Um pólitíska ábyrgð – Viðtal Egils Helgasonar við Jón Baldvin Hannibalsson

Að lokinni óvenjumildri sumarblíðu hófst hinn pólitíska vertíð vetrarins með stuttu haustþingi í byrjun september – og með Silfri Egils, sem vaknaði á ný af sumardvala sunnudaginn 5. september. Í þessu upphafssilfri birtist eftirfarandi viðtal Egils við JBH, viðtalið hefst þegar 34:00 mínútur eru liðnar af þættinum.

Kveikjan að viðtalinu var erindi, sem ég flutti á málþingi með dönskum háskólakennurum í hagfræði, sem byrjuðu nýtt kennsluár með fjögurra daga “rannsóknaræfingu” um íslenska hrunið. Í þessu erindi færði ég rök fyrir því, að hrunið hefði verið sjálfskaparvíti, þótt hin alþjóðlega fjármálakreppa, sem breiddist út um heiminn frá Bandaríkjunum, hafi verið neistinn sem kveikti bálið. Hrun íslenska fjármálakerfisins var hvort tveggja í senn, fyrirsjáanlegt og fyrirbyggjanlegt.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að sömu niðurstöðu í sannleiksskýrslu sinni. Hún færir veigamikil rök fyrir því, hvernig hin pólitíska forysta brást skyldum sínum. Oddvitar stjórnarflokka, ráðherrar í lykilstöðum og ábyrgðarmenn eftirlitsstofnana vissu, eða máttu vita, að framundan væri hættuástand og bar skylda til að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana í tæka tið. Skýrsluhöfundar nafngreina 11 einstaklinga sem eru ábyrgir fyrir meiriháttar mistökum og/eða vanrækslu á embættisskyldum, lögum samkvæmt.

Eigendur og stjórnendur banka og fjármálastofnana eru uppvísir að því að hafa stundað það sem kallað hefur verið “bankarán um hábjartan dag”. Þeir voru látnir komast upp með þetta óáreittir af eftirlitsstofnunum, sem áttu að bera ábyrgð á stöðugleika fjármálakerfisins og rekstrarhæfi einstakra fjámálastofnana. Eftir standa stjórnmálaflokkar rúnir trausti og stjórnkerfi, sem hefur verið afhjúpað fyrir vanhæfni og viðvaningshátt.

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur upplýst, að hún hafi kallað alls 147 einstaklinga í lykilstöðum fyrir sig til skýrslutöku. Það sem þessir ábyrgðarmenn íslenska lýðveldisins eiga sameiginlegt er, að enginn þeirra – ekki einn einasti – kannaðist við að bera nokkra ábyrgð á hruninu. Fyrst svo er, er óumflýjanlegt að þessir einstaklingar verði dregnir til ábyrgðar að frumkvæði ákæruvaldsins. Að því er varðar stjórnmálamennina, er ákæruvaldið í höndum Alþingis. Að því er aðra varðar, er ákæruvaldið í höndum sérstakra saksóknara.

Íslenskt þjóðfélag stendur afhjúpað sem krossvenslað klíkusamfélag. Nú reynir á, hvort þjóðfélag af þessari gerð og smæð, hefur burði til að koma lögum yfir þá, sem valdið hafa þjóðinni skömm og skaða með vanrækslu sinni og viðvaningshætti. Það mun koma í ljós á næstu dögum, að því er varðar stjórnmálamenninna. Um hitt ríkir djúp þögn, hvort hinn sérstaki saksóknari muni aðhafast eitthvað, að því er varðar þá sem eru uppvísir að vanhæfni sem stjórnendur Seðlabanka, fjármálaeftirlits og ráðuneyta.

Vitað er, að það mun taka nokkur ár að lögsækja fjárglæframennina sjálfa, enda er um að ræða alþjóðlegt misferli, sem teygir anga sína vítt og breitt um heiminn. Fáir hafa skilið það til fulls, að gjaldþrot íslensku bankanna þriggja er af þeirri stærðargráðu, að flokkast með tíu umfangsmestu gjaldþrotum fjármálasögunnar. Það er borin von að íslenska réttarfarskerfið eitt og sér ráði við svo risavaxið mál án utanaðkomandi aðstoðar.

Vitur maður hefur sagt, að sá sem ekki fáist til að viðurkenna mistök sín, geti ekkert af þeim lært og sé því dæmdur til að endurtaka þau.
Ýmislegt bendir til þess, að íslenska þjóðin kunni að verða dæmd til þessa hlutskiptis. Þeir sem enn lesa Morgunblaðið undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra í þrettán ár og seðlabankastjóra í fjögur ár í aðdraganda hruns, eru minntir á þetta dapurlega hlutskipti á degi hverjum. Á síðum blaðsins er þeirri söguskoðun haldið að lesendum, að íslenska þjóðin sé saklaust fórnarlamb utanaðkomandi afla. Íslendingar beri því enga ábyrgð á ógæfu sinni og skuldi engum neitt í uppgjörinu. Reyndar gengur ritstjórinn og lærisveinar hans svo langt að segja, að íslenska þjóðin sé í reynd fórnarlamb óvinaþjóða, sem hafi tekið höndum saman um að koma Íslendingum á kné. Og lærisveinarnir taka undir um að þjóðin sé í umsátursástandi.

Þessir menn hafa þann boðskap að flytja þjóðinni, að nú verði öll þjóðleg öfl að snúa bökum saman í eins konar jihad – krossferð – gegn óvinaþjóðum (les: Evrópusambandinu) og leppum þeirra (les: þeim sem vilja láta reyna á aðildarsamninga við Evrópusambandið og leggja samningsniðurstöðu fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu). Svona málflutningur kallast á útlensku “the politics of paranoia” – þ.e.a.s. stjórnmál sem útiloka upplýsta umræðu og enda í ofsóknaræði.
Þjóð sem er haldin slíku hugarfari, er af sjálfu leiðir, fyrirmunað að læra nokkuð af mistökum sínum.

Það er í mótlætinu, sem reynir á einstaklinga og þjóðir. Þá kemur í ljós, hvort menn geta látið mistök sín og misgerðir sér að kenningu verða; hvort við getum lært af mistökunum og bætt fyrir þau. Um þetta mun þjóðmálaumræðan snúast næstu misserin. Viðtalið við Egil er innlegg í þá umræðu.