FORHERÐING?

Opnugrein Kjartans Gunnarssonar, fv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins (og þar með eins nánasta samstarfsmanns Davíðs Oddssonar)

og varaformanns bankaráðs Landsbankans (og þar með eins nánasta samstarfsmanns Björgólfs Guðmundssonar) í Mbl. 14.08. s.l., gefur tilefni til að biðja lesendur Mbl. að hugleiða eftirfarandi staðreyndir:

  • Þegar Davíð Oddsson, þáv. forsætisráðherra, ákvað að afhenda Björgólfsfeðgum Landsbanka Íslands, þrátt fyrir að þeir hefðu ekki gert hæsta tilboð, varð að samkomulagi, að Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, sæti áfram í bankaráðinu sem varaformaður, til þess að tryggja “pólitískt talsamband við Flokkinn”. Þetta var gert á þeirri forsendu, að Björgólfsfeðgar myndu flytja svo mikinn erlendan gjaldeyri inn í landið. Nú er upplýst, að kaupverðið var í reynd aldrei greitt, nema að hluta. Í staðinn var slegið lán hjá Búnaðarbankanum, sem nú er gjaldfallið og mun væntanlega bætast í skuldasafn þjóðarinnar.
  • Ef forráðamenn Landsbankans – þ.m.t. Kjartan Gunnarsson – hefðu ákveðið að reka bankastarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í þarlendum dótturfyrirtækjum – en ekki sem útibú frá Landsbankanum – þá lægi enginn Icesave-reikningur til íslenskra skattgreiðenda fyrir á Alþingi Íslendinga. Ekki ein króna.
  • Það er því hafið yfir allan vafa, að það var á valdi eftirtalinna fjögurra einstaklinga að koma í veg fyrir, að Icesave-reikningurinn félli á þá, sem ekki höfðu til hans stofnað, þ.e.a.s. íslenska skattgreiðendur. Þeir fjórir einstaklingar, sem með réttu hljóta því að teljast ábekingar Icesave-reikningsins á hendur þjóðinni heita: Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, sem formaður og varaformaður bankaráðsins. Það er eins og Kaninn segir í villta vestrinu: “They can run – but they can´t hide”.
  • Þessir menn ákváðu að yfirbjóða innlánsvexti keppinauta í samkeppni um innlán sparifjáreigenda í þessum löndum, af því að lánstraust bankans fór þverrandi, lánalínur voru að lokast og skuldatryggingarálög fóru síhækkandi. Bankinn var undir þeirra stjórn sokkinn í skuldir og þurfti stöðugt að endurnýja lánasafn sitt til að forða hruni. Forráðamenn LB völdu því útibúsformið af ásettu ráði til þess að hafa frjálsar hendur til að nota innlánsféð í Icesave í eigin þágu, lausir undan ströngu eftirliti gistiríkjanna. Að sögn Davíðs Oddssonar höfðu þessir forráðamenn Landsbankans lofað Seðlabanka og Fjármálaeftirliti því að færa þessa fjáröflunarstarfsemi sína í þessum löndum yfir í dótturfyrirtæki með sparifjártryggingu þarlendra yfirvalda. Að sögn fv. Seðlabankastjóra sviku þeir það loforð, með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.
  • Skv. skýrslu hollenskra lagaprófessora til hollenska þingsins, bitu þessir sömu einstaklingar höfuðið af skömm sinni með því að hafna ítrekuðum tilboðum hollenskra (og breskra) fjármálayfirvalda um að færa Icesave-netbankana inn í hollenska og breska lögsögu, undir eftirlit og sparifjártryggingu þarlendra yfirvalda. Þess vegna fór sem fór.
  • Með því að hafna þessum tilmælum íslenskra eftirlitsstofnana, seðlabanka Hollands og breska fjármálaeftirlitsins, komu forráðamenn Landsbankans – þar með talinn Kjartan Gunnarsson – beinlínis í veg fyrir að lágmarkstrygging innistæðueigenda hjá Icesave yrði borin af tryggingarsjóðum viðkomandi landa, en ekki íslenskum skattgreiðendum.
  • Í upphafi árs 2008 pöntuðu forráðamenn Landsbankans sérstaka úttekt viðurkenndra sérfræðinga, þeirra Buiter og Sibert, um fjárhagslegt heilsufar íslenska bankakerfisins. Niðurstaðan, sem þeir fengu í hendur í apríl 2008, var hrollvekjandi. Það væri aðeins tímaspursmál, hvenær íslensku bankarnir myndu hrynja, nema því aðeins að gripið yrði til neyðarráðstafana, án tafar. Það þýddi m.a.að flytja höfuðstöðvar bankanna á stærra myntsvæði, þar sem meginþungi starfseminnar var hvort eð var, eða a.m.k.að breyta útibúunum í dótturfélagsform og þar með á ábyrgð og með sparifjártryggingu þarlendra yfirvalda, eins og stóð til boða. Bankastjórarnir vissu þetta. Bankaráðsmennirnir vissu þetta. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde gat ekki annað en vitað þetta. Þyngst er ábyrgð forráðamanna Landsbankans sjálfs, sem þverskölluðust við að virða tilmæli um, að forða slysinu í tæka tíð. Þeir forhertust.

Niðurstaða:

Að þessi maður, af öllum mönnum undir sólinni – Kjartan Gunnarsson, fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og varaformaður bankaráðs Landsbankans – skuli dirfast að saka núv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon – einn fárra íslenskra stjórnmálaleiðtoga, sem sannanlega er saklaus af Icesave-ódæðinu – um að “binda þjóðinni drápsklyfjar” og beinlínis að fremja landráð (“… gengur hér erinda Breta af meiri hörku og óbilgirni en …þeir hefðu sjálfir lagt í að beita…”), það lýsir svo sérstöku hugarfari, að alla ærlega menn hlýtur að setja hljóða. Getur þetta verið? Hefur mér ekki missýnst? Ég trúi ekki mínum eigin augum. Að á sama tíma og menn leggja nótt við nýtan dag til að moka skuldirnar og skítinn upp eftir greinarhöfund, Kjartan Gunnarsson, pólitíska fóstbræður hans og viðskiptafélaga, þá þyki honum sæma að gera hróp að björgunarliðinu. Hvað kallast svona hegðun? Hroki og óbilgirni? Vissulega. Botnlaus ósvífni væri nær lagi. Ósvífni í bland við forherðingu kemst líklega næst kjarna málsins, – en lætur þó margt ósagt.

Ummæli við grein á eyjan.is