STÖÐVUM FLÓTTANN – Sjávarútvegsstefnan

Ræða flutt á fundi Samfylkingarfélaganna, landsmálafélags jafnaðarmanna, Rósarinar og Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur í Rúgbrauðsgerðinni laugardaginn 11. september, 2010.
Tilefnið var skýrsla nefndar um stefnu í fiskveiðistjórnarmálum undir formennsku Guðbjarts Hannessonar.

1.
Norðmenn eru ekki einasta skuldlaus þjóð – þeir eru moldrík þjóð. Það stafar af því, að arðurinn af þjóðareign þeirra á olíuauðlindinni hefur runnið til eigandans – þjóðarinnar. Það hvarflaði ekki að Norðmönnum að afhenda nýtingarréttinn að auðlindinni einhverjum forréttindahópi fyrir ekki neitt. Þeir hafa ekki veðsett auðlindina fyrir skuldum. Þotuliðið þeirra hefur ekki fengið sérleyfi til að veðsetja þjóðareignina í spilavítum.

Ólíkt höfumst við að. Í meira en aldarfjórðung hafa handhafar ríkisvaldsins á Íslandi úthlutað einkarétti til að nýta þjóðareignina – fiskimiðin – ókeypis, til forréttindahóps. Þrátt fyrir skýr lagaákvæði um þjóðareign hafa nokkrir tugir fjölskyldna fengið að selja, leigja og veðsetja þjóðareignina, eins og um einkaeign væri að ræða. Gríðarlegir fjármunir hafa horfið út úr greininni. Eftir sitja fyrirtæki, sem eru flest hver sokkin í skuldir og hafa veðsett erlendum lánardrottnum hlutdeild í þjóðareigninni. Þess vegna m.a. erum við Íslendingar, öfugt við Norðmenn, sokknir í skuldir.

2.
Í áratugi hafa íslenskir jafnaðarmenn háð varnarbaráttu gegn sérhagsmuna- og forréttindaöflum, sem hafa leynt og ljóst stefnt að því að tryggja sér einkaeignarrétt á auðlindinni, í trássi við lög, en í krafti hefðar- og venjuréttar.

Það vorum við sem sömdum fyrstu grein fiskveiðistjórnarlaganna, sem skilgreinir auðlindina sem þjóðareign. Það vorum við sem sáum til þess, að breytingar á úthlutun veiðiheimilda myndu aldrei baka ríkinu (les: þjóðinni) skaðabótaskyldu. Þar með áréttuðum við, að handhafar veiðiheimilda ættu einungis tímabundinn nýtingarrétt, en ekki lögvarinn eignarétt, þrátt fyrir framsalsheimildir. Án þessara lagaákvæða væri baráttan um eignarrétt á auðlindinni þegar töpuð þjóðinni. En vegna þessarar varnarbaráttun er enn von.

3.
Nú, árið 2010, eftir að sérhagsmunaöflin hafa stýrt þjóðarskútunni í strand, sökkt sjávarútveginum í skuldir og hneppt stóran hluta þjóðarinnar í skuldafangelsi – núna, þegar fyrsta hreina vinstri stjórnin er við völd – er okkur stillt upp frammi fyrir eftirfarandi spurningum:

  • Ætlum við að semja af okkur þjóðareignina?
  • Ætlum við núna að gefast upp fyrir heimtufrekju forréttindahópanna?
  • Ætlum við að framselja mannréttindi okkar og afkomenda okkar fyrir baunadisk og svikasátt um svo sem ekki neitt?

Þetta mál snýst ekki bara um peninga. Það snýst að vísu um mikla peninga – hundruð milljarða, þegar allt er talið – en arðurinn af afrakstri auðlindarinnar gæti létt verulega á skattbyrði almennings næstu árin, meðan þjóðin er að borga skuldir útrásarvíkinganna.

En þetta mál snýst ekki bara um peninga. Það snýst fyrst og fremst um réttlæti – um mannréttindi okkar og afkomenda okkar. Það snýst um það, hvort við munum búa í framtíðinni í réttarríki – þar sem allir eru jafnir fyrir lögunum – eða hvort við eigum að sætta okkur við að búa í bananalýðveldi, þar sem geðþóttavald fórréttindahópa ræður lögum og lofum.

Grundvallarreglur réttarríkisins eru um atvinnufrelsi og jafnræði fyrir lögunum. Gjafakvótakerfið virðir hvort tveggja þetta að vettugi.

Til er eitthvað sem heitir neyðarréttur. Hugsanlega mátti réttlæta tímabundin frávik frá grundvallarreglum réttarríkisins í nafni þess að forða neyðarástandi, eins og t.d. yfirvofandi hruni nytjastofna við Íslandsstrendur.

En nú höfum við búið við það í áratugi, að gjafakvótakefið brýtur í bága við hvort tveggja, lög og stjórnarskrárvarin mannréttidi, án þess að yfirlýst markmið kerfisins – að byggja upp afrakstursgetu nytjastofna – hafi náðst. Því fer reyndar víðs fjarri. Einmitt þess vegna er ærin ástæða til að endurskoða kerfið frá grunni – og engin haldbær rök fyrir því að framlengja óbreytt ástand.

Það er ekkert sem réttlætir það til langframa að svipta menn atvinnufrelsi og að misbeita pólitísku valdi – ríkisvaldinu – til að skapa sumum forréttindi á kostnað annarra. Það heitir valdníðsla. Við það er ekki búandi. Þess vegna semjum við ekki við forréttindaöflin um að framlengja óbreytt ástand.

Hér á við hið fornkveðna að þótt sumir stjórnmálamenn telji sér það henta að lúta valdi auðsins, þá krefjumst við þess, að þeir sem starfa í umboði okkar, standi á réttinum.

4.
Við skulum ekki gefa okkur það fyrirfram, að þjóðin hafi nú þegar tapað þessu máli. Ef til vill er það fullsnemmt fyrir sægreifana að fagna sigri. Nefnd hagsmunaaðila, sem nú hefur skilað af sér til ráðherra, hefur algerlega láðst að útfæra sína svokölluðu “samningaleið”. Það stendur því enn upp á ríkisstjórnina og stjórnarflokkana, að leggja fyrir þjóðina raunverulega valkosti um frambúðarlausn, sem þjóðin getur sætt sig við. Við krefjumst þess að stjórnarflokkarnir standi við stefnu sínu og stjórnarsáttmála og gefin fyrirheit gagnvart kjósendum sínum. Treysti þeir sér ekki til þess, þá er það lágmarkskrafa, að málinu verði skotið undir dóm þjóðarinnar, áður en þjóðareignin verði endanlega af henni tekin.

Þeim dómi kvíðum við ekki.