HVER Á HVAÐ OG HVAÐ ER HVURS? Svar til Þorbjörns

Heill og sæll, Þorbjörn
Ég er sammála þér um það, að kerfis- og gjaldmiðilshrunið á Íslandi var fyrirsjáanlegt og fyrirbyggjanlegt, ef tekið hefði verið í taumana í tæka tíð. Hvaða úrræði voru tiltæk?

(1) að hemja ofurvöxt bankanna, (2) að knýja LÍ til að breyta Icesave í dótturfélag á ábyrgð breskra og hollenskra yfirvalda, (3) að knýja bankana, a.m.k. þann sem hafði 85% starfseminnar á evrusvæðinu til að flytja höfuðstöðvar sínar þangað, (4) að sækja um aðild að ESB með það að markmiði að binda krónuna við evru til skamms tíma og láta svo evruna leysa krónuna af hólmi. Þessar ráðstafanir (og fleiri í svipuðum dúr) hefðu áreiðanlega afstýrt kerfis- og gjaldmiðilshruni. Þar með er ekki sagt að einstaka fjármálastofnanir hefðu ekki lent í kröggum, né heldur hefði Ísland sloppið við afleiðingar alþjóðakreppunnar, sem nú gengur yfir. En það ástand hefði verið viðráðanlegt.

Ég hef hvergi sýknað Samfylkinguna af hennar ábyrgð í 18 mánuði. Þvert á móti hef ég bent á, að formenn samstarfsflokka eru oddvitar ríkisstjórnar og bera sameiginlega ábyrgð, jafnvel þótt þeir fari ekki með forsætis- og fjármálaráðuneytið (sem formlega bera ábyrgð á efnahagsstefnunni). Hins vegar verða átján mánuðir Samfylkingarinnar ekki lagðir að jöfnu við átján ár (eða segjum 60 ár) Sjálfstæðisflokksins á valdastóli. Þræðir íslenska valdakerfisins liggja um meltingarveg Sjálfstæðisflokksins og að hluta um garnaflækju Framsóknar. Það var þetta valdakerfi sem brást. Því miður er það enn mestan part á sínum stað, herfilega laskað og mestan part ónýtt. Framganga Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks nú í stjórnarandstöðu bendir til þess, að þeir hafi ekkert lært og kunni ekki að skammast sín.
Með bestu kveðjum, JB