Þrátt fyrir allt þrasið og fjasið stendur sú staðreynd óhagganleg, að Icesave – þetta tilræði við efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar – er runnið undan rifjum íslenskra manna og á ábyrgð Íslendinga, ýmist vegna aðgerða þeirra eða aðgerðaleysis. Íslensk stjórnvöld réðu yfir lagaheimildum og stjórnvaldsúrræðum, sem hefðu dugað til að forða þjóðinni frá Icesave-reikningnum. Þau brugðust. En í stað þess að viðurkenna mistök sín – svo að af þeim megi læra – reyna þau nú, úr stjórnarandstöðu, að skella skuldinni á alla aðra. Þannig reyna þeir, sem bera þyngsta ábyrgð á óförum okkar, að beina athyglinni frá sjálfum sér með því að kenna öðrum um. Rökin fyrir þessum fullyrðingum standa óhögguð, þrátt fyrir allt þrasið. Rökin eru þessi:
- Ef eigendur og stjórnendur Landsbankans hefðu rekið fjárplógsstarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í formi dótturfyrirtækis en ekki útibús, væri lágmarkstrygging sparifjáreigenda á ábyrgð gistiríkjanna (Bretlands og Hollands) en ekki heimalands bankans (Íslands),
– þá væri enginn Icesave-reikningur til. - Ef Alþingi hefði lögleitt rammalög ESB (94/19/EB) um lágmarkstryggingu sparifjár árið 1999 með sama fyrirvara og t.d. Norðmenn (og fleiri EES-ríki), nefnilega að trygging tæki aðeins til innistæðureikninga í innlendum gjaldmiðli, þá hefðu íslensku bankarnir orðið að reka sína starfsemi erlendis í formi dótturfyrirtækja. Þar með hefði eftirlit og innistæðutrygging verið á ábyrgð gistiríkjanna.
– Þá væri enginn Icesave-reikningur til. - Ef eftirlitsstofnanir ríkisins, Seðlabanki og fjármálaeftirlit, hefðu sinnt embættisskyldum sínum og nýtt ótvíræðar lagaheimildir (sbr. t.d. lög um fjármálastofnanir nr. 161/2002) til að knýja eigendur Landsbankans til að reka fjáröflunarstarfsemi sína erlendis í formi dótturfyrirtækis, en ekki útibús, þá væri sparifjártryggingin á ábyrgð gistiríkjanna.
– Þar með væri enginn Iocesave-reikningur til. - Ef eigendur Landsbankans og stjórnendur Seðlabanka og Fjármálaeftirlits hefðu fallist á kröfur Seðlabanka Hollands og breska fjármálaerftirlitsins um að færa Icesave úr formi útibús Landsbankans yfir í dótturfélag, í stað þess að synja þessum tilmælum með yfirlæti og hroka,
– þá væri enginn Icesave-reikningur til. - Ef það sem hér hefur verið tíundað hefði verið gert í tæka tíð, hefði samþykkt Alþingis á lögum nr. 125, 6. okt. 2008 (neyðarlögin) um að íslenska ríkið bæri ábyrgð á öllum innistæðum í íslenskum bönkum ekki haft í för með sér mismunun viðskiptavina bankannna eftir þjóðerni, búsetu o.s.frv.. Þar með hefðum við ekki gert okkur sek um ótvírætt brot á jafnræðisreglunni. Þar með hefði Ísland ekki bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart 400 þúsund erlendum innistæðueigendum fyrir allt að 4 milljörðum evra. Þar með hefði Ísland hugsanlega getað farið dómstólaleiðina, án þess að taka þá áhættu að fá allan Icesave-reikninginn í hausinn, í staðinn fyrir helminginn, þ.e. lágmarkstrygginguna, eins og núv. samningur kveður á um.
– Allavega væri þá enginn Icesave-reikningur til.
Niðurstaða: Þrátt fyrir allt þrasið – upphrópanir, útúrsnúninga, lagakróka, kveinstafi og ofsóknaræði í meira en ár – stendur óhaggaður sá beiski sannleikur, að Icesave-reikningurinn er íslenskur að ætt og uppruna. Eigendur Landsbankans gáfu út Icesave-reikninginn, en íslensk stjórnvöld – eftirlitsstofnanir, oddvitar ríkisstjórna, ráðherrar efnahagsmála o.fl. voru í vitorði með þeim. Eins og fyrr segir höfðu íslensk stjórnvöld allar nauðsynlegar lagaheimildir og stjórnsýsluúrræði til að afstýra því að Icesave-reikningurinn félli á þjóðina. Íslensk stjórnvöld brugðust þeirri skyldu. Þau geta ekki varpað sök sinni yfir á aðra. Þau hafa líka brugðist þeirri skyldu réttarríkisins að koma lögum yfir fjárglæframennina og að gera upptækar eignir þeirra, áður en gengið verður að skattgreiðendum. Þetta veldur réttmætri reiði þjóðarinnar.
Þrjú þúsund ræður
Í þrjú þúsund ræðum hafa stjórnarandstæðingar á Alþingi í hálft ár fjargviðrast yfir nokkurn veginn öllu milli himins og jarðar, án þess þó að koma auga á eða viðurkenna kjarna málsins um okkar heimatilbúna böl. Þeir hafa t.d. spunnið upp sögur um samsæri vondra útlendinga gegn okkur, hinum saklausu fórnarlömbum; sjálfstæðismenn, sem vildu gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð og skattaparadís, hafa lýst IMF sem “handrukkara auðvaldsins”; lærisveinar og meyjar járnfrúarinnar Thatcher hafa farið hamförum gegn nýlendustefnu Breta og Hollendinga; leiðtogar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, sem hafa leyft handhöfum gjafakvótanna að veðsetja óveiddan fisk erlendum lánadrottnum bankanna, saka Evrópusambandið um að ásælast auðlindir Íslendinga; forystumenn Sjálfstæðisflokksins segja, að innistæðutryggingakerfi ESB feli hvorki í sér lagaskyldu né ríkisábyrgð, en samþykktu þó, undir forystu Geirs Haarde, Árna Mathiesens, þáv. fjármálaráðherra og Davíðs Oddssonar, þáv. Seðlabankastjóra, að ganga til samninga um Icesave á þeirri forsendu, að ríkið tryggði lágmarkstryggingu sparifjáreigenda; forystumenn Sjálfstæðisflokksins, þeir sem móta stefnuna frá degi til dags í Hádegismóum, jafnt sem hinir, sem framfylgja henni í Valhöll og á Alþingi, segja að innistæðutryggingakerfið eigi ekki við um kerfishrun, eins og það sem þeir bera ábyrgð á á Íslandi – en þorðu samt ekki að láta á þann málstað reyna fyrir dómstólum. Bretar hefðu látið sér fátt um finnast slíka tvöfeldni, og sagt: “They dare not put their money where their mouth is”.
Það er alveg sama, hvar við grípum niður í handritinu að þessum pólitíska farsa; hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á ofannefndum umræðuefnum, þá breytir það engu um þá óhagganlegu staðreynd, að íslensk stjórnvöld hafa sjálf lagt Icesave-skuldaklafann á sína þjóð. Íslenskum stjórnvöldum var í lófa lagið af afstýra því, að það gerðist. Þau brugðust. Í stað þess að viðurkenna sök sína til þess að læra megi af mistökunum, standa þau nú í stjórnarandstöðu fyrir leit að sökudólgum, alls staðar annars staðar en í eigin ranni, þar sem þá er að finna.
Icesave-málið verður ekki leyst með málþófi á Alþingi. Málþófið er heimatilbúið böl – hluti af vandanum en ekki lykill að lausninni. Lausnina er heldur ekki að finna í pólitískum látalátum veislustjóra útrásarinnar á Bessastöðum, sem reynir nú með sjónhverfingum að lappa upp á sinn laskaða orðstír. Og Icesasve-málið verður ekki leyst með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það gæti þvert á móti sett málið í óleysanlegan hnút. Að biðja þjóðina að samþykkja Icesave-reikninginn, er eins og að biðja þann, sem hefur orðið fórnarlamb glæps að leggja blessun sína yfir ódæðið.
Sáttahönd frá Eystrasalti?
Icesave-málið snýst einfaldlega um það að ná samningsniðurstöðu við viðsemjendur okkar um lausn, sem báðir aðilar geta lifað við. En nú er svo illa fyrir okkur komið, að stofnanir lýðveldisins ráða ekki við verkefni sín. Alþingi hefur reynst vera óstarfhæft. Ríkisstjórnin, þótt hún eigi að heita meirihlutastjórn, hefur í reynd ekki þingmeirihluta til að leysa málið. Þetta þýðir að við þurfum á hjálp að halda. Fyrsta skrefið í leit að lausn er að viðurkenna hreinskilnislega vanmátt stjórnmálaforystunnar og stjórnkerfisins. Næsta skref er að finna einhvern utanaðkomandi, sem nýtur trausts deiluaðila til að miðla málum. Við þurfum að kveðja til sáttasemjara.
Margir koma til greina.: Bill Clinton, fyrrv. Bandaríkjaforseti, er vel lesinn í Íslendingasögum og annálaður samningaþjarkur. Kannski finnst honum málið of smátt fyrir sig. Fyrrv. forseti Finnlands, Matti Ahtisaari, hefur áratugareynslu að baki af því að leiða saman deiluaðila, sem geta ekki hjálparlaust leyst ágreiningsmál sín. Fyrrv. untanríkisráðherra Þjóðverja, Joschka Fischer, hefur verið nefndur til sögunnar. Þjóðverjar hafa löngum borið góðan hug til Íslendinga (stundum af miður hróssverðum ástæðum), og sjálfur er Fischer aðsópsmikill stjórnmálamaður.
Ég leyfi mér að nefna hér enn einn frambjóðanda til þessa vandasama verks: Það er Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands. Ég tel, að sá sem velst til þessa vandasama verks, þurfi ekki aðeins að njóta trausts, heldur einnig að hafa greiðan aðgang að leiðtogum, stofnunum og aðildarríkjum Evrópusambandsins. Forseti Eistlands er öflugur stjórnmálamaður,sannfærandi málflytjandi og öllum hnútum kunnugur innan Evrópusambandsins. Hann kom alvarlega til álita sem forseti ráðherraráðs ESB, sem staðfestir, hvert álit menn hafa á honum. Það færi vel á því, að einhver af leiðtogum Eystrasaltsþjóða stigi nú fram fyrir skjöldu til að miðla málum milli Íslendinga og grannþjóða þeirra, úr því að við getum það ekki lengur sjálfir.
Ég skora hér með á forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra að hefja nú þegar kerfisbundna leit að öflugum sáttasemjara, til að hjálpa til við að leiða okkur út úr þeim ógöngum, sem okkar vanhæfu forystumenn hafa leitt okkur út í.