Venjulegu fólki, sem kallast svo, af því að það telst vera með óbrjálaða dómgreind og hefur orðið fyrir barðinu á afleiðingum ofangreindrar kenningar, finnst þvert á móti, að þeir einir komi ekki til álita til að stýra Seðlabanka Íslands, sem bera ábyrgð á því, hvernig komið er fyrir orðspori bankans og örlögum þjóðarinnar.
Sú kenning sömu nefndar, að hagfræðingar með akademískan feril, sem helst er að líkja við feril Bernanke, núverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna – sem tók þar við svipuðu hugmyndalegu þrotabúi og hér húkir undir Svörtuloftum – komi ekki til álita við að marka seðlabanka nýja stefnu, hlýtur að vekja upp alvarlegar spurningar um hæfi nefndarmanna til að kveða upp slíka dóma.
Forsætisráðherra, sem lögum samkvæmt á að velja hæfasta manninn úr hópi umsækjenda til að reisa Seðlabanka Íslands úr rústum, hlýtur að vera nokkur vandi á höndum að komast að skynsamlegri niðurstöðu með ráðgjafa af þessu tagi sér við hlið. Mér dettur helst í hug að minna hana á, að það hefur löngum þótt vera þjóðaríþrótt Íslendinga að kveða öfugmælavísur. Ráðgjöf nefndarinnar hlýtur að flokkast undir öfugmæli af þeim skóla og forsætisráðherra að taka sínar ákvarðanir í samræmi við það.
Hér kemur lítið sýnishorn af þjóðlegum öfugmælum:
Gott er að láta salt í sár
og seila fisk með grjóti.
Best er að róa einni ár
í ofsaveðri á móti.