UM KRIST OG KARL MARX. Svar til Arnórs Hannibalssonar

Það var Karl Marx, sem opnaði augu mín fyrir því eðli kapítalismans að beita valdi auðsins til að arðræna fátækt fólk og umkomulaust. Item, að samkeppnin um gróðann þýddi, að auðurinn mundi safnast á fáar hendur, á sama tíma og hinn stritandi lýður mundi búa við skort og harðræði. Í þessum punkti hafði Marx rétt fyrir sér. Þetta er raunsönn lýsing á ástandi heimsins enn í dag. Og ætti að hvetja alla góða menn til dáða við að koma böndum á ófreskjuna – kapítalismann – áður en verra hlýst af.

Heill og sæll, bróðir:
Takk fyrir tilskrifið. Ég læt mér nægja að sinni að gera eftirfarandi athugasemdir:

1.
Það var Karl Marx, sem opnaði augu mín fyrir því eðli kapítalismans að beita valdi auðsins til að arðræna fátækt fólk og umkomulaust. Item, að samkeppnin um gróðann þýddi, að auðurinn mundi safnast á fáar hendur, á sama tíma og hinn stritandi lýður mundi búa við skort og harðræði. Í þessum punkti hafði Marx rétt fyrir sér. Þetta er raunsönn lýsing á ástandi heimsins enn í dag. Og ætti að hvetja alla góða menn til dáða við að koma böndum á ófreskjuna – kapítalismann – áður en verra hlýst af.

Þessi arfleifð úr hugmyndabanka Marx skerpti skilning minn á því, að hagfræðin, sem mér var kennd í Edinborg forðum (neo-classical) var bara hugmyndafræði í þjónustu kapítalismans. Þegar heimskapítalisminn brotlenti í kreppunni, kom Keynes honum til bjargar. Hann færði okkur “manual” – eins konar handbók – um það, hvers vegna og hvernig ríkið (lýðræðið) yrði að beita íhlutun til að hemja markaðsöflin til þess að gera kerfið starfhæft á ný. Þetta staðfesti með hagkvæmnisrökum það sem við sósíal-demókratar (lærisveinar Marx) þóttumst vita af reynslurökum (og af siðferðilegum ástæðum), nefnilega, að óbeislaður kaítalísmi væri manneskjufjandsamlegur. Við virkjuðum lýðræðið í baráttu gegn skrímslinu. Við stofnuðum stéttarfélög (stéttarbarátta, í jákveðnum skilningi) og fjöldaflokka til að heyja mannréttindabaráttu gegn auðvaldinu. Við virkjuðum lýðræðið til þess að breyta eigna- og tekjuskiptingunni í jafnaðarátt. Þess vegna heitum við jafnaðarmenn. Það er kjarninn í hugmyndafræði okkar. Því að með auknum jöfnuði aukum við frelsi einstaklingsins – mannréttindi hans.

2.
Þú heldur því fram, að Marx hafi verið vondur maður og að glæpsamnlegt stjórnarfar Leníns, Stalíns og Maós sé “óhjákvæmileg” niðurstaða af hugmyndakerfi Marx. Þú bendir á ritningarstaði máli þínu til sönnunar. Ég hirði ekki um ritningarstaði. Við kratar trúum ekki á óskeikulleik páfans og leitum ekki uppi ritningarstaði, okkur til halds og trausts. Enda eru margir ritningarstaðirnir. Einhvers staðar má finna fyrir því flugufót, að Marx hafi ekki útilokað á a efri árum að koma mætti á sósíalisma eftir leiðum lýðræðisins (þetta mun hafa verið í greinum hans í N.Y. Times). Samstarfsmaður hans og arftaki, Engels, var alla vega orðinn nokkuð klár á þessu undir lokin. Sósíalismi var alla vega eitthvað, sem átti að taka við, þegar kapítalismann hefði þrotið örendið. Hvorki Marx né Engels gerðu ráð fyrir, að valdaræningjar örfámennrar minnihlutaklíku í frumstæðu miðaldalénsveldi myndu kenna stjórnarfar sitt við sósíalisma.

Við jafnaðarmenn sækjum greiningu okkar á fólsku kapítalismans til Marx. Samt verðum við seint sakaðir um að vera alræðissinnar. Þvert á móti. Það hefur verið okkar hlutverk að virkja lýðræðið og beita því gegn auðvaldinu í þágu mannréttinda. Þetta höfum við gert, þrátt fyrir að hafa þegið hluta af hugmyndaarfi okkar frá Marx. Ef Rússland hefði verið lýðræðisríki (sem það sannanlega hvorki var né er), verður það að teljast afar ólíklegt , að hin sósíalíska hreyfing þar hefði endað í gúlagi Leníns og Stalíns.
Að vísu eru til frjálshyggjutrúboðar (Hayek og lærisveinar hans), sem halda því fram, að allt andóf gegn óbeisluðum kapítalisma, endi “óhjákvæmilega” í alræði. Hayek spáði því, að vöxtur ríkisvaldsins í velferðarríki jafnaðarstefnunnar mundi “óhjákvæmilega” enda í alræði (rétt eins og sóvétkommúnisminn). Þetta var og er bull. Það er þvert á móti. Óbeislaður kapítalismi (plutocracy) endar í alræði auðsins. Íhlutun ríkisvaldsins (lýðræðið), sem stuðlar að auknum jöfnuði lífsins gæða (ekki bara efnislegum verðmætum heldur líka mannrétindum) styrkir frelsið í andófi gegn alræðistilhneigingum. Þetta skildi Willy Brandt manna best. Einmitt þetta inspireraði ræður Olofs Palme. Alls staðar þar sem auðræðið er allsráðandi, er lýðræðið keypt og þar með feigt. Það eru margar tegundir af alræðisstjórnarfari – hvort heldur böðulshöndin er brún eða rauð. Gleymum því ekki.

3.
Við Íslendingar verðum nauðugir/viljugir að horfast í augu við það þessi misserin, að kapítalistar, sem fengu að vaða hér uppi, aðhalds- og eftirlitslaust, í skjóli hugmyndafræði frjálshyggjunnar, enduðu sem glæpamenn og þjóðníðingar. Kapítalisminn er nefnilega manneskjufjandsamlegur – ófreskja sem nærist á blóði fórnarlamba sinna – ef honum er ekki haldið í skefjum. Kapítalisminn á sér líka sín fórnarlömb. Og skrímslið er engan veginn dautt úr öllum æðum.

Seinustu áratugina hefur kapítalisminn farið hamförum um heimsbyggðina. Ef þú smalar saman á einn stað þeim einstaklingum, sem ráða yfir helmingnum af öllum auði rúmlega sex milljarða jarðarbúa, þá gætu þeir sennilega komist fyrir í einu partýi í höll Berlusconis á Sardíníu. Auðurinn, sem þetta lið stýrir (og í þessum hópi eru allir helstu valdaræningjar og þjófar í ríkjum þriðja heimsins) er meiri en nemur þeirri “þjóðarframleiðslu” , sem kemur í hlut þrjú þúsund og fimm hundruð milljóna manna. Það er m.ö.o. satt, sem Jeffrey Sachs hefur sagt (í End of Poverty), að mannkynið ræður yfir nægum auð og tækni til að útrýma örbirgðinni í okkar samtíð.

Í þessum skilningi er heimskapítalisminn glæpur. Hann ber ábyrgð á örkumlum og dauða hundruða milljóna saklausra fórnarlamba. Það er kaldhæðni sögunnar, að eini staðurinn á jarðarkringlunni seinasta aldarfjórðunginn, þar sem hefur tekist að lyfta hundruðum milljóna upp úr örbirgð til bjargálna er í Kína – undir stjórn arftaka Maós. Í Afríku fer ástandið versnandi. Í Suður-Ameríku sömuleiðis – þar til nú á allra seinustu árum, að einhver árangur er sýnilegur (t.d. undir Lula í Brazilíu og Chavez í Venezuela). Ég held, að það sem hvatti föður okkar til dáða við að rétta hlut fátæks fólks í hans nánasta umhverfi, hafi verið sú sannfæring hans, að örbirgð – mitt í allsnægtum – sé glæpur. Gleymum því ekki.

4.
Ég hef lengi haft mætur á Gunnari Dal og merku höfundarverki hans. Mér er minnisstætt, þegar hann lýsti einhverju sinni fyrir mér þeirri skoðun sinni, að hugmyndakerfi hindúismans – sem telst til helstu trúarbragða mannskepnunnar – væri í eðli sínu forkastanlegur fordæðuskapur. Samkvæmt þessu hugmyndakerfi er fólk um aldur og ævi dregið í dilka forréttinda og fordæmingar í nafni æðri forsjónar. Hinir ósnertanlegu eru úrhrök mannkynsins og skulu vera það um aldur og ævi.

Ég hef verið að lesa mér til um Islam og Vestrið. Það litla sem ég veit um fordæðuskap öfgahópa innan Islam (whahabistar), kemur mér ekki spánskt fyrir sjónir. Blint ofstæki réttlætt í nafni óskeikuls guðs, sem um leið kyndir undir hatri á vantrúuðum og villutrúarmönnum, sem réttlætir að þeim sé útrýmt. Fórnarlömb nasismans í helförinni, sem nú hafa rænt fátækt fólk í Palestínu landi sínu og lýðréttindum, og hafa umbreyst úr fórnarlömbum í böðla, réttlæta öll sín skammarlegu ódæðisverk sem hin guðsútvalda þjóð Javes. Allt það versta í amerískum kapítalisma – sem ég kynntist mér til mikillar armæðu á Bandaríkjaárunum – var vafið inn í hræsnisdruslur og skinhelgi bókstafstrúarinnar.

Hvarvetna um heimsbyggðina, þar sem rummungsþjófar hins alþjóðlega kapítalisma leggjast á auðlindir fátækra þjóða, kynda þeir undir og kosta blóðug ofbeldisverk og linnulausar styrjaldir, sem jafnan eru réttlættar með skírskotun til einhvers upphafins rétttrúnaðar, sem á að duga til að réttlæta glæpinn. Var þetta ekki einmitt birtingarmynd nýlendustefnunnar? Nýlenduherrarnir óðu um rænandi og ruplandi með byssuna í annarri hendi og bíblíuna í hinni. Satt að segja örvænti ég um það, að nokkurn tíma verði komið á þolanlegum friði í mannheimum, svo lengi sem þessi fordæðuskapur allur er enn við lýði og ræður örlögum fólks. Ég fær ekki betur séð, en að Marx hafi haft rétt fyrir sér, þegar hann sagði að trúarbrögð, hvaða nafni sem þau nefnast, séu “ópium handa lýðnum”.

Þetta er nú orðið lengra en ég ætlaði, kæri bróðir. Þú vitnaðir í upphafi í fjallræðumanninn, sem boðaði, að það sem þú vilt, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Kirkjan er fjarri því að hafa reynst vera samboðin fagnaðarerindi Krists. Það er eins með hugsjón sósíalismans, sem er náskyld kærleiksboðskap Krists, um að frelsa fátækt fólk frá áþján og afsiðun örbirgðarinnar, að fáir reynast hugsjóninni trúir í verki. Er það ekki hinn mannlegi harmleikur? Samt megum við ekki gefast upp. Lifi frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Með bróðurlegum kveðjum,
Jón Baldvin