Nú þegar hugurinn leitar aftur til uppvaxtarára okkar í Ögri við Djúp vestur – þessara sælu sumra bernskunnar – uppgötva ég, sjálfum mér til furðu, að á okkur Halldóri var mikill aldursmunur í þá daga; hvorki meira né minna en sex ár.
Ég fattaði þetta ekki þá, enda var ég bara sjö en hann þrettán ára, þegar verkstjórn búsins var lögð á hans ungu herðar. Hann brást hvorki því trausti né neinu öðru því, sem honum var trúað fyrir.
Ég taldi dagana þar til prófum lauk að vori og ég komst um borð í Djúpbátinn og heim í Ögur. Ég elti frænda minn út um öll tún við sauðburðinn. Við vorum með lífið í lúkunum. Aldrei hef ég uppskorið jafn óverðskuldað þakklæti eins og þegar frændi minn barg veiku lífi, en ég fékk hlýja snoppu við vangann, sem umbun fyrir veika von.
Ögur var þá sem fyrr höfuðból. Nafli heimsins. Þangað áttu allir erindi við húsráðendur. Þar þáðu menn beina og gistingu, dag og nótt. Enginn bauð borgun, enda var engin þegin. Þaðan var mönnum vísað til vegar. Konum var meira að segja lyft í tíu pilsum í söðul, löngu eftir að drottningarreið tíðkaðist ekki lengur, hvorki í Skálholti né heima á Hólum.
Í Ögri var alltaf fullt hús matar við veisluborð Líneikar. Þetta var ekki heimili – þetta var höfuðból. Ögur var skáli, reistur við þjóðbraut þvera, sem var Djúpið. Ögur var fimm stjörnu hótel með heimsklassa útsýni yfir Snæfjallaströnd.
Þar voru hestar handa reiðfærum til að komast leiðar sinnar. Þar voru ljósmóðurhendur, ef lífsnauðsyn bar til. Og þar var hjálp í viðlögum á sjó og landi. Eftir að fiskur flúði af grunnslóð, hélt æðardúnninn uppi risnunni.
Gat það hvarflað að nokkrum manni að yfirgefa slíkt ættaróðal? Það hvarflaði að frænda mínum – eina ögurstund – straumur tímans vildi fleyta honum með sér. En hann sá að sér og synti á móti straumnum. Aðrir fóru. En Halldór í Ögri fór hvergi. Hvert hefði hann svo sem átt að fara?
Nú er spurningin: Erum við, sem eftir stöndum, menn til að fara að hans fordæmi?