SVARTBÓK KOMMÚNISMANS: SVÖRT SÁLUMESSSA

Inngangsorð: Nú er komin skýringin á því, hvers vegna Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hefur látið óvenjulítið fara fyrir sér að undanförnu. Ástæðan er ekki endilega sú, að fjörbrot frjálshyggjunnar hafa skekið íslenskt þjóðfélag til grunna – og reyndar heimsbyggðina alla í þokkabót – og að þetta hafi vakið prófessornum efasemdir um trúverðugleik trúboðsins. Ástæðan er sú, að prófessorinn hefur lokað sig inni við að snúa hinu mikla franska ritsafni: “Svartbók kommúnismans” yfir á íslensku. Þetta er mikið verk, sem verðskuldar vandaða umræðu um ýmis undirstöðuatriði í stjórnmálum samtímans – ekki síst nú, þegar frjálshyggjutilraunin með Ísland hefur brugðist og við stöndum sem þjóð frammi fyrir þeirri óumflýjanlegu spurningu: Hvers konar þjóðfélag viljum við byggja upp á rústum hins hrunda? Fyrir þetta á Hannes Hólmsteinn hrós skilið.

Í tilefni af útkomu bókarinnar var efnt til málþings um efni hennar á vegum ýmissa stofnana háskólans í Þjóðminjasafni Íslands í hádeginu mán. 31.08.09. Björn Bjarnason fv. dómsmálaráðherra, stýrði fundi. Göran Lindblad, sænskur hægrimaður, sem beitti sér fyrir samþykkt ályktunar þings Evrópuráðsins um glæpi kommúnismans, reifaði málið. Undirritaður var til andsvara f.h. hugmyndaarfs marxismans og velferðarríkis jafnaðarstefnunnar, sem hefur sótt sitthvað af gagnrýni sinni á hinn óbeislaða kapítalisma til Karls Marx og arftaka hans. Lindblad lýsti þeirri skoðun, að Sovétgulagið væri óhjákvæmileg afleiðing af kenningum Marx. Ég andmæli þeirri skoðun og spyr: Er sanngjarnt að kenna Kristi um seinni tíma óhæfuverk kaþólsku kirkjunnar: Ofsóknir hennar á hendur trúvillingum, krossferðir á hendur heiðingjum, ritskoðun gegn röngum skoðunum, rannsóknarréttur gegn grunuðum efasemdarmönnum, nornaveiðar gegn konum og þegjandi samþykki við Gyðingaofsóknum og sitt hvað fleira óbermilegt? Í eftirfarandi texta er að finna frekari rökstuðning fyrir þeim skoðunum, sem ég lýsti á fyrrnefndum fundi. – JBH .

Það er með öllu ástæðulaust að fara niðrandi orðum um það fólk sem gekk til liðs við kommúnismann, í miðri heimskreppu kapítalismans, milli tveggja heimsstyrjalda á öldinni sem leið. Annars vegar blasti við kerfishrun kapítalismans. Hins vegar var draumurinn um mannúðlegra þjóðfélag, þar sem arðrán manns á manni yrði afnumið.

Það var þegar sönnunargögnin fóru að hrannast upp um, að draumurinn hefði snúist upp í martröð, að leiðir skildi. Annars vegar voru þeir, sem lokuðust inni í afneitun og forherðingu og urðu lífslyginni að bráð. Hins vegar voru þeir, sem höfðu manndóm til að horfast í augu við staðreyndir og báru sannleikanum vitni, þótt það kostaði að færa fórnir. Af þessu er mikil saga, sem er sögð í þessari svörtu sálumessu um sögu kommúnismans, sem nú kemur út í íslenskri þýðingu.

Ég tel, að Hannes Hólmsteinn hafi gert rétt í því að gera hlé á frjálshyggjutrúboði sínu, rétt á meðan fjörbrot frjálshyggjunnar skekja heiminn þessi misserin; og koma þess í stað harmsögu kommúnismans á framfæri við seinni kynslóðir Íslendinga, sem þekkja ekki þessa sögu nema af afspurn. Það er margt líkt með skyldum. Ég hef löngum þóst kenna skyldleika milli kommúnista og frjálshyggjutrúboða, sem ég hef iðulega kallað “kommúnista með öfugu formerki”. Og víkur þá sögunni að hinum “hundgrimmu ofvitum Stórasannleiks.”

Stórisannleikur

Hvers vegna snerist draumur kommúnismans upp í martröð gúlagsins? Um það hafa verið skrifuð heilu bókasöfnin, án þess þó að fræðimenn séu á eitt sáttir. Sumir leggja áherslu á það sögulega slys, að fámenn klíka ofstækismanna náði völdum í Rússlandi. Þeir Lenín og Stalín, lögfræðingurinn og prestlærlingurinn, hófust handa um að framkvæma eitthvað, sem gekk undir nafni sósíalismans, allsherjar þjóðnýting með valdboði.

Rússland var vanþróað lénsveldi án nokkurrar lýðræðishefðar. Hrun keisaraveldisins og ósigur í fyrri heimsstyrjöldinni snerist upp í borgarastyrjöld. Borgarastyrjöld snýst um það að sigra, hvað sem það kostar, þ.m.t. að útrýma andstæðingnum, ef með þarf. Við þetta bætist aldalöng ofbeldishefð rússneska keisaradæmisins. Þessi skýring inniheldur eitthvert sannleikskorn, svo langt sem það nær. Nefnilega að rússneska byltingin hafi verið sögulegt slys. En hvernig verður þá komið í veg fyrir, að svona slys endurtaki sig?

Höfundar þessarar bókar freista þess að kafa dýpra. Þeir beina kastljósinu að hlutverki menntamannsins – eigum við að segja spámannsins – í sögunni. Ef kommúnisminn var formúla: Afnám einkaeignarréttarins og öll völd til Flokksins – í nafni “alræðis öreiganna” – þá stóð ekki til að bjóða upp á neinar samningaviðræður. Hér gildir tungutak Gamla testamentisins: “Sá sem ekki er með mér, er á móti mér”.

Byltingin var hvorki málfundaklúbbur né sunnudagaskóli. Þeir sem taldir voru standa í vegi fyrir framrás byltingarinnar, voru skilgreindir sem óvinir. Óvinum ber að útrýma, af því að þeir standa í vegi fyrir “framrás sögunnar.” Hér koma engar málamiðlanir til greina. Þetta er upp á líf eða dauða. Þetta snýst um allt eða ekkert. Stórisannleikur hlustar ekki á efasemdir eða gagnrýni; hann umber ekki og miðlar ekki málum. Hann krefst skilyrðislausrar undirgefni, að viðlagðri dauðarefsingu.

Svona hugsa hinir “hundgrimmu ofvitar Stórasannleiks.” Þeir eru alls staðar hættulegir umhverfi sínu. Nái þeir völdum er afleiðingin ógnarstjórn, sem endar í útrýmingarbúðum. Það er framlag beggja, sovétkommúnismans og þýska nasismans, til siðmenningarinnar. Auschwitz var bara tæknilega fullkomnara en Vorkuta.

Hvorki kommúnisminn né nasisminn eru sögulega einangruð fyrirbæri, sem urðu til fyrir slysni og síðan ekki söguna meir. Hvort tveggja á rætur í mannlegu eðli. Ef grannt er skoðað, er víða að finna hliðstæður í mannlegri breytni. Stórisannleikur – allsherjar lausn á vanda hins hrjáða mannkyns – hefur gengið undir ýmsum nöfnum í rás sögunnar. Allah er einn og Múhameð er spámaður hans. Ég er Guð þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa.

Þetta hljómar allt kunnuglega. Margir hafa orðið til að benda á sameiginleg ytri tákn kommúnismans og helstu trúarbragða: Í báðum tilvikum finnum við heilaga ritningu og ritningarstaði; óskeikulan páfa, spámenn og píslarvotta; ritskoðunin og rannsóknarrétturinn er á sínum stað, sem og ofsóknir villutrúarmanna. Kaþólska kirkjan ástundaði líka krossferðir á hendur hinum trúlausu og lagði blessun sína yfir Gyðingaofsóknir. Með illu skal illt útreka, lýsir hugarfari hins sanntrúaða.

Margt er líkt með skyldum

Það er margt líkt með skyldum. Sumir trúðu á þjóðnýtingu framleiðslutækjanna og alræði öreiganna. Aðrir trúa á hina ósýnilegu hönd markaðarins, sem kemur þeim í stað guðlegrar handleiðslu. Ef treysta má markaðasöflunum til að leysa öll vandamál, hafa stofnanir lýðræðisins engu hlutverki að gegna lengur. Ef þörf krefur, þá leiðréttir markaðurinn sig sjálfur. Það þýðir að pólitísk íhlutun, samkvæmt leikregum lýðræðis, er ekki einungis óþörf, heldur beinlínis af hinu illa.

Þetta er hugmyndafræði auðhyggjunnar – plutocracy – þar sem auðgildið er sett ofar manngildinu. Það er engin tilviljun, að hún leiðir til þjóðfélagsskipunar, þar sem auður , völd og áhrif safnast á fáar hendur. Í slíku þjóðfélagi er lýðræðið eins konar sýndarveruleiki, þar sem það er bæði keypt og mýlt. Þetta er sú heimsmynd, sem blasir við rúmlega sex milljörðum jarðarbúa. Örfámennur hópur ofurríkra á, eða ræður yfir auði, sem mælist meiri en þjóðartekjur helmings jarðarbúa. Annars vegar er auðsæld örlítils minnihluta ofurríkra; hins vegar er örbirgð mikils meirihluta jarðarbúa, sem dregur fram lífið í skugga þrálátra sjúkdóma og yfirvofandi hungursneiðar.

Fyrirheit kommúnismans um afnám arðráns manns á manni reyndist vera fjarlægur draumur, sem snerist upp í andhverfu sína. Fyrirheit kapítalismans sem gróttarkvörn velmegunar alls mannkyns er fjarri því að hafa ræst, þrátt fyrir gríðarlega auðsköpun á öld iðnvæðingar. Auðnum er eftir sem áður herfilega misskipt. Vera má að vísindin búi yfir tæknilegri kunnáttu til að leysa vandamál örbirgðarinnar. En hitt er jafnvíst, að þau eru þá ekki í þjónustu þess mannvits, sem dugar til að leysa vandann.

Halldór Kiljan Laxness lýsti á sínum tíma efasemdum sínum um, að það sem hann kallaði “hið sauðmeinlausa sósíal-demókratí” væri til stórræðanna við að breyta mannfélaginu til hins betra. Og mikið rétt: Sósíal-demókratíið getur ekki stært sig af neinum Stórasannleik; það boðar ekki harða kenningu og enga allsherjarlausn. Þar fyrirfinnst engin heilög ritning og enginn óskeikull páfi. Enginn er þar rannsóknarrétturinn né ritskoðunin. Eiginlega varð jafnaðarstefnan bara til með samstöðu fátæks fólks sem viðbrögð við og andóf gegn ómennskum þjóðfélagsháttum hins óbeislaða kapítalisma iðnbyltingarinnar.

Jafnaðarmenn vildu láta á það reyna, hvort unnt væri að koma fram umbótum, skref fyrir skref, með friðsamlegum hætti og án ofbeldis. Þetta þýddi að fara hina seinvirku og vandrötuðu leið lýðræðis og þingræðis, í stað þess að boða hið fullkomna sæluríki, sem ætti að rísa með blóðugri byltingu upp úr ragnarökum kapítalismans. Hugmynd jafnaðarmanna var t.d. ekki að útrýma markaðsöflunum, heldur að beisla þau og gera þau manninum undirgefin á þeirri forsendu, að markaðurinn væri að vísu harður húsbóndi, en þarfur þjónn. Sænskir jafnaðarmenn hafa á 70 ára valdaferli varla þjóðnýtt eitt eða neitt. Þeir hafa hins vegar virkjað lýðræðið til þess að beisla markaðsöflin í þágu alls almennings. Niðurstaðan er hið norræna velferðarríki, þar sem ríkir meiri jöfnuður en víðast hvar annars staðar og lýðræðið hefur hvorki verið keypt né mýlt.

Af þeim þjóðfélagstilraunum, sem mannkynið fékkst við, með ærnum fórnarkostnaði á öld öfganna, sýnist mér norræna velferðarríkið vera sú samfélagsgerð, sem best hefur staðið af sér storma og stríð samtímans – hingað til. Kannski er það vegna þess að jafnaðarmenn hafa aldrei þóst höndla Stórasannleik. Þeir hafa hins vegar komist upp á lag með að gera ekki of stífar kröfur um, að hinn breyski maður bæti ráð sitt. Við vitum af eigingirni hans og sjálfselsku, sem kapítalisminn skírskotar til, og reynum að virkja hvort tveggja til að útrýma fátæktinni. Með fortölum og aðhaldi – lýðræðinu – reynum við að hafa taumhald á öfgunum með skírskotun til okkar “betri manns” – í krafti samstöðu og samábyrgðar.