ANDSVÖR

SJÁLFSTÆÐI: Sjálfstæði í orði er ekki sama og sjálfstæði í verki. Haiti er ekki öfundsvert af sínu “formlega” sjálfstæði. Forskriftin að velgengni Íslendinga á 20stu öld var þessi: 1.
Innlent framkvæmdavald + erlent fjármagn + óhindraður markaðsaðgangur = hagvöxtur. Undirskilið var tiltölulega hátt menntunarstig þjóðarinnar. Evrópusambandsaðild nú er jafngild þessari forskrift, miðað við breyttar aðstæður. Eystrasaltsþjóðir fögnuðu endurheimt formlegs sjálfstæðis 1991. Með ESB-aðild árið 2004 festu þær sjálfstæðið í sessi og tryggðu það fyrir utanaðkomandi ásælni. Hrunið hefur hneppt Íslendinga í skuldafangelsi. Það jafngildir því að glata efnahagslegu sjálfstæði sínu. Við þurfum að endurheimta það – og festa síðan í sessi með aðild að Evrópusambandinu, rétt eins og vinaþjóðir okkar við Eystrasalt.

2.
LÝÐRÆÐI. Evrópusambandið er samtök lýðræðisríkja. Meðal aðildaríkja eru sum þroskuðustu lýðræðisríki í heimi, eins og t.d. Norðurlandaþjóðir. Við eigum að skipa okkur í sveit með þeim, í svæðisbundnu samstarfi Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóða, innan ESB. Evróðusambandið hefur stuðlað að því að leysa fleiri þjóðir undan oki einræðis (Spánn, Portúgal, Grikkland, Mið-og Austur-Evrópa og þjóðirnar á Balkanskaga) en nokkur önnur fjölþjóðasamtök. Aðildarþjóðirnar velja sér ríkisstjórnir, sem fara með æðsta vald innan ESB í ráðherraráðinu og deila löggjafarvaldinu með Evrópuþinginu, sem er kosið beint af aðildarþjóðum. Dræm kosningaþátttaka er á ábyrgð kjósenda sjálfra. Kjósendur geta sjálfir ráðið bót á því.

3.
ÁHRIF SMÁÞJÓÐA: Stórþjóðir geta beitt valdi (pólitísku, efnahagslegu, hernaðarlegu) til að fá sitt fram. Það geta smáþjóðir ekki. Þær þurfa að reiða sig á lög og rétt og samninga um lausn deilumála til að gæta hagsmuna sinna. ESB er fjölþjóðasamtök, sem hafna valdbeitingu sín í milli og skuldbinda sig til að leysa ágreiningsmál með samningum. Mikill meirihluti aðildarþjóða eru smáþjóðir, sem eiga það sameiginlegt að telja áhrif sín meiri innan ESB en í einangrun utan dyra. Aðildarþjóðir geta beitt áhrifum sínum með bandalagsþjóðum innan ESB gegn utanaðkomandi. Icesave er dæmi um það Ísland hefði haft sterkari vígstöðu til að leysa það mál, innan ESB en utan. Raunveruleg áhrif mælast ekki í atkvæðafjölda í valdastofnunum, þar sem aldrei er látið reyna á afl atkvæða gegn þjóðarhagsmunum aðildarríkis. Áhrifin ráðast af málstað þjóða og málflutningsgetu við samningaborðið.

4.
MIÐSTÝRING/VALDDREIFING: Innan ESB takast á andstæð sjónarmið miðstýringar (e. federalismi) og valddreifingar (til aðildarþjóða). Sem aðilar að smáþjóðaklúbbi Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóða munu Íslendingar fylla síðarnefnda flokkinn. Yfirþjóðlegu valdi innan ESB eru settar ákveðnar skorður, í samanburði við vald þjóðríkjanna. Það má ráða af þeirri staðreynd, að sameiginleg fjárlög ESB nema að hámarki 1.24% af VLF aðildarríkja. Á Íslandi eftir hrun tekur opinberi geirinn til sín meira en 50% af VLF.

5.
HERSKYLDA? Aðildarríkin halda sjálf uppi landvörnum. Því til viðbótar er viðbragðalið til friðargæslu (RRF) , sem byggir á sjálfviljugu samstarfi. Sum aðildarríki eru hlutlaus (t.d. Írland) , eða standa utan bandalaga (t.d.Svíþjóð og Finnland), og geta því ekki skv. eigin stjórnskipan tekið þátt í hernaði utan eigin landamæra. Það gat Ísland hins vegar, með stríði gegn Írak, skv. ákvörðun tveggja einstaklinga. Það er á valdi aðildarríkjanna sjálfra, hvernig þau haga landvörnum. Sum eru í hernaðarbandalagi (NATO) – önnur ekki.

6.
ÞJÓÐAREIGN Á AUÐLINDUM: Með veðsetningu veiðiheimilda – eins og um einkaeign væri að ræða – fyrir erlendum lánum, hafa núverandi kvótahafar sökkt sjávarútveginum í skuldir. Þeir hafa um leið komið veiðiheimildum í íslenskri lögsögu á forræði erlendra lánadrottna. Hræðsluáróður þessara sömu aðila gegn ESB aðild, um framsal auðlinda í hendur útlendinga, kemur því úr hörðustu átt. Þeim ferst, eða hitt þó heldur. Staðreyndin er sú, að aðildarþjóðir ESB ráða sjálfar yfir auðlindum sínum. Það er á valdi Íslendinga sjálfra að binda það í stjórnarskrá, að náttúruauðlindirnar séu ævarandi sameign þjóðarinnar, og að fylgja því eftir í framkvæmd með gjaldtöku fyrir nýtingarréttinn.

Hitt er svo álitamál, hvort útiloka eigi sjávarútveginn – þar sem Íslendingar njóta samkveppnisyfirburða – frá aðgangi að erlendu fjármagni. Hvers vegna sækjumst við eftir erlendu fjármagni til að nýta orkulindir okkar, en viljum á sama tíma útiloka sjávarútveginn frá því að njóta sömu kjara? Það eru fordæmi fyrir varanlegum undanþágum þjóða, (t.d. Maltverjar og Danir) varðandi fjárfestingarétt. Ég tel, að Íslendingar eigi ekki að sækjast eftir slíkum undanþágum. Í staðinn á að takmarka hámark eignarhlutar erlendra fjárfesta Ísjávarútvegsfyrirtækjum, skylda fyrirtækin til að eiga lögheimili í íslenskri lögsögu og koma á löndunarskyldu afla, sem og að meirihluti áhafnarmeðlima skuli vera íslenskir ríkisborgarar. Um nýtingarrétt á deilistofnum þurfum við að semja við aðra á grundvelli veiðireynslu, eins og verið hefur.