DÓMUR SÖGUNNAR

Ræða Jóns Baldvins á þorrablóti íslenska samfélagsins í Brüssel 5. febrúar s.l.

Það fer vel á því hjá ykkur hérna í útlegðinni að halda í heiðri fornar dyggðir og blóta Þorra – sér í lagi, ef þetta er ein af fáum fornum dyggðum, sem við eigum eftir.

1.Sakleysið – síst má án þess vera.

Ég er kominn á svo þroskaðan aldur, að ég man þá tíð, þegar fjallkonan var eins og saklaus heimasæta í afdal, í samanburði við hinar glysgjörnu gálur í útlöndum. Við skildum bíllyklana eftir í svissinum og hús okkar og heimili stóðu opin allan sólarhringinn. Samt var engu stolið. Var það kannski af því, að það var engu að stela?

Ísland var heimsfrægt í hópi glæpasérfræðinga, af því að það var bara einn lífstíðarfangi á Litla Hrauni – þar sem fór vel um hann. Nú er svo komið fyrir okkur, að þótt við þjóðnýttum öll hótel landsins og bændagistinguna með, mundi það ekki duga til að hýsa allt það glæpahyski, sem, að sögn, leikur lausum hala um land allt og þarf að setja á bak við lás og slá.

Einu sinni kom breskur krimmagreinir í heimsókn og vildi ná tali af lífstíðarfanganum fræga. Þegar hann knúði dyra á Litla Hrauni, var honum sagt, að fanginn væri vant við látinn; hann hefði verið lánaður í heyskap uppi í Holtum. Ef hann yrði ekki kominn heim fyrir kvöldmat – yrði honum bara úthýst þá nóttina. Daginn eftir gerðist kriminallógurinn handlangari hjá glæpamanninum við að lappa upp á landrovera á nágrannabæjunum.

Svona var Ísland í den.

Nú er öldin önnur. Nú orðið verða Íslendingar að villa á sér heimildir í útlöndum til þess að forðast aðsúg á almannafæri. Þeir eru jafnvel farnir að ljúga því til, að þeir séu Danir til að losna við Brimarhólm og steglu. Öðru vísi mér áður brá. Sú var tíð, að Kjartani Ólafssyni, hinum rauða, sem sagður var víðförlastur Íslendinga á sinni tíð, þótti ástæða til að taka það fram í ævisögu sinni, Sól í fullu Suðri, að hann hefði aldrei stigið fæti á danska jörð.

Svo er annað. Íslendingar eru hættir að skrifa bókmenntir og farnir að skrifa glæpareyfara í staðinn. Þeir toppa metsölulista yfir glæpareyfara, meira að segja hjá þjóðum, sem eru víðkunnar fyrir glæpi gegn mannkyninu. Það eru ekki bara karlmennirnir, sem eru lentir í þessum skítabissness. Konurnar láta sitt heldur ekki eftir liggja. Arnaldur og Irsa og öll hin lýsa þvílíkum horror, sem gerist bak við birgða glugga í Breiðholtinu, að harðsvíruðum löggum og handrukkurum á Reperbahn rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds.

En það er erfitt fyrir þessa spennufíkla glæpasögunnar að keppa við veruleikann, sem sjálfur er lýginni líkastur. Það fór til dæmis hörmulega fyrir honum Ævari Erni Jósefssyni, sem er reyfarahöfundur númer eitt við götuna okkar uppi í Mosó. Hann lokaði sig af og vann dag og nótt við að framleiða hrylling upp í risaupplag, sem hann var búinn að handsala fyrir Þýskalandsmarkaðinn. Hann var kominn með þetta líka fína plott: Kauphallarsvindl, innherjaviðskipti, markaðsmisnotkun, mútur, morð, massaframhjáhald, sifjaspell og fantaflærð allra handa. Og krosseignatengsl í kaupbæti, sem minntu á fínustu ættartöflur.

Svo varð honum það á einn morguninn að fara út að ganga með hundinn. Hann rölti spölkorn upp með Varmánni og sá þá, að það var búið að rífa sumarbústað hjúkrunarkvennafélagsins. Í staðinn var búið að sprengja risabönker oní jörðina á mörgum hæðum og fylla þetta allt af kókaini og krakki, sem hefði dugað sem ársbirgðir handa Reykjavíkurmarkaðnum, að sögn sérfræðinga.

Þegar hann kom heim með hundinn, heyrði hann á gömlu gufunni, að nágranninn hefði rétt í því verið handtekinn á snekkju úti fyrir Austfjörðum með fullfermi af dópi. Þetta markaðsátak hefði allt lukkast, ef gamaldags og lummó loðnuveiðiskip hefði ekki þvælst fyrir þeim snekkjumönnum og spillt þessu hagvaxtarævintýi. Svo höfðu hundarnir í sveitinni – í Mosó – þefað uppi stöffið í birginu og komið upp um allt saman – á undan löggunni. Eini maðurinn sem vissi ekki neitt um glæpasögu grannans – sem var að gerast fyrir framan nefið á honum – var sjálfur glæpasöguhöfundurinn í næsta húsi. Hann var svona ámóta grunlaus og fjármálaeftirlitið var gagnvart bönkunum. Sjáandi sá hann ekki og heyrandi heyrði hann ekki.

Er nema von, að við höfum orðið að kalla á “holy miss Sjólí” okkur til bjargar.

2. Á kafi í spillingunni

Í vikunni sem leið fórum við Bryndís á frumsýninguna á “Maybe I should have” – Það er splunkuný íslensk heimildamynd um stærsta bankarán sögunnar. Myndin segir frá því, að það var brotist inn hjá þjóð úr alfararleið og stolið öllu steini léttara; síðan var þessi ólánsama þjóð hneppt í skuldafangelsi, til að borga skuldir þjófanna. Þetta er svona eins og þegar Finnar voru dæmdir í stríðsskaðabætur fyrir það, að Rússar réðust á Finna.

Titill myndarinnar vísar til þess, að Norðmaður að nafni Haarde, sem BBC, af óskiljanlegum ástæðum, hélt að væri íslenskur forsætisráðherra og spurði í Hard Talk, hvort hann hefði ekki gert upp sakirnar við Gordon nokkurn Brown, sem setti hryðjuverkalög á þjóð hans – og fékk þetta fræga svar: “No, but maybe I should have”. Síðan segir ekki meir af þessum Norsara. Þetta virðast hafa orðið hans pólitísku andlátsorð.

Höfundur myndarinnar stendur allt í einu uppi á götunni, slyppur og snauður, eignalaus og skuldugur upp fyrir haus, og veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið. Hann er m.ö.o. holdgervingur íslensku þjóðarinnar. Hann fer af stað út um allar trissur með eina spurningu á vörunum: Hvar eru peningarnir? Hann fer í Arnarhvol og Seðlabanka og Wall Street við Sundin blá, en finnur ekkert og fær engin svör.

Þá flýgur hann út til London og hittir fyrir rogginn útrásarvíking á silkinærslopp, sem segir honum, að peningarnir séu ekki lengur á þessu tilverustigi: Þeir séu á himnum – í einhverju, sem hann kallaði “Money-Heaven”. Og rifjast þá upp fyrir spyrlinum barnatrúin um guðinn Mammon, sem hann vissi þó ekki fyrir, að hefði gert hallarbyltingu á himnum.

Næst skrapp hann til Guernsey. Þar hitti hann fyrir geðþekka ömmu, sem saknaði ævisparnaðar síns; og átti nú ekki lengur fyrir útförinni. Hún kannaðist ekki við, að elliífeyririnn hennar væri á himnum. Og treysti því varlega, að hún gæti gengið að honum vísum þar, þótt hún væri senn á förum til efri byggða. Hún sagiðst hafa trúað þjóðbanka Íslendinga fyrir peningunum sínum. En nú fengi hún þau svör, að það væri helst von til, að fjársjóðurinn fyndist á sólskinseynni Tortólu í Karíbahafinu.

Okkar maður brá sér þangað. Landstjóri hennar hátignar gladdist sýnilega yfir því, að sjá Íslending af holdi og blóði. Hann hafði aldrei séð slíkan fyrr og sagðist hafa verið farinn að efast um, að Íslendingar væru í rauninni til. Hins vegar ættu þeir mörg þúsund pósthólf þar á eynni, þar sem þeir væru sagðir geyma ”ástarbréfin” sín. Peninga væri hins vegar enga þar að finna. Og hann stakk upp á því, hvort ekki væri ráð að leita betur í Lundúnum og Lúxemburg eða Mónaco eða Kýpur, þar sem kampavínið flýtur.

Loks fór okkar maður í öngum sínum á vit “Transparency International” í Berlín. Þar á bæ höfðu vísir menn gefið út vottorð á liðnum árum um, að Ísland væri óspilltasta land í heimi. Þeir hlytu því að vita, hvar peningarnir væru niður komnir. Þar tóku á móti okkar manni skrækróma amerísk college girls. Þær sögðust ekki vera banki heldur rannsóknarstofnun, sem beitti faglegum vinnubrögðum við að afhjúpa spillingu í opinbera geiranum. Og hverja spyrjiði – spurði okkar maður. Og fékk svarið: “Leiðandi menn í viðskiptum, einkum menn sem stjórna bönkum og fjármálastofnunum.” Þegar okkar maður missti út úr sér: “Eruð þið virkilega svona vitlaus…? “ var snarlega skellt í lás. Engan dónaskap hér, takk.

3. Krufningin

En hvað sem líður öllu krepputali okkar guðsvoluðu þjóðar – þá eru enn til meðal vor fáir útvaldir, sem aldrei hafa lifað aðra eins gullöld og góssentíð. Hverjir eru það? Það eru þeir, sem guðinn Mammon hefur velþóknun á? Það eru lögfræðingarnir – endurskoðendur og lögfræðingar, sem nú ganga undir samheitinu “skilanefndarmenn.” Þeir eru þeir einu, sem skilja systemið í galskapnum; sem kunna skil á réttu og röngu; þeir skilja sauðina frá höfrunum – þeir gera þessu öllu skil – en skilja lítið eftir handa öðrum. Þess vegna heita þeir skilanefndarmenn.

Ef lítil og krúttleg börn eru spurð nú til dags: “Hvað ætlar þú að verða, væna mín/væni minn, þegar þú ert orðinn stór, þá svara börnin öll í kór: Við ætlum að verða lögfræðingar og endurskoðendur og komast í skilanefnd. Skilst fyrr en skellur í tönnum. En þeir sem ekki ná því að verða skilanefndarmenn, hvað ætla þeir að gera? Þeir ætla að verða Norðmenn.

Var það ekki Ari fróði sem sagði: Með lögum skal land byggja? Og Ljósvetningagoðinn, sem bætti við: Ef við slítum í sundur lögin, þá slítum við í sundur friðinn. Hann var aldeilis framsýnn, þessi Ljósvetningagoði.

Þótt allir aðrir verði ýmist landflótta eða atvinnulausir, verður nóg að gera við réttarhöld yfir hinum grunuðu og við uppboð á eignum hinna skuldseigu, a.m.k. milljón mannár fram í tímann. Látum vera með réttlætið – en réttvísin verður alla vega að hafa sinn gang. Grípum hér niður í réttarhaldsskýrslu, þar sem saksóknari yfirheyrir einn arman lækni eftir krufningu á grunsamlegu fórnarlambi:

Saksóknari: Tékkaðirðu á slagæðinni, áður en þú krufðir líkið?
Læknir: Nei.
Saksóknari: Mældirðu blóðþrýstinginn?
Læknir: Nei.
Saksóknari: Hlustaðirðu eftir andardrætti?
Læknir: Nei.
Saksóknari: Það er þá til í dæminu, að sjúklingurinn hafi verið lifandi, þegar þú framdir krufninguna?
Læknir: Nei.
Saksóknari: Hvernig getur þú verið svona vissir í þinni sök, læknir?
Læknir: Vegna þess að heilinn úr sjúklingnum var í krukku á borðinu mínu.
Saksóknari: Ég skil, en gæti sjúkingurinn samt sem áður ekki hafa verið með lífsmarki?
Læknir: Þú segir nokkuð, heilalaus en með lífsmarki ? Varla, nema hann hafi þá verið praktíserandi lögfræðingur.

4. Þeir stjórnmálamenn sem þjóðin á skilið.

Það er haft fyrir satt, að hver þjóð eignist þá stjórnmálamenn, sem hún á skilið. Sé þetta satt, vaknar önnur spurning: Hvað í ósköpunum hafa Íslendingar af sér brotið gagnvart sköpunarverkinu, að eiga skilið þessa svokölluðu stjórnmálamenn, sem þeir sitja uppi með?

Roy Hattersley var einu sinni aðstoðarutanríkisráðherra Breta. Hann lenti í þeirri ógæfu að þurfa að prútta við Íslendinga um uppsprettu þjóðarauðs þeirra – þorskinn. Hann segir um þessa reynslu sína, að það sé ástæðulaust að búast við því, að fólk sem leggur ótilneytt út á opið haf í opnum bátskænum og hrekst undan veðri og vindum að ströndum eldfjalls úti í hafsauga – og telur sig hólpið að húka þar, fremur en að búa innan um sívilíserað fólk – að það sé ástæðulaust að ætla, að svoleiðis fólk sé eins og fólk er flest.

Enda segir hann, að reynslan af samskiptum annarra við Íslendinga hafi staðfest þetta. Það bætir svo ekki úr skák, að erfðamengi þjóðarinnar er samansúrrað af DNA klausturræningja, nauðgara og skattsvikara úr afdölum Noregs, í bland við keltneska þræla, skyndikonur og stjórnleysingja – og þar með varla von á góðu. Samt segist hann ekki geta annað en dáðst í aðra röndina að því, sem hann kallar “the concentrated bloodymindedness”, sem einkennir þessa sauðþráu eyjarskeggja.

Þess vegna segist hann ekki hafa staðist freistinguna og heimsótt Ísland aftur, eftir að hann sannspurði, að “the mad scientist” – hann á auðvitað við Ofur-Kára hjá Íslenskri erfðagreiningu – byði upp á þá þjónustu að afhjúpa erfðagen flestra þeirra sjúkdóma, sem hrjáð hafa mannkynið hingað til. Að lokinni rannsókn á Roy kallaði Kári hann fyrir. Svo sagði hann beint upp í opið geðið á tilraunadýrinu:
“Þér eruð með krabbamein, æðakölkun og alzheimer”.
“Ég reyndi að líta á björtu hliðina,” sagði Roy, og spurði:
“Hvað með offitugenið? Er hægt að breyta því?”
”Nei”, svaraði Ofur-Kári að bragði:
” Þú ert feitur af því bara, það er lífsstíll letingjans”.
“Þetta er enn eitt aðdáunarvert karaktereinkenni Íslendingseðlisins”
“Þeir eru ekkert að skafa utan af því, ef þeim er í nöp við einhvern” – sagði Roy um þessa lífsreynslu sína.

“Ætli þetta sér skýringin á því, hvers konar stjórnmálamenn veljast til þess að hafa orð fyrir þessu fólki,” spurði hann sjálfan sig.
………………….
Jósef Stalín var sem kunnugt er, á hérvistardögum sínum, einn af afkastamestu fjöldamorðingjum sögunnar. Hann var Ingúseti í aðra ættina en Georgíumaður í hina. Sums sé frá Kákasus. Það hefur verið heldur ófriðvænlegt á þessum slóðum, allt frá því að Örkin hans Nóa strandaði á fjallstindinum Ararat í Nóaflóðinu forðum daga.

Þegar amma Stalíns var spurð, hvort hún væri ekki stolt af frama sonarins, færðist hún undan að svara í fyrstu, en sagði svo feimnislega: “Hugsið ykkur bara, ef hann hefði klárað prestaskólann í Tiblísi, þá væri hann kannski orðinn biskup”. – Þar missti rétttrúnaðarkirkjan rússneska af efnilegum trúboða, ekki satt?

Okkar maður, Davíð Oddsson, þolir að sönnu engan mannjöfnuð við mannvininn mikla frá Kákasus, Jósef Djúgasvili, þótt báðir eigi það sameiginlegt að hafa verið dáðir flokksleiðtogar á sinni tíð. En samanburðurinn nær eiginlega ekki mikið lengra. Eftir mikið og fórnfúst starf var Stalín lagður til hinstu hvílu í grafhýsi sínu á Rauða torginu. Það þurfti hins vegar bæði búsáhaldabyltingu og byggingarkrana til að hífa Davíð út úr virkinu undir Svörtu loftum. Og þá tók ekki betra við: Hann lét skipa sig ritstjóra Prövdu – sem var meira en Stalín hugkvæmdist nokkurn tíma – til þess að segja sannleikann á síðum blaðsins um það, hvernig hann sá fyrir hrunið, en fékk ekki að gert fyrir ofríki vondra manna. Með þessu snilldarbragði sló hann við hinu stórveldinu í leiðinni. Eða hvenær hefði það hvarflað að Könum, eftir að búið var að bera Nixon út úr Hvíta húsinu, að gera hann að ritstjóra Washington Post, til þess að hafa seinasta orðið á síðum blaðsins um Watergate? – Hvað sagði ekki sjálfur Churchill: “Ég hef engar áhyggjur af dómi sögunnar – ég ætla að skrifa hann sjálfur.”