ÞRÖSTUR ÓLAFSSON

Ég man það enn eins og það hefði gerst í gær. Inn á svart/hvítan sjónvarpsskjáinn ruddist allt í einu maður með allt fráflakandi – byltingarmaðurinn bindislausi frá Berlín – eins og Alþýðublaðið uppnefndi hann forðum daga.

Rudi Dudscke Íslands og Cohn-Bendit –muniði ennþá eftir þessum gæjum – í einni og sömu persónunni? Stúdentabyltingin holdi klædd var komin til Íslands.

Sjá roðann í Austri, hann brýtur sér braut
fram bræður – það dagar nú senn!

Það tók dolfallna áhorfendur tímakorn að átta sig á því, hvað stæði til. Því að þótt róttækni Þrastar væri þingeysk – og reyndar þýsk í aðra áttina, þá var raunsæi hans rammvestfirskt, af Ströndum og úr Jökulfjörðum.

Þetta þýddi, að sjálfsritskoðun kollóttrar vanahugsunar væri fyrir bí. En það þýddi líka að leita skyldi praktískra lausna til að láta drauma rætast. Byltingin átti ekki bara að vera fyrir búskussa – hún átti að bjarga búskussunum frá sjálfum sér.

Þegar Þröstur fór að bjóða Alþýðubandalaginu sáluga upp á þýska hagfræði og “Vernunft” um rekstrargrundvöll atvinnuveganna, væri synd að segja, að söfnuðurinn hafi slátrað lambi til að fagna týnda syninum. Gott ef Lúðvík spurði ekki, hvort ekki væri nóg komið af skólabókaígulkerjum upp á dekk.

Þar með var veisluhöldum slegið á frest og farið að vinna. Síðan hefur Þröstur staðið í því að bjarga því sem bjargað verður; því að byltingarmaðurinn reyndist, þegar allt kom til alls, vera fastheldinn á það sem nýtilegt er úr fortíðinni.

Hann reyndi að bjarga KRON og SÍS frá sjálfum sér; hann tók að sér að kenna Guðmundi Jaka á Dagsbrúnarfundum – sem þá voru eins konar þjóðarstofnun – bæði “Wirtschaftswunder” og þjóðarsátt. Það þýddi á mannamáli að tryggja kaupmátt launa í kjarasamningum, fremur en að bjóða “steina fyrir brauð.” Þresti tókst að gera Austra kallinn, alías Magnús Kjartansson, Þjóðviljaritstjóra, að helsta talsmanni “stöðugleikans” og Ragnar Arnalds, hernámsandstæðing og leikritaskáld, að fyrirmynd íhaldssamra fjármálaráðherra.

Og mig auman, fóstraðan í Skotlandi í skóla Adams Smith, gerði hann að eurokrata, eins og þeir gerast bestir á bökkum Rínar. Og má ég minna á, “meine Damen und Herren”, að þýski krataflokkurinn var ljós heimsins, meðan þeirra naut við, Willys Brandt og Helmuts Schmidt og Þrastar sjálfs – en þeir eru nú ekki nema svipur hjá sjón eftir að vitringarnir þrír hurfu á braut.

Þröstur Ólafsson er sumsé maðurinn, sem hefur staðið í því að bjarga því sem bjargað verður og tekur við, þegar aðrir gefast upp. Hann reyndi meira að segja að bjarga Seðlabankanum frá gjaldþroti, löngu eftir að honum var ekki lengur viðbjargandi. Og hann bjargar því sem bjargað verður úr sögu þessa fiskiþorps gegnum Minjavernd og Gamalhús; og “ditto” með Mál og menningu og sósíaldemókratíið og sinfóníuna. –
Og nota bene: Sinfónían hefur reyndar aldrei spilað betur en nú, undir stjórn Þrastar. – Og svo er hann að bjástra við að byggja tónlistarhöll – í miðri heimskreppu – þegar allir aðrir eru hættir að byggja.

Þetta lýsir honum kannski best; hann tekur við, þegar aðrir gefast upp. Og nú, þegar allt er farið til helvítis – og ég sé enga ástæðu til að biðja forláts á orðbragðinu – þá þurfum við einmitt á slíkum manni að halda sem aldrei fyrr – nicht wahr, meine Damen und Herren.

Es lebe die Revolution.

Byltingin lifi og Þröstur lifi! – húrra, húrra, húrra.