ICESAVE: STAÐREYNDIRNAR TALA SÍNU MÁLI

Svar til Einars Jóhannessonar.
Heill og sæll, Einar.
Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja það, en þessi samsetningur þinn er samsafn af staðleysustöfum og annað ekki. (Jú – að vísu, illgirni og fjölmæli í bland).

(1) Bankastjórar og bankaráðsforysta Landsbankans vissi frá upphafi að með því að stofna Icesave í formi íslensks útibús í stað dótturfyrirtækis, sem þeir áttu kost á, efndu þeir til sparifjártryggingar íslenska ríkisins, þ.e. íslenskra skattgreiðenda.

(2) Þetta var tekið fram, skýrt og afdráttarlaust, í kynningarefni og auglýsingum gagnvart væntanlegum viðskiptavinum í báðum löndum.

(3) Þetta kom skýrt fram í erindi bankastjóranna beggja til hollenska seðlabankans, eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag (23.06.09)”…þeir sögðust hafa vissu fyrir því, að íslenska ríkið mundi ábyrgjast lágmarksinnistæður (þ.e. 20.887 evrur) í íslenskum bönkum.”

(4) FME hélt fram sama lagaskilningi á sparifjárábyrgð íslenska ríkisins í samskiptum sínum við breska fjármálaeftirlitið og hollenska seðlabankann.

(5) Oddvitar þáverandi ríkisstjórnar ,GHH, forsætisráðherra og ISG, utanríkisráðherra, gerðu sérstaka útrás í mars 2008 til N.Y. og Kaupmannahafnar, þar sem þau tóku af tvímæli um, að íslenska ríkið, sem væri svo til skuldlaust, stæði að fullu og öllu á bak við skuldbindingar íslensku bankanna.

(6) Til að taka af öll tvímæli setti Alþingi neyðarlög, þar sem lýst var ábyrgð íslenska ríkisins á öllum sparifjárinnistæðum í íslenskum bönkum, þ.m.t. í útibúum eins og Icesave.

(7) Þáverandi fjármálaráðherra, Á. Mathiesen, setti stafina sína á MOU, ásamt hollenska fjármálaráðherranum, þar sem hann viðurkenndi grundvallarregluna um ábyrgð íslenska ríkisins á lágmarkssparifjártryggingunni.

(8) Hann bætti um betur og lýsti samþykki sínu f.h. ísl. ríkisstjórnarinnar á hollensku láni til tíu ára með 6.7% vöxtum og afborgunarfrítt í aðeins þrjú ár. Þeir sem þetta samþykktu – ríkisstjórn G. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar, þ.e. sjálfstæðis- og samfylkingarmenn á þingi – hafa enga jörð til að standa á til að gagnrýna samningsniðurstöðu samninganefndar undir forystu Svavars Gestssonar og á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar.

(9) Hvers vegna treysti þáverandi ríkisstjórn sér ekki til að höfða mál til að láta reyna á heimatilbúnar lögskýringar Stefáns Más og co.? Svar: Allir lögfræðingar, sem að málinu komu, innlendir og erlendir, slógu því föstu, að í ljósi skuldbindandi yfirlýsinga íslenskra stjórnvalda, fyrir og með neyðarlögum, væri borin von, að Ísland gæti unnið slíkt mál (um ábyrgð sem takmarkaðist af innistæðu í ísl. tryggingarsjóðnum).

(10) Hins vegar var talin veruleg hætta á því, að dómstóll sem um málið fjallaði, mundi, í ljósi neyðarlaga, dæma Ísland til að taka ábyrgð, ekki bara á lágmarksinnistæðum, heldur á öllum innistæðum, eins og neyðarlögin kveða á um. Ríkisstjórnin þorði ekki að taka þá áhættu. Krafa sjálfstæðismanna um að láta nú reyna á málið fyrir dómstólum, er því marklaus. Hún er lýðskrum.

(11) Óvéfengjanleg niðurstaða í Icesave-málinu er þessi: Bankastjórar LB ásamt með formanni og varaformanni bankaráðs, allir innvígðir og innmúraðir í valdakerfi Sjálfstæðisflokksins, bera alla ábyrgð á reikningnum, sem nú hefur verið lagður fyrir Alþingi.
Þeir kynntu það fyrir fjármálayfirvöldum Breta og Hollendinga, að þeir hefðu vissu fyrir því, að íslenska ríkið stæði að baki sparifjártryggingunni, og íslenska ríkið staðfesti það opinberlega og ítrekað. Ábyrgð ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins (frá 2006 fram að seinustu forvöðum á fyrrihluta árs 2008) var að hafa ekki afstýrt slysinu með því að knýja forystumenn Landsbankans til þess að flytja Icesave-útibúin yfir í þarlend dótturfyrirtæki á ábyrgð þarlendra yfirvalda. Það var á þeirra valdi að gera það.

(12) Icesave-reikningurinn er stærstu einstök afglöp, sem íslenskir stjórnmálamenn hafa gert sig seka um fyrr eða síðar. Ég á varla orð til að lýsa skömm minni á litilmennsku þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem (ásamt með Framsókn fyrir 2007 og Samfylkingu eftir kosningar 2007) bera óumflýjanlega ábyrgð á þessu tilræði við efnahag íslensku þjóðarinnar, en þykjast nú geta hlaupist undan ábyrgð verka sinna og kenna öðrum um.

(13) Fullyrðing þín um, að ég hafi á stjórnmálaferli mínum verið hluti af því spillta valdakerfi, sem nú hefur stýrt íslenska lýðveldinu í þrot, eru staðleysustafir, sem þú getur engin rök fært fyrir. Fullyrðingar af þessu tagi flokkast því undir róg.

(14) Landráðabrígsl og annað blaður um undirgefni við Evrópusambandið er dapurlegt dæmi um getuleysi til að taka þátt í málefnalegri rökræðu um mikilvæg mál. Sannleikurinn er sá, að umræðuhefð af þessu tagi á ein út af fyrir sig umtalsverðan þátt í því, hversu illa er komið fyrir okkar þjóð. Ef sjálf umræðan mótast af fordómum, virðingarleysi fyrir staðreyndum og illgirni í garð þeirra, sem eru á öðru máli, þá er ekki á góðu von.

Með vinsemd,
Jón Baldvin