ÞJÓÐ MEÐAL ÞJÓÐA

INNGANGUR: Ólafur Kjaran, ritstjóri skólablaðs míns gamla skóla, Lærða skólans í Reykjavík, sneri sér til undirritaðs og formanns Heimssýnar með beiðni um að skiptast á skoðunum um kosti og galla Evrópusambandsaðildar. Fyrst átti hvor um sig að skrifa eins konar “framsögupistil” – en síðan koma með andsvör við pistli hins. Ég held, að þetta sé nokkuð gott framlag til að hjálpa leitandi sálum að gera upp hug sinn í stóru máli. Hér fer á eftir framsaga mín og andsvar við pistli Heimssýnar. Því miður hef ég ekki framlag Heimssýnar undir höndum, en mun birta það, framsögu og andsvar, fái ég það í tölvutæku formi innan tíðar – JBH.

EVRÓPUSAMBANDIÐ er allsherjar samtök lýðræðisríkja í Evrópu. Einu ríkin, sem ekki sækjast eftir aðild, eru olíu-konungdæmið Noregur og fáein örríki. Örríkin kjósa að standa fyrir utan, af því að þau ráða ekki við þær skuldbindingar, sem aðild fylgja. Örríki eru venjulega viðhengi við eitthvert annað ríki,(t.d. Lichtenstein við Sviss).

Hrunið vekur upp áleitnar spurningar um, hvort Ísland sé örríki. Ef meirihluti Íslendinga trúir því, að Ísland sé örríki, þá eigum við ekki erindi í ESB. Þá gæti komið til álita að gerast aftur einhvers konar viðhengi við Noreg. Ef við hins vegar trúum því, að Íslendingar geti verið þjóð meðal þjóða, þá eigum við samleið með Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðum í svæðissamstarfi smáþjóða innan ESB.

Fyrir þessu eru margvísleg rök. Sumpart byggja þau á neikvæðri reynslu okkar af frjálshyggjutilrauninni með Ísland, sem lauk með hruni. Sumpart byggja þau á jákvæðri reynslu smáþjóða af Evrópusambandsaðild.

Lítum fyrst á þau rök, sem byggja á höfnun á óbreyttu ástandi:

  • Í hnattvæddum heimi, þar sem alþjóðlegt fjármagn leitar óhindrað yfir landamæri þjóðríkja – og hefur vaxið þeim yfir höfuð að styrkleika – þurfa þjóðríkin (einkum smáþjóðir) að bregðast við til varnar lýðræði gegn auðræði, með svæðisbundnum samtökum. Evrópusambandið er varnarbandalag lýðræðisins í okkar heimshluta.
  • Ísland getur ekki varið fullveldi sitt, hvorki pólitískt né út frá öryggishagsmunum, eitt og óstutt. Frá og með seinni heimsstyrjöld lifði íslenska lýðveldið í skjóli Pax Americana. Það er liðin tíð. Við eigum samleið með grannþjóðum okkar í Evrópu í framtíðinni.
  • Aðild að Evrópusambandinu mun því styrkja veikburða fullveldi Íslands eins og annarra smáþjóða innan ESB, sem líkt er ástatt um.
  • Mikill meirihluti aðildarríkja Evrópusambandsins eru smáþjóðir, sem hafa meiri áhrif til varnar brýnustu þjóðarhagsmunum sínum innan sambandsins en utan.
  • Hrunið hefur afhjúpað banvænar veilur í stjórnskipan lýðveldisins. Hér hefur þrifist botnlaus spilling í stjórnmálum og efnahagsmálum. Henni er viðhaldið í skjóli sérhagsmuna, sem fótum troða almannahagsmuni. Aðild að Evrópusambandinu er samkvæmt reynslu annarra líkleg til að styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, valddreifingu og innviði réttarríkisin.
  • Aðild að Evrópusambandinu er líkleg til að tryggja meiri stöðugleika í efnahagslífinu, en það er forsenda fyrir uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs, sem byggir á vel menntuðu vinnuafli. Ella er hætt við, að Ísland staðni sem hráefnisútflytjandi – og útflytjandi á menntuðu fólki.
  • Aðild að Evrópusambandinu mun að öllum líkindum bæta lífskjör almennings í landinu með lægra verði á lífsnauðsynjum, lækkun fjármagnskostnaðar og öflugari neytendavernd, t.d. með afnámi verðtryggingar. Námsmenn munu eiga greiðari aðgang að framhaldsnámi og samstarf á sviði vísinda og menningar mun blómstra.

Hræðsluáróðurinn gegn aðild að Evrópusambandinu er ekki trúverðugur í ljósi reynslu annarra þjóða af aðild. Nefnum nokkur dæmi:

  • Það er ástæðulaust að óttast framsal náttúruauðlinda. Einstök aðildarríki hafa sjálf eignarhald á og forræði yfir auðlindum sínum.
  • Íslenska efnahagslögsagan er aðskilin frá lögsögu annarra aðildarríkja og meginið af nytjastofnum í fiskveðilögsögunni eru staðbundnir. Ekkert ESB ríki hefur sögulegan rétt til veiða innan íslensku lögsögunnar. Í aðildarsamningum munum við ekki gera kröfu til að fá veiðiheimildir frá öðrum, en munum ekki heldur láta af hendi veiðiheimildir. Það auðveldar samningsniðurstöðuna, að ekkert er frá neinum tekið, þótt íslenska fiskveiðilögsagan verði sérstakt fiksveiðistjórnunarsvæði.
  • Starfsskilyrði íslensks landbúnaðar munu óhjákvæmilega breytast í náinni framtíð, burtséð frá aðild að ESB. Ástæðan er alþjóðlegir viðskiptasamningar (WTO), sem munu auka milliríkjaviðskipti með landbúnaðarafurðir. Brýnir viðskiptahagsmunir valda því, að Íslendingar komast ekki hjá því að eiga aðild að slíkum samningum.
  • Evrópusambandið er hvorki sósíalískt skrifræðisbákn, eins og hægri menn halda fram, né heldur valdastofnun heimskapítalismans, eins og últravinstrið vill vera láta. Innan Evrópusambandsins er að finna sum þroskuðustu lýðræðissamfélög heims, auk þess sem Evrópusambandið hefur náð meiri árangri í að jafna lífskjör ríkra þjóða og snauðra en nokkur önnur fjölþjóðasamtök.

Treysti Íslendingar sér til þess að vera þjóð meðal þjóða í framtíðinni, eigum við heima, ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum, í allsherjarsamtökum evrópskra lýðræðisríkja. Þar er ekki á kot vísað.

Sjá andsvör