Það var við þessar tvísýnu aðstæður, að við Steingrímur Hermannsson sórumst í pólitískt fóstbræðralag.Við náðum, ásamt samstarfsmönnum okkar, samstöðu um úrræði, sem dugðu við bráðavanda þess tíma.Svo settum við kúrsinn um, hvert skyldi halda. Niðurstaðan varð myndun vinstristjórnar, undir forystu Steingríms, sem var við völd til loka kjörtímabilsins vorið 1991. Þetta kom mörgum í opna skjöldu. Það hafði verið fátt með frændum, jafnaðar- og samvinnumönnum, um hríð. En aðsteðjandi vandi neyddi okkur Steingrím til að slíðra sverðin og snúa bökum saman, svo sem gert höfðu feður okkar, Hermann og Hannibal, forðum daga.
Það var þessi ríkisstjórn, sem réði niðurlögum verðbólgunnar, í nánu samstarfi við verkalýðshreyfingu og samtök atvinnurekenda um þjóðarsátt. Sá árangur hefði ekki náðst, hefði forsætisráherrann ekki notið trausts samningsaðila. Þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir róttækum kerfisumbótum, sem breyttu þjóðfélaginu, þótt síðar yrði. Þetta á ekki hvað síst við um EES-samninginn. Hann var, hvað inntak varðar, til lykta leiddur í stjórnartíð Steingríms, þótt ekki bæri hann gæfu til að fylgja því verki eftir. Það voru mistök, eins og Steingrímur viðurkennir í merkri ævisögu sinni, sem Dagur B. Eggertsson skráði.
Þessi vinstristjórn Steingríms Hermannssonar var trúlega best mannaða ríkisstjórn lýðveldisins hingað til, ásamt með fyrstu viðreisnarstjórninni 1959-63. Það var ekki heiglum hent að halda saman svo óstýrilátu liði í þriggja flokka stjórn (og reyndar fjögurra, síðar meir). Það var viðtekin trú manna, studd heilli kenningu í stjórnmálafræði, að þriggja flokka samsteypustjórnir, gætu ekki haldið út saman í heilt kjörtímabil. Sundurlyndið yrði þeim óhjákvæmilega að aldurtila. Steingrímur afsannaði þessa kenningu í verki og sannaði um leið, að hann væri föðurbetrungur að þessu leyti.
Steingrímur var maður hermannlegur á velli og kippti því í kynið til föður síns, glímukappans og Strandagoðans. Hann var vel íþróttum búinn á yngri árum og harður keppnismaður, þegar á reyndi. Hann undi lítt sínum hlut, nema hann stæði fremstur meðal jafningja. Hann var því vel til forystu fallinn. En öðrum þræði reyndist hann vera mannasættir, sem átti auðvelt með að laða aðra til samstarfs. Talsamband hans við þjóðina var gott. Almenningur skynjaði einlægni hans og vændi hann hvorki um hroka, undirhyggju né óheilindi.
Steingrímur var einn fárra verkfræðinga, sem gert hafa stjórnmál að ævistarfi (Jón Þorláksson og Emil Jónsson koma þó upp í hugann).Svo sem vænta mátti af verkfræðingi, var hann tæknilega þenkjandi og leitandi að praktískum lausnum. Hann treysti sér vel til að rökræða vandamál til niðurstöðu; og þar með að taka tillit til málflutnings annarra, ef hann var studdur sannfærandi rökum. Kannski var einmitt þetta lykillinn að því, hve vel honum fórst úr hendi pólitísk verkstjórn. Hann kunni að láta aðra njóta sannmælis.
Með formannsferli Steingríms Hermannssonar lauk stórveldistímabilinu í sögu Framsóknarflokksins, þegar arftakar Jónasar frá Hriflu höfðu bæði metnað og burði til að etja kappi við íhaldið um forystu fyrir landsstjórninni. Þeir timar eru nú liðnir og koma ekki aftur.
Steingrímur Hermannsson var farsæll stjórnmálamaður, sem setti sterkan svip á samtíð sína. Um leið og við þökkum góð kynni og árangursríkt samstarf, flytjum við Bryndís Eddu, afkomendum þeirra, fjölskyldu allri og frændgarði, hugheilar samúðarkveðjur.