Að því er varðar hina pólitísku ábyrgð á öförum þjóðarinnar, þá er það rétt, að sökudólgalistinn er býsna langur, ef öllu væri til skila haldið. Ég lít svo á, og styðst þá við eigin pólitíska reynslu, að oddvitar ríkisstjórna, þ.e. formenn samstarfsflokka í samsteypustjórnum, beri höfuðábyrgð. Það var á þeirri forsendu, sem ég setti fram þá kröfu fyrir seinustu kosningar, að Ingibjörg Sólrún ætti að sjá sóma sinn í að draga sig í hlé. Rugludallar báru mér á brýn af því tilefni, að ég gerði mig sekan um mannvonsku við veika konu. Nær væri að líta á mig sem velgjörðarmann, því að þetta varð ISG sjálfri til góðs, fyrir utan að vera Samfylkingunni pólitískt nauðsynlegt. Flest bendir til, að Björgvin Sigurðrson hafi verið pólitískur liðléttingur í Viðskiptaráðuneytinu, enda skilst mér að hann hafi verið sniðgenginn, ekki bara af Geir og Davíð, heldur jafnvel af ISG sjálfri.
Strangt tekið ættu allir þeir sem sátu á þingi í aðdraganda hrunsins að víkja af þingi. Þjóðinni sjálfri var í lófa lagið að framfylgja þeirri kröfu um pólitíska ábyrgð með því að hafna öllum frambjóðendum, sem setið höfðu á þingi. Það gerði þjóðin ekki. Í lýðræðisþjóðfélagi liggur valdið hjá þjóðinni. Það þýðir lítið að gera strangari siðferðiskröfur til stjórnmálamanna en þjóðin gerir sjálf.
Með bestu kveðjum,
JBH