nauðsynlegt að hafa í huga eftirfarandi aðalatriði málsins:

1. Hver var ábyrgð ríkisins lögum samkvæmt? Með neyðarlögunum sem samþykkt voru á Alþingi 6. október, 2008, tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, undir forystu Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fulla og ótakmarkaða ábyrgð á sparifjárinnistæðum íslenskra banka. Þetta var gert til að afstýra “run on the banks”, þ.e. til að koma í veg fyrir að sparifjáreigendur myndu tæma bankana. Þessi lög giltu um alla íslensku bankana og þ.m.t. útibú þeirra, hvar svo sem þau voru staðsett. Hafi nokkur vafi leikið á um ábyrgð ríkisins á sparifjárinnistæðum í íslenskum bönkum áður, þá var þeim vafa eytt að fullu og öllu með neyðarlögunum.

2. Jú, en hafa ekki nafngreindir íslenskir lögfræðingar fullyrt, að skv. EES-samningnum takmarkist ábyrgð ríkisins við þá upphæð sem er að finna í tryggingasjóði innistæðueigenda? Þessi lagaskýring er vægast sagt ómarktæk, þ.e.a.s. þeir aðilar fyrirfinnast ekki innan lands né utan, sem taka mark á henni. Sá dómstóll er heldur ekki fyrirfinnanlegur, sem myndi taka mark á svona rökstuðningi. Ástæðurnar eru margar, en þessar helstar:

•Reglur Evrópusambandsins(sem einnig gilda á EES-svæðinu) kveða á um innistæðutryggingu sparifjáreigenda að upphæð 20.887 evrur. Einstök aðildarríki mega ganga lengra, en þetta er lágmark. Sú ófrávikjanlega grundvallarregla gildir innan Evrópusambandsins, að óheimilt er með öllu að mismuna einstaklingum eða lögaðilum á grundvelli þjóðernis. Á þessu leikur ekki minnsti vafi. Að settum neyðarlögum var það því frá upphafi hafið yfir allan vafa, að íslenska ríkið væri ábyrgt fyrir sparifjártryggingu íslenskra banka, hvar svo sem þeir væru starfandi. Það hefur aldrei leikið nokkur vafi á þessu grundvallaratriði. Forstöðumönnum Lansbankans og íslenskum stjórnvöldum var þetta fullkomlega ljóst frá upphafi.

3. Er það rétt að með EES-samningnum hafi íslensk stjórnvöld fyrst skuldbundið sig til að veita sparifjáreigendum innistæðutryggingu? Nánast allar þjóðir hafa lögleitt einhvers konar innistæðutryggingu sparifjáreigenda. Það regluverk, sem Íslendingar yfirtóku með EES-samningnum, kveður m.a. á um eftirfarandi: Lágmarksinnistæðutrygging sparifjáreigenda (20.887 evrur) er í gildi á svæðinu öllu. Innistæðutryggingin er á ábyrgð heimalandsins en ekki gistiríkisins. Útibú Landsbankans voru samkvæmt þessu á íslensku bankaleyfi, undir eftirliti íslenska Fjármálaeftirlitsins og með innistæðutryggingu íslenska ríkisins, lögum samkvæmt. Á þessu lék aldrei neinn vafi. Bankastjórar Landsbankans vissu það, þegar þeir stofnuðu Icesave í Bretlandi 10. okt. 2006. Þeir hefðu getað opnað Icesave í dótturfélagi sínu í London, en kusu af ásettu ráði og vitandi vits að gera það ekki. Þeir vissu því allan tímann að ábyrgðin væri íslenska ríkisins (les: skattgreiðenda).

Fjármálaeftirlitið vissi það. Seðlabankinn vissi það. Viðskiptaráðuneytið vissi það. Forsætis- og fjármálaráðherra gátu ekki annað en vitað það. Það er fullkomlega út í hött að reyna að kenna reglum ESB um ófarir Íslendinga í Icesave-málinu. Íslensk stjórnvöld veittu bankaleyfið. Það var á þeirra valdi frá upphafi að krefjast þess að Icesave yrði í formi dótturfélags en ekki útibús og væri þar með undir eftirliti og með tryggingaábyrgð breska ríkisins. Fjáfmálaeftirlitið reyndi á árinu 2008 að forða slysinu með því að krefjast þess að Landsbankinn breytti þessari innlánsstarfsemi sinni í dótturfélag. Bankastjórar Landsbankans þverskölluðust við og FME fylgdi málinu ekki eftir af nægilegri hörku í tæka tíð.

4. Hvernig lítur málið út, ef við reynum að setja okkur í fótspor breskra og hollenskra sparifjáreigenda? Þá er ljóst að fórnarlömbin í málinu eru breskir og hollenskir sparifjáreigendur og íslenskir skattgreiðendur. Skúrkarnir í málinu eru ótvírætt bankastjórar og bankaráðsformenn Landsbankans.

Ólafur Arnarson, hagfræðingur, höfundur bókarinnar Sofandi að feigðarósi, segir um þetta mál eftirfarandi:

“Geir H. Haarde sagði í samtali við undirbúning bókarinnar, að fyrirkomulag Icesave-reikninganna og sú töf sem varð á að koma þeim yfir í dótturfélag, sé eitthvert mesta böl, sem íslensk stjórnvöld hafa nokkurn tíma þurft að glíma við. Það hafi verið ófyrirgefanlegt af hálfu Landsbankans að opna Icesave-reikninga sína í útibúi í Bretlandi. Það hafi ekki verið tilviljun, heldur hafi að baki legið fyrirætlanir um að geta notað þá peninga, sem kæmu inn í Icesave, rétt eins og þeir kæmu úr íslensku útibúi.”

Þeir menn sem tóku þessa “ófyrirgefanlegu” ákvörðun að mati fv. forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins eða bera ábyrgð á henni, heita: Halldór J.Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, formaður og varaformaður bankaráðsins.

5. Vissu þessir menn, hvaða áhættu þeir væru að taka, á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda? Það er sérstök ástæða til að ætla, að þeim hafi mátt vera þessi ábyrgð fullljós. Þann 18. apríl fengu þeir í hendur skýrslu um stöðu og framtíðarhorfur íslenska bankakerfisins, sem þeir höfðu sjálfir pantað.

Skýrsluhöfundar eru Willem Buiter og Ann Sibert, en sú síðarnefnda situr nú í peningastefnuráði Seðlabankans.Niðurstöður þessara sérfræðpinga voru hrollvekjandi. Framundan blasti við hrun bankanna. Það var ekki spurning um hvort, heldur hvenær. Helstu ástæður voru ofvöxtur bankanna og skuldsetning í erlendum gjaldeyri, hvort tveggja langt umfram getu íslenska seðlabankans og íslenska ríkisins (les skattgreiðenda) til að bjarga bönkunum frá falli, þegar á reyndi í lausafjárskorti vegna endurfjármögnunar skulda.

Skýrsluhöfundar hvöttu til þess að þegar í stað yrði gripið til fyrirbyggjandi varúðarráðstafana. Þar á meðal var að flytja “lögheimili og varnarþing” bankanna til útlanda undir eftirlit og ábyrgð þarlendra yfirvalda, sem hefðu burði til að forða þeim frá falli.

Hvernig brugðust stjórnendur Landsbanka Íslands vð þessum viðvörunum? Í stað þess að láta viðvaranir sérfræðinganna sér að kenningu verða, brugðust þeir þveröfugt við. Mánuði seinna eða 29. maí, 2008 opnuðu þeir nýtt útibú í Hollandi með það að yfirlýstu markmiði að ná inn 500 milljónum evra fyrir árslok.Þessir menn geta því með engum rökum haldið því fram, að þeir hafi verið í góðri trú eða óvitandi um þá áhættu, sem þeir voru að baka íslenskum skattgreiðendum. Undir lokin höfðu þeir tekið við innistæðum 343 þúsunda sparifjáreigenda að upphæð 1.156 milljarða króna, þar sem lágmarkstryggingin lögum samkvæmt nam 650 milljörðum króna. Það er sú upphæð, sem íslenskir skattgreiðendur bera ábyrgð á, lögum samkvæmt.

6. Er réttmætt að líta á gerðir þessara manna sem efnahagsleg hryðjuverk? Bandaríkjamenn líta svo á að hópur manna sem gerði árás á tívburaturnana í New York 11. september 2001, séu skilgreindir af alþjóðasamfélaginu sem hryðjuverkamenn. Bandaríkjamenn hafa beitt sér fyrir því, að slíkum mönnum sé hvergi vært og að eignir þeirra, þ.m.t.bankareikningar, séu gerðir upptækir, hvar sem til þeirra næst. Öll samlíking við hryðjuverkamennina frá Saudi-Arabíu er að því leyti fráleit, að í þeirra tilviki var saklausum mannslífum fórnað. Samt leikur á því enginn vafi, að efnahagsleg hryðjuverk eigenda og stjórnenda íslensku bankanna hafa haft miklu víðtækari áhrif á lífskjör fjölda fólks á Íslandi en 11. september hafði í Bandaríkjunum, sé það mælt í atvinnuleysi, eignamissi og lífskjarahruni fjölda fólks. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé: Hvers vegna hefur enginn þessara manna verið látinn svara til saka frammi fyrir dómstóli, nú átta mánuðum eftir hrun hagkerfisins? Hvers vegna hafa engar ráðstafanir verið gerðar til að leggja hald á eignir þessara manna, til tryggingar fyrir greiðslu þeirra skulda, sem þeir hafa vísvitandi látið falla á almenning?

7. Hvers vegna hafa stjórnvöld ekki lagt öll spilin á borðið í þessu máli? Ábyrgð ríkisins í formi innistæðutryggingar vegna Icesave að upphæð 650 milljarðar króna lá fyrir, þegar á næstu dögum eftir hrun Landsbankans. Upphæðin hefur ekkert breyst. Hvað hefur náðst fram með átta mánaða samningaþófi? Við mat á því ber að hafa í huga, að ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafði samþykkt ábyrgð íslenska ríkisins á sparifjárinnistæðum hollenska Icesave og fallist á lántöku í því skyni með 6.7% vöxtum til tíu ára. Þetta spillti samningsstöðu Íslands stórlega.

8. Með samningsniðurstöðunni nú hefur eftirfarandi áunnist: Lánstíminn verður 15 ár; sjö fyrstu árin verða afborgunarlaus; á þessu árabili lækkar höfustóllinn eftir því sem eignum Landsbankans í Bretlandi verður komið í verð; á meðan ber höfuðstóllinn 5.5% vexti. Væntanlega má endurfjármagna eftirstöðvarnar á árunum 2016 til 2024 á hagstæðari kjörum. Það er áhætta sem Íslendingar taka og enginn kann að meta af raunsæi á þessari stundu.

9. Eftir standa veigamiklar spurningar, sem stjórnvöld verða að skýra betur fyrir almenningi. Seðlabankar heimsins hafa í ríkjandi kreppuástandi keppst við að lækka stýrivexti. Stýrivextir Bank of England eru að nálgast núllið. Útistandandi eignir Landsbankans (lánasöfn?) í Bretlandi, þau sem eru vaxtaberandi, bera væntanlega vexti í samræmi við þetta. Hvers vegna náðust þá ekki fram lægri vextir á höfuðstól lánsins, þegar þess er líka gætt, að lánið ber ríkisábyrgð? Lánshæfismat íslenska ríkisins er að vísu ekki beysið núna, en við erum að tala um afborganir eftir 8-15 ár. Ber að skilja þetta vaxtastig sem vantraust á framtíðarhorfur Íslands? Og varasamt fordæmi? Er ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir áætluðu eignaverðmæti Landsbankans? Hversu raunsætt er áhættumatið sem að baki býr um að eignir geti að lokum staðið undir allt að 90% þessara skuldbindinga? Ef rétt er að Bretar hafi heitið stuðningi við öflun upplýsinga um faldar eignir í skattaparadísum undir breskri vernd í Karíbahafi, var þá ekki líka ástæða til að leita aðstoðar breskra yfirvalda við að leggja hald á eignir eigenda Landsbankans í öðrum félögum, sem skráð eru í breskri lögsögu? Íslenskir skattgreiðendur eiga kröfu á að fá svör við spurningum af þessu tagi.

10. Hverjir bera alla ábyrgð á þeim skaða sem íslenskir skattgreiðendur og íslenskt efnahagslíf hafa orðið fyrir vegna þessa máls? Það eru í fyrsta lagi þeir nafngreindu einstaklingar sem áttu og stjórnuðu Landsbanka Íslands, og tóku ákvarðanir um stofnun útibúa Landsbankans erlendir, vitandi vits um þá áhættu sem skattgreiðendum var búin af þeim sökum. Þeir áttu þess kost að hafa þessa starfsemi í formi dótturfyrirtækja, án ábyrgðar íslenska ríkisins, en völdu af ásettu ráði að gera það ekki. Þessi starfsemi hófst árið 2006 á ábyrgð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þessir flokkar fóru með forsætis- og fjármálaráðuneytið sem og viðskiptaráðuneytið. Þessir flokkar, núverandi stjórnarandstöðuflokkar, bera því alla ábyrgð á Icesave-málinu.

11. Ríkisstsjórn Sjálfstæðiflokks og Samfylkingar ber ábyrgð á því að heimila starfrækslu Icesave í Hollandi, þrátt fyrir að hafa fengið trúverðugar viðvaranir um, að íslenska bankakerfið væri að hruni komið. Þessi sama ríkisstjórn stórspillti samningsstöðu Íslands með samkomulagi við hollensk stjórnvöld um lántöku vegna innistæðutrygginga þar í landi á óviðunandi kjörum, þegar haustið 2008. Engum þessara aðila, sem bera fulla ábyrgð á því hvernig komið er, ferst að gagnrýna þá samningsniðurstöðu sem nú liggur fyrir. Allra síst ferst þessum mönnum að álasa núverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, fyrir að hafa ekki náð hagstæðari niðurstöðu. Samninganefnd undir forystu Svavars Gestssonar og á ábyrgð Steingríms J. Sígfússonar, hefur einfaldlega bjargað því sem bjargað varð. Þeir sem sjálfir lögðu þennan skuldaklafa á herðar íslensku þjóðinni ættu að sjá sóma sinn í því að hafa hljótt um sig að minnsta kosti svo lengi sem þjóðin er að borga skuldirnar, sem þeir stofnuðu til eða báru ábyrgð á.