AF ILLU PRETTA TÁLI – Svar til Steinþórs Jónssonar

Heill og sæll, Steinþór.
Ég þykist þess ekki umkominn að kveða af eða á um réttmæti þessa lista yfir meinta sakborninga, sem þú birtir. Hitt þykist ég vita, að ef íslenskt réttarfar væri starfandi á sömu forsendum og hið bandaríska, hefði öllum þessum mönnum verið birtar ákærur með rökstuddum grun um lögbrot eða meiriháttar afglöp í starfi.

Tókstu eftir fréttinni í hádeginu í dag? Í Bandaríkjunum var verið að kveða upp dóm yfir stærsta fjárglæframanni Bandaríkjanna,(gjaldþrot hans var reyndar svipuð upphæð í dollurum og íslensku bankanna þriggja).Það komst upp um manninn í desember s.l. og endanlegur dómur kveðinn upp í lok júní.Dómurinn kvað á um 150 ára fangelsisvist, auk þess sem fjársvikarinn var með dósmúrskurði sviptur öllum eignum sínum (fyrir utan lífeyri ekkjunnar). Á Íslandi hrundi kerfið í október. Dómsmálaráðherrann BB, skipaði tvo saksóknara til að rannsaka málin, en láðist að athuga að báðir áttu fyrir syni, menn í innsta hring braskaranna, sem átti að rannsaka. Nú eru a.m.k. þrír aðilar að rannsaka og verða bráðum sex, skv. nýju frumvarpi. Á meðan líður tíminn. Enginn hefur verið ákærður, hvað þá sakfelldur.”Late Justice is no Justice,” segja Bretar.

Nú þegar hafa þrjár bækur verið skrifaðar um hrunið og aðdraganda þess. Persónur og leikendur í þessu þjóðardrama eru okkur kunnir og atburðarásin ljós í stórum dráttum. Samt er ótal margt, sem gerst hefur á bak við tjöldin enn hulið almenningi og menn hafa haft nægan tíma til að farga sönnunargögnum í tæturunum sínum. Af þessum þremur bókum, sem ég hef lesið um hrunið, fannst mér bók Jóns Thoroddsen, “Íslenska efnahagsundrið – flugeldahagfræði fyrir byrjendur”, fróðlegust. Höfundurinn var sjálfur verðbréfamiðlari og vann á gólfinu í braskbúllum. Lesendur njóta því góðs af eins konar “innherjaupplýsingum.” Satt best að segja rak mig hvað eftir annað í rogastans. – Til skýringar verð ég að taka það fram, að við Bryndís bjuggum í útlöndum í átta ár og fylgdumst því ekki með frá degi til dags, þegar íslenska efnahagsundrinu var hróflað upp. –
Það er gersamlega ótrúlegt, eftir á að hyggja, að fólk með einhverja hagfræðiþekkingu og reynslu af búsetu erlendis, skuli ekki hafa áttað sig á sjúkdómseinkennunum, sem blöstu hvarvetna við. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn var gervimarkaður, sem laut stjórn örfárra aðila. Þeir trekktu upp verð hlutabréfa að vild með aðferðum, sem hvergi hefðu viðgengist annars staðar á mörkuðum, enda skýlaus lögbrot. Hækkun hlutabréfaverðs ár frá ári var sýnilega “ekki með felldu.” Að lokum varð verðmæti hlutabréfa á íslenka örmarkaðnum (u.þ.b. tveir tugir fyrirtækja sem skiptu máli) orðið helmingur af verðmæti hlutabréfa í norsku kauphöllinni, í þjóðfélagi sem er sautján sinnum fjölmennara og talsvert ríkara. Sáu menn virkilega ekkert bogið við þetta?

Eigendur bankanna hegðuðu sér allir eins og þeir væru lærisveinar Blacks, höfundar bókarinnar: “Besta leiðin til að ræna banka er að eiga banka.” Markaðsmisnotkun, sýndarviskipti, innherjaviðskipti, hluthafamismunun, bókhaldshagræðing og þar af leiðandi blekkingar um afkomu fyrirtækja til lánardrottna, hluthafa og yfirvalda – þetta eru aðeins örfá dæmi um skýlaus lögbrot, sem voru stunduð, að því er virðist, frá degi til dags og átölulaust.

Nefndi einhver fjölmiðla? Þeir voru í eigu ólígarkanna: Baugur á Fréttablaðið, Exista á Viðskiptablaðið og Björgólfar áttu Moggann. Þessi blöð, sem þóttust vera sérfróð um markaði og viðskipti, hegðuðu sér eins og upplýsingafulltrúar eigenda sinna, sem misnotuðu aðstöðu sína út og suður. Við þetta bættust síðan greiningardeildir bankanna, sem virkuðu eins og auglýsingastofur þeirra og lugu eins og þeim væri borgað fyrir það (sem þeim var). Greiningardeildirnar komu í staðinn fyrir Þjóðhagsstofnun, sem Davíð Oddsson lagði niður. Og forseti lýðveldisins neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin og gerði þannig sitt til að tryggja vald ólígarkanna til áframhaldandi misnotkunar á fjölmiðlum.

Var einhver að tala um eftirlitsstofnanir? Forstjóri Fjármálaeftirlitsins og bankastjórar Landsbankans og Kaupþings (annar af tveimur í hvoru tilviki) tóku við hver af öðrum í sömu háskólaklíku ungra sjálfstæðismanna. Helstu stjórnmálamennirnir og borgarfulltrúarnir líka, keyptir á víxl af auðklíkunum og kostaðir í gegnum prófkjör. Og svo trúðum við því – og sumir virðast trúa því enn í dag – að Ísland hafi verið annað af tveimur óspilltustu þjóðfélögum heims!Lögin um landsdóm, þ.e.a.s. um ráðherraábyrgð, hafa verið óvirk frá því að þau voru sett. Hefur nokkur maður trú á því, að ákvæði þessara laga verði virkjuð? Hefur nokkur maður trú á því, að yfirstandandi rannsóknir muni leiða til ákæru, eða hvað þá heldur sakfellingar, á þeim einstaklingum,sem bera ábyrgð á hruni þjóðfélagsins, fjárhagslega og pólitískt? Hefur nokkur maður trú á því, að ólígarkarnir, sem settu Ísland að veði fyrir skuldum sínum, verði sviptir eignum sínum skv. dómi, eins og gerðist í dag í Bandaríkjunum? Allar þessar spurningar má draga saman í eina: Hefur nokkur maður trú á því að réttlætið nái fram að ganga á Íslandi? Ef sá maður er til, er hann vinsamlegast beðinn að gefa sig fram.
Með vinsemd og virðingu, JB