UM SMJÖRKLÍPUKENNINGUNA OG SEÐLABANKASTJÓRANN

Drottningarviðtal Agnesar við Davíð í Sunnudagsmogga (5. júlí) gefur tilefni til að rifja upp söguna af ömmu Davíðs og kettinum hennar. Í Hvítbók Einars skálds Más er að þessu vikið (sjá bls. 104). Þannig var að kötturinn hennar ömmu vildi stundum ráðast á fugla og veiða mýs og gat verið grimmur og úrillur, en þá greip amma Davíðs til þess ráðs að klína smjöri á rófu hans. Síðan segir:

“Við þetta hvarf allur áhugi kattarins á fuglunum og músunum, en athygli hans beindist eingöngu að smjörklípunni á rófunni. Þessari sömu aðferð sagðist Davíð oft hafa beitt á andstæðinga sína í stjórnmálum. Þegar athygli þeirra beindist að einhverjum stórum málum, fleygði hann til þeirra öðrum málum, minni háttar málum, og lét þá þannig eltast við skottið á sér. Þessi aðferð hefur gengið undir nafninu “smjörklípuaðferðin” í íslenskum stjórnmálum…”

Trúr smjörklípukenningunni hennar ömmu fer Davíð eins og köttur í kringum heitan graut utanum Icesave-málið og forðast eins og heitan eldinn að nálgast kjarna málsins. Hver er kjarni málsins? Hann er sá að vinir Davíðs í Landsbankanum, Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flokksins, ákváðu að bjarga Landsbankanum frá yfirvofandi þroti með því að stofna útibú bankans í Bretlandi og Hollandi og tæla þarlenda sparifjáreigendur til að treysta þeim fyrir peningunum sínum. Og að íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn, seðlabanki og fjármálaeftirlit, létu þá komast upp með þetta.

Þetta er kjarni málsins, upphaf þess og endir. Ef þeir vinirnir hefðu stundað þessa fjáröflunarstarfsemi sína í nafni þarlendra banka (dótturfyrirtækja en ekki útibúa), sem þeir reyndar áttu fyrir, þá lægi enginn Icesave-reikningur nú fyrir Alþingi Íslendinga. Málið er ekki flóknara en þetta.Í upphafi skyldi endirinn skoða.

Evróputilskipunin sem leidd var í lög 1999, í forsætisráðherratíð Davíðs, kveður á um tvennt: Að útibú banka, hvar sem er á evrópska efnahagssvæðinu, starfi á ábyrgð heimalandsins. Það á við um bankaleyfi, eftirlit og lágmarkstryggingu á sparifjárinnistæðum. Þessi lágmarksinnistæðutrygging skal nema 20.887 evrum. Hins vegar gildir sú regla um dótturfyrirtæki, að þau eru rekin undir eftirliti og með sparifjártryggingu gistilandsins. Menn áttu því val. Vinir Davíðs vissu alveg hvað þeir voru að gera, þegar þeir völdu útibúsformið. Þeir gerðu það á ábyrgð Íslands. Það vissu líka íslensk stjórnvöld, sem leyfðu þeim það, árið 2006.

Sá galli er á heimatílbúinni (eftirá)lögskýringu nokkurra íslenskra lögfræðinga, nefnilega að sparifjártryggingin takmarkist við tóman tryggingarsjóð, að sá lögfræðingur fyrirfinnst ekki utan landssteinana, sem tekur mark á lögskýringunni. Samræmd trygging sparifjárinnistæðnanna á evrópska efnahagssvæðinu flokkast undir neytendavernd .Hún á að tryggja, að bíræfnir fjárglæframenn komist ekki upp með að féfletta hrekklausa sparifjáreigendur. Orðalagið “ensuring the compensation”, þ.e. “að tryggja greiðslur” lýsir tilganginum vel. Gætu sparifjáreigendur ekki treyst þessu, út af langsóttum lagakrókum, væri um trúnaðarbrest að ræða, sem hlyti að enda með bankaáhlaupi.

Kerfishrun

Nú kemur Davíð fram eftir dúk og disk og segir: Já, þetta getur átt við um fall einstakra banka, en ekki um kerfishrun. Máli sínu til stuðnings vitnar hann í það sem hann kallar OECD nefndarálit, undir formennsku Jean-Claude Trichet, núv. bankastjóra evrópska Seðlabankans, og heimtar að skýrslan verði nú birt til að sanna mál sitt. Þarna mun vera um að ræða nefndarálit á vegum franska seðlabankans frá árinu 2000, þegar Frakkar lögleiddu tilskipun ESB um samræmda lágmarkstryggingu innistæðueigenda, rétt eins og við Íslendingar. En þar segir að sjálfsögðu hvergi, að við kerfishrun falli sparifjártryggingin niður. Þvert á móti. Þar segir að við slíkar kringumstæður komi til kasta eftirlitsstofnana, seðlabanka og ríkisstjórna að ábyrgjast trygginguna.

Einmitt þess vegna hafa tryggingasjóðirnir lántökuheimildir, umfram iðgjöldin. Öfugt við það sem Davíð gefur í skyn, tekur franska nefndarálitið af tvímæli um ábyrgð stjórnvalda á innistæðutryggingum, umfram inneignir tryggingarsjóða, þegar um kerfishrun er að ræða.Ég tek undir kröfu Davíðs um, að þessi niðurstaða úr ársskýrslu franska bankans árið 2000 verði birt, svo að þingmenn þurfi ekki að velkjast í vafa um ábyrgð sína gagnvart sparifjáreigendum á kerfishruni.

Sú ákvörðun bankastjóra Landsbankans, þeirra Halldórs Kristjánssonar og Sigurjóns Árnasonar og bankaráðsins, þ.e. þeirra Björgólfs Guðmundsonar og Kjartans Gunnarssonar, að opna nýtt útibú í Hollandi í lok maí 2008 og sú staðreynd, að íslensk stjórnvöld létu þessa menn komast upp með þetta, er sérstaklega vítaverð. Ástæðan er sú, að þá hafði forystumönnum bankans og fulltrúum seðlabanka og ráðuneyta borist í hendur sérstök skýrsla viðurkenndra sérfræðinga, þeirra Buiter og Sibert, þar sem kveðið er upp úr um, að það sé aðeins tímaspursmál, hvenær íslensku bankarnir hrynji, nema gripið verði til neyðarráðstafana þegar í stað. Það þýddi að flytja höfuðstöðvar bankanna þangað sem meginþungi starfseminnar var, eða a.m.k. að koma útibúunum í dótturfélagsform og þar með á ábyrgð og með sparifjártryggingu þarlendra stjórnvalda.Þetta vissu bankastjórarnir. Þetta vissu stjórnvöld. Samt gerði enginn neitt. Þetta er kjarni málsins. Þetta er upphaf ógæfunnar. Þarna er að leita ábyrgðarinnar á óförum okkar.

Í bók sinni um hrunið vekur Guðni Th. Jóhannesson athygli á því, að skv. lögum um fjármálafryrirtæki nr. 161/2002, 36. gr. hefði fjármálaeftirlitið íslenska getað bannað stofnun útibús á evrópska efnahagssvæðinu, “ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust” (bls. 208). Ástæðan fyrir því að Landsbankinn opnaði útibú í Hollandi í maí 2008, fáeinum mánuðum fyrir hrun, var sú að fjárhagsstaða fyrirtækisins var ekki nægilega traust. Einmitt þess vegan bar íslenskum stjórnvöldum skylda til að stöðva þetta feigðarflan í tæka tíð. Það brást. Þess vegna sitja íslenskir skattgreiðendur nú uppi með reikninginn.

Pólitískt talsamband

Til er skýrsla eftir hollenska lagaprófessora – Adrienne deMoor-VanVogt og Edgar dePerron – til neðri deildar hollenska þingsins um Icesave-málið. Í þessari skýrslu er sýnt fram á, að hollensk yfirvöld lögðu hart að íslenskum stjórnvöldum að færa Icesave-reikningana inn í hollenska lögsögu og undir fullkomna bótaskyldu hollenskra yfirvalda, áður en verra hlytist af. Hollensk yfirvöld voru m.ö.o. fús til að taka ábyrgðina yfir á sig og þar með að forða áhættu af áhlaupi á banka, sem gæti hlotist af vantrausti á getu íslenskra stjórnvalda (seðlabanka og ríkisstjórnar) til að standa við margítrekaðar yfirlýsingar um ábyrgð þeirra á innistæðutryggingum íslenskra banka.

Hverjir komu í veg fyrir þetta? Landsbanki Íslands með fulltingi íslenskra stjórnvalda. Sama máli gegnir um breska fjármálaeftirlitið. Það bauðst ítrekað til að taka ábyrgðina af íslenska Landsbankaævintýrinu yfir á sig. Landsbankinn neitaði, af því að forsprakkarnir vissu að þar með yrðu þeir settir undir hart eftirlit og gætu þ.a.l. ekki misnotað aðstöðuna í þágu eigenda Landsbankans og eignarhaldsfélaga þeirra. Hversu oft ætla þeir sem bera alla ábyrgð á óförum íslensku þjóðarinnar í þessu máli – þeir hinir sömu og gátu komið í veg ódæðið – að endurtaka ásakanir sínar um, að þetta sé allt Bretum og Hollendingum að kenna?

Er til of mikils mælst, í ljósi þessarar forsögu málsins, að Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra og seðlabankastjóri, fari senn hvað líður, nú þegar um hægist frá embættisönnum, að líta í eigin barm? Hver bar á því höfuðábyrgð, við einkavæðingu ríkisbankanna, að afhenda Björgólfsfeðgum Landsbankann á gjafvirði? Hvers vegna var nánasti samstarfsmaður Davíðs, Kjartan Gunnarsson,framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, skilinn eftir við einkavæðinguna sem varaformaður bankaráðsins? Var það ekki til þess að tryggja, að forráðamenn bankans væru “í pólitísku talsambandi” við Flokkinn, úr því að Búnaðarbankinn hafði samkvæmt helmingaskiptareglunni verið framseldur í hendurnar á S-hópnum, mönnunum sem stukku frá borði, áður en SÍS var dysjað á öskuhaugum sögunnar?

Og ekki ætti talsambandið við flokkinn að hafa stirðnað við einkavæðinguna, þegar þess er gætt, að listinn yfir nánustu samstarfsmenn bankastjóra Landsbankans lítur út – eftir á að hyggja – eins og “hver er maðurinn?” yfir valdakerfi Flokksins úr Orator, Vöku og Stúdentaráði inn í bankana og ráðuneytin. Það ber allt að sama brunni. Það tók þetta þéttriðna venslanet sérhagsmunanna, undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins, bara sex ár frá einkavæðingu að kollvarpa efnahagslegu sjálfstæði Íslands og orðspori gagnvart umheiminum.

Geri aðrir betur.

Og svo þykjast þeir hvergi hafa nærri komið og gera hróp að hinum, sem tóku við þrotabúinu og eru að reyna að reisa Ísland við úr rústunum.

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins

U/ndir lok drottningarviðtalsins við Agnesi segir Davíð, að yfirlýsingar ákveðinna ráðherra um að við séum skuldbundin, hafi vitanlega stórskaðað málstað okkar. Þetta er sjálfsagt útsmogin smjörklípuaðferð til að vanda um við þá Geir H. Haarde, fv. forsætisráðherra og Árna Mathiesen fv. fjármálaráðherra, sem í tíð ríkisstjórnar Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, skuldbundu Ísland að samningaleiðinni og höfnuðu um leið dómstólaleiðinni, sem Davíð gerist nú sérstakur talsmaður fyrir.

Strax fáeinum dögum eftir hrun, eða nánar tiltekið þann 11. október, 2008, gerði Árni Mathiesen samkomulag við kollega sinn, hollenska fjármálaráðherrann, sem fól í sér allt í senn: Viðurkenningu á ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar (les: skattgreiðenda) á lágmarkstryggingu innistæðueigenda og hollenskt lán á afarkjörum til þess að standa undir þeirri skuldbindingu (lán til 10 ára með 6.7% vöxtum og afborgunarlaust bara fyrstu 3 árin). Hollendingar féllu ekki frá þessu samkomulagi fyrr en á seinustu stundu samningaviðræðnanna í byrjun júní 2009.

Þann 14. nóv. samþykkti ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar umsamin viðmið (“agreed guidelines”) fyrir samingaviðræður milli ríkjanna. Þar segir meðal annars að “tilskipunin um innistæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um evrópska efnahagssvæðið… og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.” – Þar með var hin séríslenska lögskýring um að innistæðutryggingin gilti ekki á Íslandi, sem engir aðrir en höfundarnir sjálfir höfðu tekið mark á, endanlega gefin upp á bátinn.

Þann 5. desember 2008 samþykkti svo Alþingi þingsályktunartillögu um ábyrgð ríkissjóðs á innistæðitryggingum vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á evrópska efnahagssvæðinu. Þar segir: “Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða, sem aðilar hafa komið sér saman um.” – Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu þessa ályktun – nema Pétur Blöndal.

Þetta var í beinu framhaldi af neyðarlögunum, sem Alþingi samþykkti þann 6. október, 2008, þar sem ríkisstjórn Íslands tók af öll tvímæli um, að hún ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum og undanskildi ekki þar með lágmarksinnistæðutryggingu í útíbúum íslenskra banka í útlöndum.

Að líta í eigin barm

Ef það skyldi nú hvarfla að nokkrum manni á Alþingi Íslendinga, áður en hann eða hún greiðir atkvæði gegn ríkisábyrgð á Icesave-samingnum, að taka mark á yfirlýsingum Davíðs Oddssonar um að leggja beri málið fyrir íslenska dómstóla, þá væri ráð að taka saman lista yfir öll þau skjöl og yfirlýsingar, sem skuldbinda íslensk stjórnvöld til að standa við ábyrgð sína á innistæðutryggingunum. Sá maður er væntanlega vandfundinn, sem trúir því, eftir að hafa farið samviskusamelga yfir þann lista, að Íslendingar geti unnið slíkt mál fyrir dómi.

Sjálfur gerði Davíð rétt í að hressa upp á minni sitt með því að rifja upp, hvað hann sagði í viðtali við íbresku sjónvarpsstöðina Channel 4 í mars 2008. Þar lofsöng hann íslensku bankana og kvaðst engar áhyggjur hafa af stöðu þeirra. Fréttamaðurinn varpaði fram þeirri spurningu, hvort Íslendingar hefðu bolmagn til að greiða innistæðurnar, ef illa færi: Þessu svaraði Davíð þannig, að íslensku bankarnir væru svo sterkir, að nær ómögulegt væri að þeir kæmust í slík vandræði. Því til viðbótar hefðu Íslendingar vel efni á að greiða út til sparifjáreigenda, þar sem aldrei yrði um alla þessa upphæð að ræða. “En þar sem íslenska ríkið er skuldlaust, gæti það hæglega kyngt allri þessari upphæð í heild sinni – ef það kýs að gera svo” (Ólafur Arnarson: Sofandi að feigðarósi, bls. 127) –

Ef það kýs að gera svo, sagði Davíð. En er einhver spurning um skylduna? Hafi eitthvað leikið á tveim tungum um það, þá tók Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, af öll tvímæli um slíkt með yfirlýsingu til framkvæmdastjórnar IMF þann 15. nóvember, 2008, sem þeir undirrituðu sameiginlega, Davíð Oddsson og þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen. Þar segir m.a.:

“Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi, að unnt verði að forfjármagna þessar kröfu fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegn þessarar forfjármögnunar.”

Þar með var dómstólaleiðinni hafnað í eitt skipti fyrir öll og Ísland skuldbundið að ganga til samninga. Er einhverju við þetta að bæta?