ÓFYRIRGEFANLEGT?

Tilraun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og fv. menntamálaráðherra, til að varpa sök af Icesave-reikningnum af forystu Sjálfstæðisflokksins yfir á aðra (sjá: “Á að semja um Icesave?”, Mbl., 13.06.) kallar að lágmarki á eftirfarandi leiðréttingar:

Það var ekkert “regluverk Evrópusambandsins” , sem tók ákvörðun um að stofna útibú Landsbankans fyrir sparifjárinnistæður í Bretlandi og Hollandi á árunum 2006-08. Regluverk taka ekki ákvarðanir. Þeir sem tóku þá örlagaríku ákvörðun voru bankastjórnar Landsbankans, þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, á ábyrgð formanns bankaráðsins og varaformanns, þeirra Björgólfs Guðmundssonar og Kjartans Gunnarssonar. Allt eru þetta dyggir sjálfstæðismenn, Kjartan m.a.s. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, svo lengi sem elstu menn muna.

Þessir menn áttu þess kost, skv. regluverki Evrópusambandsins, að hafa þessa starfsemi í formi dótturfyrirtækja, á ábyrgð og undir eftirliti þarlendra stofnana og með sparifjártryggingu þarlendra ríkisstjórna. Þessir menn kusu, af ásettu ráði, að stofna heldur íslenskt útibú á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda. Það auðveldaði þeim að nýta sparifé breskra og hollenskra sparifjáreigenda í eigin þágu og skjólstæðinga sinna.

Ófyrirgefanlegt?

Í samtali við Ólaf Arnarson, höfund bókarinnar Sofandi að feigðarósi, segir fv.forsætisráðaherra og formaður Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi um þetta mál:

“Geir H. Haarde sagði í samtali við undirbúning bókarinnar, að fyrirkomulag Icesave-reikninganna og sú töf sem varð á að koma þeim yfir í dótturfélag, sé eitthvert mesta böl, sem íslensk stjórnvöld hafa nokkurn tíma þurft að glíma við. Þar hafi verið ófyrirgefanlegt af hálfu Landsbankans að opna Icesave-reikninga sína í útibúi í Bretlandi. Það hafi ekki verið tilviljun, heldur hafi að baki legið fyrirætlanir um að geta notað þá peninga, sem kæmu inn í Icesave, rétt eins og þeir kæmu út íslensku útibúi.”

Ófyrirgefanlegt, sagði forsætisráðherrann fyrrverandi, réttilega. Sök stjórnvalda, þ.e. ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, var að hafa heimilað þessa fjáröflun eigenda og stjórnenda Landsbankans í formi útibús og þar með á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda árið 2006. Sök Samfylkingarinnar er sú að hafa ekki knúið forráðamenn Landsbankans til þess að breyta þessari fjáröflunarstarfsemi yfir í breskt dótturfélag, á ábyrgð og með sparifjártryggingu breskra yfirvalda, í tæka tíð, eftir að stjórnvöldum jafnt sem forráðamönnum Lansbankans mátti ljóst vera, að íslenska bankakerfið stefndi í hrun. Það var á valdi íslenskra stjóirnvalda að forða slysinu. Þau brugðust. Ófyrirgefanlegt, sagði Geir H. Haarde, eftir á að hyggja.

Þorgerður Katrín lætur eins og memorandum of understanding milli ríkisstjórna Íslands og Hollands um ábyrgð íslenska ríkisins (les: íslenskra skattgreiðenda) á innistæðutryggingu gagnvart hollenskum sparifjáreigendum hjá Landsbankanum skipti ekki máli. Þetta er rangt. Þar með viðurkenndi ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur (og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur) í fyrsta sinn ábyrgð íslenskra skattgreiðenda á lágmarksinnustæðitryggingu vegna útibús Landsbankans í Hollandi.

Að þræta fyrir

Báðir stjórnarflokkarnir deila með sér ábyrgð á þessari skuldbindandi stefnuyfirlýsingu. Reyndar var gengið lengra. Í skjalinu er kveðið á um, að íslenska ríkið taki lán hjá hollenskum stjórnvöldum til tíu ára með 6.7% vöxtum og afborgunarfrítt í þrjú ár. Þetta eru marfalt verri kjör en þau sem náðust með þeirri samningsniðurstöðu, sem nú liggur fyrir Alþingi. Með þessu samkomulagi við hollensku ríkisstjórnina haustið 2008 skapaði þáverandi ríkisstjórn fordæmi gagnvart samningum við Breta og stórspillti samningsstöðu Íslands.

Hvernig dirfist varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra í ríkisstjórn, sem ber óumflýjanlega ábyrgð á áðurnefndu samkomulagi, að varpa af sér og flokki sínum allri ábyrgð af eigin verkum yfir á aðra? Samstarfsflokkinn, Evrópusambandið, erlendar ríkisstjórnir – alla aðra en þá, sem ábyrgðina bera með aðgerðum sínum og/eða aðgerðaleysi?

Íslenska þjóðin á um sárt að binda af þessum sökum. Hún var svikin í tryggðum af eftirlætissonum sínum, auðmönnum Íslands, sem sökktu þjóðinni í skuldir og létu greipar sópa um sparifé hennar, um leið og þeir fengu óáreittir að koma illa fengnu fé sínu undan í skattaskjól á aflandseyjum. Stjórnmálaforysta þriggja flokka, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og Samfylkingar, sem átti að gæta hagsmuna almennings, brást skyldum sínum. Stjórnmálamenn, sem brugðist hafa þjóð sinni á úrslitastundu, eiga að fara varlega í að ýfa upp sárin með því að þræta fyrir eigin ábyrgð.