Minning: Grétar Már Sigurðsson

Grétar Már var sá embættismaður íslenskur, sem þekkingar sinnar og reynslu vegna, var best til þess fallinn að feta í fótspor sjálfs Hannesar Hafstein,

sem aðalsamningamaður Íslands, til að undirbúa og leiða þær viðræður, sem framundan eru við Evrópusambandið um aðild Íslands að allsherjarsamtökum lýðræðisríkja. Sú von er nú að engu orðin. Svona verður Íslands óhamingju flest að vopni þessi misserin.

Á starfsferli sínum í hartnær fjórðung aldar gegndi Grétar Már því hlutverki að gæta hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi. Hann skilaði því hlutverki óbrigðult með sóma, að hvaða verki sem hann gekk. Í þeim verkum naut hann drengilegrar framgöngu sinnar. Hann sýndi sanngirni en festu í málflutningi og sannfæringarkraft, sem var þó laus við oflæti og undirhyggju. Þannig ávann hann sér traust samstarfsmanna og virðingu viðsemjenda af verkum sínum.

Ótímabært fráfall hans, langt um aldur fram, rifjar upp fyrir okkur upprunalega merkingu orðtaksins, að nú er skarð fyrir skildi í röðum þeirra, sem eiga að sækja og verja íslenskan málstað í samskiptum við fulltrúa annarra ríkja. Hans er því sárt saknað á örlagastundu.