Sú ákvörðun eigenda og stjórnenda Landsbankans að starfrækja Icesave-innlánsreikningana í Bretlandi og Hollandi í formi útibús Landsbankans en ekki í formi bresks dótturfélags, var ákvörðun um að ábyrgðartrygging sparifjáreigenda skyldi endanlega hvíla á íslenskum skattgreiðendum en ekki breskum. Þessi ákvörðun var tekin vitandi vits af ásettu ráði. Þetta var ásetningsglæpur. Mér er það hulin ráðgáta, hvers vegna þeim mönnum, sem þessa ákvörðun tóku, hefur ekki verið gert að taka afleiðingum gerða sinna.
Sú staðreynd, að íslensk stjórnvöld létu undir höfuð leggjast að knýja forráðamenn Landsbankans í tæka tíð til að breyta rekstrarforminu úr íslensku útibúi í breskt dótturfélag, flokkast undir “crime of omission – vanræksluglöp. Íslensk stjórnvöld horfðu á bankana vaxa tífalt umfram íslenska hagkerfið; horfðu á þá breytast úr íslenskum viðskiptabönkum í alþjóðlega vogunarsjóði, sem voru sokknir upp fyrir haus í skuldir. Þrátt fyrir að stjórnvöld fengju alvarlegar viðvaranir um að bankakerfið stefndi í hrun, lýstu oddvitar ríkisstjórnar Geirs H.Haarde því yfir formlega á erlendum vettvangi, að íslenska ríkið (les skattgreiðendur) stæðiu að baki skuldbindingum íslensku bankanna. Þetta sögðu oddvitarnir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að fyrir lægi, að skuldir bankanna væru langt umfram greiðslugetu íslenska þjóðarbúsins. Þarna liggur hin pólitíska ábyrgð hjá þeim , sem sátu í og studdu ríkisstjórn Geirs H. Haarde.
Regluverk ESB – gallað eða ekki gallað – skyldaði ekki forráðamenn Landsbankans til þess að reka fjáröflunarstarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í formi útibús og þar með á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda. Íslenskum stjórnvöldum var í lófa lagið, og reyndar skylt samkvæmt pólitískri ábyrgð við ríkjandi aðstæður, að knýja forráðamenn Landsbankans til að breyta þessari starfsemi í breskt dótturfélag, á ábyrgð breskra stjórnvalda. Ekkert í ESB regluverkinu kom í veg fyrir það. Því aðeins að þetta regluverk hefði meinað íslenskum stjórnvöldum að knýja forráðamenn Landsbankans til að breyta rekstrarforminu, væri við þessar starfsreglur að sakast. Svo er ekki. Tuðið um regluverk ESB sem orsakavald er því ekkert annað en aumkunarvert yfirklór, tilraun til að hlaupast undan ábyrgð á aðgerðum eða aðgerðarleysi þeirra stjórnmálamanna, sem áttu að axla ábyrgð. Í besta falli ber þessi útúrsnúningur vott um vonda samvisku; í versta falli um pólitískan heigulshátt.
Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem sátu í ríkissstjórnum Geirs H. Haarde og studdu þær með atkvæði sínu, bera óumflýjanlega ábyrgð á Icesave-reikningnum upp á 650 milljarða evra, sem nú hefur verið birtur íslensku þjóðinni í frumvarpsformi á Alþingi. Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (og sama máli gegnir um þingmenn Framsóknar), sem hafa nú hátt um það, að þeir neiti ábyrgð sinni á reikningnum, eru einhfaldlega polítískir flóttamenn á harðahlaupum undan afleiðingum gerða sinna. Um slíka menn gildir hið hara lögmál villta vestursins: “They can run, but they can´t hide.” Þeir geta flúið, en þeir geta ekki falið sig fyrir þjóð sinni.